22.03.1924
Efri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

5. mál, vegalög

Guðmundur Ólafsson:

Það eru nú svo miklar umræður í þessari háttv. deild, að ekki er hægt að þegja þær af sjer. Það var misskilningur hjá hv. 1. þm. Eyf., að það væru aðeins tvær flutningabrautir, sem ríkissjóður ætti ekki að halda við samkvæmt frv. þessu, því að eftir því eiga þessar brautir að vera sýsluvegir framvegis. Aftur á móti er það rjett, að þingið í fyrra ætlaðist til, að öllum þjóðvegum væri haldið við af ríkinu, og er í frv. þessu gert ráð fyrir því. En svo stendur á um þessar brautir, að sá hluti þeirra, sem um er deilt, liggur lengra upp í hjeraðið frá aðalkauptúninu en á þjóðveginn eða póstveginn.

Það er vitanlegt, að það er mjög misjafnt, hve haganlega þjóðvegirnir liggja yfir sýslurnar hvað gagn þeirra innan hjeraðs snertir. Mest verða notin þar, sem þeir liggja um endilanga sýsluna, eins og t.d. er um Gullbringusýslu. Virðist því síst þörf fyrir hv. 2. þm. G.-K. að vera að tala um að koma með brtt. við frv. þetta. Mjer skilst, að vegurinn í Eyjafjarðarsýslu muni liggja líkt og í Austur- Húnavatnssýslu, ekki aðeins þvert yfir sýsluna, heldur í ýmsum krókum, t. d. eftir endilöngum Öxnadal í Eyjafjarðarsýslu og Langadal í Austur-Húnavatnssýslu. Annars er mjer illa við að þurfa að vera að spilla fyrir hv. 1. þm. Eyf., því eins og kunnugt er, erum við flokksbræður, og ætti jeg því síst að verða til þess, en eftirláta það fremur einhverjum öðrum í hv. deild. En jeg er hræddur um, að verði till. hans samþykt, þá verði þar ekki staðar numið.

Jeg er hissa á, að hv. 3. landsk. þm. (HSn) skuli ekki koma með brtt., þar sem líkt stendur á í hans hjeraði og í Eyjafirði, og hann var óánægður í nefndinni, en vitanlega sjerstaklega yfir því, hve margar brýr væru þar á veginum. En þar er jeg ekki sömu skoðunar og hann, því að jeg tel það kost, að brýr sjeu sem flestar komnar á sýsluvegi, þar sem þeirra er þörf, þótt viðhaldsskyldan hvíli á sýslunum.

En eins og jeg hefi tekið fram, þori jeg ekki að samþykkja brtt. háttv. 1. þm. Eyf., því jeg óttast, að þá komi margir á eftir. Meira að segja býst jeg við, að jeg gæti ekki setið hjá sjálfur, því að þá gæti jeg ætlast til að fá þjóðveg milli Blönduóss og Skagastrandar.

Þá verð jeg einnig að vera á móti síðari brtt. háttv. 1. þm. Eyf. á þskj. 190. Er jeg þar sömu skoðunar og hv. 1. þm. Rang. Jeg sje ekkert á móti því, þó að svona hátt vegagjald komi fyrst til greina, áður en farið er í sveitarsjóðinn. Því að þó aldrei nema að það líti vel út að halda því fram, að niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum sje altaf sanngjörnust, þá vitum við það, sem komnir erum nokkuð til aldurs, að slík niðurjöfnun getur stundum farið fjarri rjettlætinu. Annars gæti vel komið til greina, að hreppsnefndir tækju tillit til þessa gjalds í niðurjöfnun útsvara, ef farið væri að leggja það á með hámarki sínu.

Í minni sýslu var það almenn skoðun, að hækka þyrfti vegagjaldið, og ganga helst lengra en gert hefir verið, með því t. d. að láta kvenfólk gjalda hálft gjald við karlmenn. Jeg hreyfði þessu í nefndinni, en fjekk enga áheyrn, og að líkindum er ekki gott að halda því fram hjer, þegar kvenfólk er til andsvara. En jeg fyrir mitt leyti er ekkert fráleitur þessari hugsun, því að jeg tel kvenfólkið hluta af þjóðinni, sem þurfi á góðum vegum að halda engu síður en karlmennirnir. Að síðustu vil jeg endurtaka það, að jeg er hræddur um, að verði tillaga þessi um að fjölga þeim vegum, er ríkissjóður á áð kosta viðhald á, samþykt, þá komi margar aðrar á eftir, sem ekki verði gott að greina á milli.