22.03.1924
Efri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

5. mál, vegalög

Eggert Pálsson:

Jeg hefði getað fallist á að taka þennan vegarspotta, sem hv. 1. þm. Eyf. ber fyrir brjósti, inn í tölu þjóðvega, ef hann hefði átt að setja sjálfa Akureyri í samband við aðalþjóðveginn. En nú er það svo, að þessi vegarspotti liggur frá Akureyri til Saurbæjar, og Saurbær er aðeins eitt einstakt býli. Hefði hjer verið alt öðru máli að gegna, ef Saurbær hefði verið fólksmargt þorp eða þá að aðalþjóðvegurinn hefði legið um Saurbæ. Þá hefði ekki verið nema sanngjarnt, að vegarspottinn þaðan til Akureyrar hefði verið tekinn inn í kerfið, til þess að Akureyri — höfuðstaður Norðurlands — stæði ekki fyrir utan kerfið. En nú á þjóðvegurinn að liggja um sjálfa Akureyri, og þess vegna væri það brot á meginreglu frumvarpsins að taka þessa umræddu flutningabraut með. Jeg verð því að halda fast við það, að þessi breyting sje ekki rjettmæt og brjóti þá hugsun, sem liggur til grundvallar fyrir frv. Um brtt. við 18. gr. þýðir ekki að þrátta, því að þar erum við á gagnstæðri skoðun. Jeg lít svo á, að ekki sje hægt að fá rjettlátara gjald í þessu tilfelli en af verkfærum mönnum. Hverjir eru yfir höfuð færari um að borga heldur en einmitt verkfærir mennt Þeir, sem eru á móti slíku ákvæði, geta tæplega verið hlyntir hugmyndinni um þegnskylduvinnu. Það liggur í hlutarins eðli, að verði tillaga hv. þm. samþykt, þá geta hreppsnefndirnar látið duga að hækka hreppsvegagjaldið um svo sem 10 aura, og rokið svo í sveitarsjóðinn og borgað úr honum svo eða svo háa upphæð til vegagerða í hreppnum. Jeg get því ekki skilið annað en að vegamálastjóri sje og hljóti að vera á móti þessari brtt., því að hún stríðir gegn þeirri grundvallarhugsun, sem liggur á bak við 18. og 20. gr. eins og hann hefir orðað þær. Það þýðir sem sje ekki að vera að leyfa hækkun gjaldsins í einni greininni, ef svo hin næsta gerir það svo að engu.