22.03.1924
Efri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

5. mál, vegalög

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það er tiltölulega stutt síðan hið opinbera tók að gera vegi hjer á landi. Mun láta nærri, að ekki sje nema knapplega hálf öld, sem ríkið hefir stutt þessar samgöngubætur. Áður ljetu menn sjer nægja þá troðninga, sem myndast höfðu ár frá ári og áratug eftir áratug.

Fyrstu íslensku lögin um vegi eru frá árinu 1894, og má því segja, að þá fyrst hafi verið byrjað að leggja þá skipulega og því haldið áfram síðan. Árið 1891 var Ölfusárbrúin bygð og var ekki nema eðlilegt, að jafnstórfelt mannvirki vekti menn til nýrra dáða á sviði samgöngubótanna á landi, enda leið ekki á löngu áður en fyrnefnd lög voru sett, og síðan hefir margt þrekvirkið verið unnið hjer á landi á þessu sviði. En enda þótt framfarirnar hafi orðið einna stórstígastar hvað snertir vegagerð á næstu árum, þá var landið þó vegasnautt eftir sem áður, borið saman við nágrannalöndin og borið saman við þarfir landsmanna.

Fór svo, að árið 1907 voru lögin frá 1894 endurskoðuð í heild, en áður höfðu verið gerðar á þeim breytingar og aukið við þau, t. d. á þinginu 1900 og oftar. En árið 1907 voru samin ný vegalög, þar sem tekin voru upp eldri ákvæði, þau sem ekki þóttu úrelt orðin, en hinsvegar sett mörg ný ákvæði, er betur þóttu svara kröfum tímans. Um leið og þessi lög voru sett, voru úr gildi numin öll eldri lagafyrirmæli um vegi.

Áður hafði stjórnin látið verkfræðing landsins, sem þá var Jón Þorláksson, ferðast um landið til þess að rannsaka ásigkomulag þeirra vega, sem fyrir voru, og jafnframt athuga og gera tillögur um, hvar heppilegast væri að leggja nýja vegi. — Eftir gömlu lögunum frá 1894 var landssjóði skylt að leggja allar flutningabrautir og halda þeim við. En flutningabrautir voru eftir þeim lögum allir þeir vegir, sem aðalvörumagn helstu hjeraðanna var flutt um, sem sje þeir vegir, sem lágu frá helstu höfnum og verslunarstöðum inn og upp í sveitir landsins. Skyldu þeir vera akfærir hlöðnum vögnum að sumarlagi.

Þjóðvegir, eða öðru nafni póstvegir, svo og fjallvegir, voru líka lagðir á kostnað landssjóðs samkv. sömu lögum. Þó átti alt að helmingi sýsluvegagjalds að ganga til póstvega, þ. e. þjóðvega, innan sýslu, ef þeir lægju eftir endilangri sýslunni.

Þjóðvegir og fjallvegir áttu aðeins að vera ruddir svo, að þeir væru reiðfærir, en um akfæra þjóðvegi eða þjóðvegakafla var ekki farið að tala þegar lögin 1894 voru samin.

Þegar fram í sótti, virðist svo, sem landssjóði hafi orðið um megn að uppfylla óskir landsmanna um lagningu nýrra vega, enda bættist eðlilega á hann því meiri viðhaldskostnaður, því fleiri sem vegirnir voru. Því ljet landsstjórnin, eins og áður er sagt, undirbúa ný vegalög 1907, og eru þau ljós vottur þess, hvernig stjórn og þing litu þá á vegamálin í heild sinni.

Með þessum lögum, sem að vísu gera landssjóði að skyldu að leggja allar nýjar flutningabrautir, er tekin upp ný regla, svo þýðingarmikil, að heita má að hún marki alveg nýja stefnu í vegalöggjöf landsins.

Lögin leggja nefnilega sýslufjelögum landsins þá skyldu á herðar að kosta sjálf viðhald flutningabrautanna, hverju innan sinnar sýslu. Frá þessari reglu eru einungis þær undantekningar, að Þingvallaveginum skyldi viðhalda að öllu leyti á kostnað landssjóðs. Þá skyldu Norður- og Suður-Múlasýslur viðhalda Fagradalsbrautinni að hálfu leyti hvor sýslan og viðhald Borgarfjarðarbrautar skyldi Borgarfjarðarsýsla kosta að 1/3, en Mýrasýsla að 2/3.

Að öðru leyti skyldi eitt yfir alla ganga, sem sje, að þegar landssjóður hefði lagt flutningabraut, þá skyldi hún að 2 árum liðnum afhent viðkomandi sýslufjelagi, sem síðan hjeldi henni við að öllu leyti.

Aðalástæðan fyrir þessum breytingum 1907 voru sem hjer segir: Fyrst og fremst var svo litið á, að því fleiri vegi sem landssjóður hefði einn til viðhalds, því minna fje væri hægt að verja til hvers einstaks vegar og tafið fyrir vegagerðum í heild á þann hátt. Þá var litið svo á, að kostnaður við viðhaldið yrði minni, ef sýslufjelögin ættu að annast það. Þau gætu sem sje brugðið skjótara við og gert við skemdir, sem kynnu að verða á vegum, áður en þær yrðu mjög miklar, og á þann hátt yrðu aðgerðir ódýrari en ella. Var eðlilegt, að svo væri litið á, þar sem sýslubúar vita nær því daglega, hvernig vegum líður í sýslu sinni, og jafnframt mátti telja víst, að verkfræðingur landsins gæti ekki, hvernig sem á stæði, annað því að gera við allar skemdir áður en þær mögnuðust um of. Loks var litið svo á, að ekki væri nema eðlilegt og sanngjarnt, að sýslufjelögin önnuðust viðhald þjóðvega og flutningabrauta innan sinnar sýslu, þegar landssjóður hefði kostað lagningu þeirra og afhent þær í prýðilegu ásigkomulagi og telja mátti, að þær væru svo að segja eingöngu lagðar í þágu innanhjeraðsmanna. Þessar voru höfuðástæðurnar fyrir nýmælum vegalaganna 1907.

En í þau 17 ár, sem lög þessi hafa gilt, hafa þótt verða talsverðir misbrestir á, að þau hafi náð þeim tilgangi sínum að koma viðhaldi veganna yfir á sýslufjelögin, þrátt fyrir það, hversu ljós rök voru leidd að því á þinginu 1907, hve ákvæðið um viðhaldsskylduna væri sanngjarnt.

Ástæðan fyrir þessum misbresti mun blátt áfram vera sú, að sýslufjelögunum hefir orðið ofraun að inna þessa skyldu sína af hendi. Hefir jafnvel kveðið svo ramt að þessu, að landssjóður hefir ekki sjeð sjer fært að afhenda sýslufjelögum sumar flutningabrautir, vegna þess að þeim var ekki treystandi til að annast viðhald þeirra.

Þá hafa kröfurnar um, að viðhaldsskyldunni væri ljett af sýslunum sífelt orðið háværari með hverju ári, og minni háttar breytingar, sem bornar hafa verið fram hjer í þinginu í þessa átt, hversu sanngjarnar sem þær annars hafa mátt sýnast vera, hafa átt mjög örðugt uppdráttar, vegna þess, að ef ljetta átti undir viðhaldinu með einu hjeraði, þá komu önnur, sem fljóta vildu með í sama soginu með tilslakanir sjer til handa, og var mjög erfitt að gera upp á milli þeirra óska.

Á síðasta þingi var viðhaldsskyldu Flóavegarins og kafla af Borgarfjarðarbrautinni ljett af sýslufjelögunum, en tekin á ríkissjóð, og samtímis lýsti hæstv. atvrh. (KlJ) því yfir, að hann mundi taka öll vegamál landsins til athugunar fyrir það þing, sem nú stendur yfir.

Með þessu frv., sem hæstv. stjórn hefir nú lagt fyrir þingið, er horfið frá þeirri stefnu, sem tekin var upp 1907. Nú er viðhaldi flutningabrautanna, sem samkvæmt frv. teljast til þjóðvega, ljett af sýslufjelögunum. Ríkissjóði er nú ætlað að bera allan kostnað við þessa vegi. En þetta kemur raunar engum á óvart, því að það hefir verið fyrirsjáanlegt um langt skeið, að kostnaðurinn við viðhald þjóðvega og flutningabrauta yfirleitt yrði að færast yfir á ríkissjóðinn.

Á þeim 46 árum, sem liðin eru síðan byrjað var að leggja fje úr ríkissjóði til vegagerðar og brúagerðar, hefir verið varið til þess tæpum 8 miljónum króna, eða um 170 þús. króna á ári að meðaltali. Þessir útgjaldaliðir urðu hæstir á árunum 1920–’21 og síðan. Eins og sjá má af greinargerð frv., er með þessu stigið að fullu það skref, að færa viðhald flutningabrautanna yfir á ríkissjóðinn.

Eins og sjá má af nál. samgmn., er nefndin að flestu leyti samþykk frv. eins og það kom frá hæstv. stjórn. Nefndin hefir ekki komið fram með neinar stórar brtt. við frv., heldur aðeins nokkrar smávægilegar breytingar, og nefndin vill mæla með því, að frv. í heild sinni fái fram að ganga, þótt henni hinsvegar dyljist það ekki, að það hafi í för með sjer mikinn kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Hinsvegar bendir nefndin á það, að þess sje ekki að vænta í náinni framtíð, að neinu fje verði varið til lagningar nýrra vega, heldur verði aðeins hugsað um að halda við þeim vegum, sem þegar hafa verið lagðir.

Skal jeg þá víkja nokkrum orðum að breytingum þeim, er nefndin vill gera á frumvarpinu. Að því er Biskupstungnabraut snertir, getur nefndin ekki fallist á, að lega þeirrar brautar sje óákveðin frá Torfastöðum að vegamótum Geysisbrautar. Fyrir nefndinni lágu áskoranir frá því nær öllum búendum í Biskupstungum, og mörgum í Ytrihrepp, um að brautin, sem nú þegar er fullger að Torfastöðum, verði látin liggja hjá Vatnsleysu, og þar með valin hin svonefnda eystri leið. Nefndin vildi verða við þessum áskorunum, því að það er mjög nauðsynlegt fyrir hrepp þann, er í hlut á, að þetta sje ákveðið, svo hann geti hagað innanhreppavegagerðum sínum eftir því. Og því kom nefndin fram með brtt. við 2. gr. A. 4., þess efnis, að á eftir „Biskupstungum“ bætist inn í: hjá Vatnsleysu.

Að því er Norðurlandsveginn snertir, þá hafa nefndinni borist tilmæli frá þm. Húnavatnssýslu um það, að breytt verði um þá stefnu, sem gert er ráð fyrir í frv., að hann hafi, og að í staðinn fyrir að láta hann liggja um Línakradal og Vesturhóp yfir Víðidalsá fyrir utan Faxalæk, verði hann látinn liggja þar, sem heitir Múlavegur, sunnan við Stórhól og sem leið liggur að brúarstæði á Víðidalsá hjá Steinsvaði. Nefndin hefir fallist á þessa breytingu, vegna þess að henni þótti sýnt, að sú lega myndi vera heppilegri, og ennfremur vegna þess, að gert er ráð fyrir, að ríkissjóði myndi sparast um 60 þús. kr. við þessa breytingu.

Við 49. gr. frv. vill nefndin gera þá smávægilegu breytingu, að lágmark hreppsvegagjaldsins verði hækkað úr 4 kr. í 5.

52. gr. frv. hefir inni að halda ákvæði um það. hvernig fara skuli með vagnhesta, sem skildir sjeu eftir á vegum úti. Nefndinni finst það ekki nægilega trygt, þótt hestur, sem er fyrir vagni, sje bundinn, eins og ætlast er til í frv., og þess vegna vill hún breyta greininni þannig, að ökumanni sje ávalt skylt að leysa hest frá vagni undir slíkum kringumstæðum. Aðrar breytingar en þær, sem jeg nú hefi minst á, hefir nefndin ekki sjeð ástæðu til að gera við frv. En hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) hefir komið fram með 2 brtt. við frv.; önnur þeirra er um það að bæta einni braut við þjóðvegi, sem sje Eyjafjarðarbraut frá Akureyri að Saurbæ, og hin viðvíkjandi hreppsvegagjaldinu, og skal jeg láta bíða að minnast á þær, þar til hv. flm. hefir gert grein fyrir þeim.

Annars vil jeg fyrir nefndarinnar hönd mæla með þessu frv. og leyfi mjer að óska þess, að hv. deild samþykki það með þeim breytingum, sem jeg hefi minst á og nefndin hefir aðhylst.