14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

5. mál, vegalög

Klemens Jónsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir nú sagt sögu vegalaganna frá byrjun, og hefi jeg ekkert við þá sögu hans að athuga. En jeg vildi nú í stuttu máli gera grein fyrir, hvers vegna þetta frv. er fram kotmið. Fyrir þinginu lá í fyrra frv. um breytingu á vegalögunum, og var núverandi forsætisráðherra formaður þeirrar nefndar, sem hafði málið til athugunar í Ed. Nefndin tók það fram, að óhjákvæmilegt væri að taka öll vegalögin til athugunar. Jeg lofaði að taka vegalögin til gagngerðrar endurskoðunar fyrir þetta þing. Nefndin í Ed. lagði aðaláherslu á, að þungamiðja frv. væri sú, að ljetta viðhaldi akbrauta af sýslunum. En þangað til þetta kæmist alment á, lagði hún til, að viðhaldi tveggja brauta væri ljett af sýslunum, Flóabrautarinnar og nokkrum hluta Borgarfjarðarbrautarinnar. Þó viðurkendi nefndin, að fleiri brautir væru til, sem engu síður væri rjett að ljetta af sýslusjóðunum. Nefndi hún einkum til þess Holtaveginn, enda er viðhald hans í örðugasta lagi, sökum hins mýrlenda vegarstæðis á löngum kafla. Einnig gat hún Fagradalsbrautarinnar á sama veg. Þó vildi nefndin ekki ganga lengra að sinni en að taka þessar tvær nefndu brautir upp á ríkissjóðinn, enda þótt hún viðurkendi, að ástæða væri til þess. Hv. þingmenn S.-M. og Rang., er voru í Ed. í fyrra, fluttu till. um að viðhaldi Holtavegarins yrði ljett af sýslunni, og nokkrum hluta Fagradalsbrautarinnar, en vegna loforðs míns um að láta fara fram endurskoðun laganna fyrir þetta þing, tóku þeir tillögur sínar aftur, en annars hefðu þeir vafalaust fengið tillögur sínar samþyktar. Þetta loforð verður því rofið, ef þetta frv. nær ekki fram að ganga. Jeg fjekk vegamálastjóra til að semja frv. Hæstv. fjrh. var að finna að því, að ekki væri nógu ítarlega skýrt frá þeim kostnaði, er þessi breyting hefði í för með sjer fyrir ríkissjóð, nje heldur hve miklu væri ljett af sýslusjóðum. Jeg skal viðurkenna, að æskilegt hefði verið, að slíkar upplýsingar hefðu verið fyrir hendi. En frv. kom alt of seint til stjórnarinnar til þess, að það væri hægt að íhuga það nánar, einkum hvað kostnaðarhliðina snertir. Það var líka af sömu ástæðum, að jeg fór ekki fram á breytingar í einstökum atriðum, enda þótt ástæða kynni að hafa verið til þess.

Út af ummælum hv. 2. þm. Eyf. (BSt) um Eyjafjarðarbrautina og nokkurn hluta Borgarfjarðarbrautarinnar, er hann vill láta sama yfir þær ganga og aðrar brautir, þá er það að vísu satt, að Eyjafjarðarbrautin má skoðast fullkomlega hliðstæð Húnavatnssýslubrautinni, og því væri óeðlilegt að gera þar upp á milli, og persónulega hefi jeg tilhneigingu til að greiða atkvæði með henni.

Jeg álít, að ekki sje hægt að sjá það fullkomlega fyrirfram, hverjar fjárhagslegar afleiðingar þetta frv. kann að hafa, en í svipinn gerir þetta þó ekki svo mikið til. Auðvitað verður ekkert fje veitt í þessu skyni, nema það, sem ákveðið er í fjárlögum hvers árs. Og jeg er þeirrar skoðunar, að þótt frestað yrði að samþykkja þetta frv. um eitt ár, þá verði það samt sem áður að lögum innan skams.

Jeg þarf ekki að taka það fram, hve þung byrði viðhald veganna er fyrir sýslusjóðina. Þannig er Árnessýsla fyrir löngu hætt að geta risið undir viðhaldi Flóabrautarinnar. Þessa braut nota þó bæði Rangæingar, Skaftfellingar og Reykvíkingar, og geta því allir sjeð, hve ósanngjarnt er, að Árnessýsla beri ein kostnað af henni. Sama má segja um Holtaveginn. Það má segja, að hann sje notaður af Suðurlandsbúum yfirleitt. Fyrst búið er að ljetta viðhaldi Flóabrautarinnar af sýslunni, mælir öll sanngirni með því, að sama verði gert við Holtaveginn, sem er beint áframhald af Flóaveginum.

Jeg gat þess, að Árnessýsla væri hætt að geta risið undir viðhaldi veganna, og veit jeg, að hæstv. fjrh. muni vera þeim málum kunnugur. Sýslan stendur nú í 40 þús. kr. skuld við ríkissjóð, og eru ekki miklar líkur til, að sú skuld verði endurborguð innan skamms.

Þess ber að gæta, að menn eru farnir að leggja mikinn hug á að koma upp hliðarakbrautum og brautum þaðan inn á hvert heimili. Hliðarbrautirnar eru þegar orðnar mjög margar, en þar sem sýslusjóðirnir hafa víða sligast undir viðhaldi aðalbrautanna, geta þeir ekki lagt neitt af mörkum til þessara hliðar- og sýsluvega. Því er nauðsynlegt að ljetta viðhaldi aðalbrautanna af sýslusjóðunum, til að gera þeim fært að inna af hendi nauðsynlegar vegabætur í hjeraði. Það þykir nú ef til vill undarlegt að vilja fara að íþyngja ríkissjóði á þessum erfiðu tímum, en þess verður að gæta, að sá kostnaður vinst upp á þann hátt, að sýslusjóðirnir verða færari um að starfa að nýjum endurbótum. Í þessu er því ekki eins mikið ósamræmi og sýnist.

Jeg vil ekki lengja umræðurnar með því að fara út í einstök atriði. Jeg tel sjálfsagt að taka þær brtt. til athugunar, sem kunna að koma fram við 3. umr. Tíminn er nægur ennþá til þess að frv. komist gegnum þingið. Eins og jeg hefi tekið fram, get jeg ekki fallist á að frv. sje látið bíða í þetta sinn. Til þess liggja margar orsakir, eins og jeg hefi bent á, og þá ekki síst þau loforð, sem hafa verið gefin um gagngerða endurskoðun vegalaganna, og þau fyrirheit, sem gefin eru sjerstaklega tveimur sýslum.