01.05.1924
Efri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

37. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Í 3. gr. laga nr. 74, 1921, um tekjuskatt og eignarskatt, er ákvæði um það, hvernig skuli leggja skatta á ýms fjelög, þar á meðal erlend vátryggingarfjelög, en samkvæmt þessum ákvæðum er ágóðinn af starfsemi þeirra hjer á landi skattlagður án tillits til þess, hvernig heildarstarfsemi þeirra gengur. Yfir þessu hefir verið kvartað og samkvæmt tillögum skattstjóra hefir fyrverandi fjármálastjórn lagt þetta frv. fyrir þingið. En samkvæmt því er skatturinn miðaður við ágóðann af heildarstarfsemi fjelagsins, þannig, að sá hluti heildarágóðans, sem svarar til hlutfallsins milli iðgjaldatekna fjelagsins hjer og allra iðgjaldatekna þess, er skattlagður hjer. Það er ómögulegt að segja um það fyrirfram, hvernig niðurstaðan af þessu verður fyrir ríkissjóð, en það er þó líklegt, að ríkissjóður missi engar tekjur við þetta; og því verður ekki neitað, að þetta er sanngirnismál.

Í nafni fjárhagsnefndar leyfi jeg mjer að leggja til, að frumvarpið verði samþykt.