14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

5. mál, vegalög

Jón Sigurðsson:

Það gladdi mig mjög að heyra, hvernig hæstv. fjrh. lítur á þetta mál. Það hefir verið svo hljótt um þetta frv., að jeg hjelt, að allir ætluðu að samþykkja það breytingalaust. Jeg skal nú í fám orðum lýsa skoðun minni á því. Jeg ætlaði að taka til máls við 1. umr. og kvaddi mjer hljóðs, en þar sem hæstv. forseti tók ekki eftir því og sleit umræðum, hefi jeg orðið að geyma það þangað til nú.

Jeg get ekki annað en undrast þá stefnu, er kemur fram í þessu frv. nú á þessum krepputímum. Háttv. flm. þess (KlJ) flutti nýlega hjer í deildinni frv. til laga um breytingar á berklavarnalögunum, sem gengu í þveröfuga átt við það, sem þetta frv. fer fram á, nefnilega að ljetta byrðar ríkissjóðs. Fleiri frv. í sömu átt hafa komið hjer fram og átt vinsældum að fagna. Þetta frv. fer, eins og jeg hefi þegar sagt, í alveg gagnstæða átt. Það á að færa byrðar sýslusjóðanna yfir á ríkissjóð, sem allir vita þó, að á þegar fullerfitt uppdráttar. Þetta er líka gert af svo miklu handahófi í frv., að ekki má láta það mótmælalaust.

Það hefir verið drepið á það, hvernig vegalögin frá 1907 urðu til. Það er skiljanlegt, að meðan lítið var til af góðum vegum, væri áhersla lögð á, að ríkissjóður gerði sem mest að nýbyggingum, en að sýslusjóðir væru látnir annast viðhaldið. En með þessu frv. á að demba öllum viðhaldskostnaði á ríkissjóð, hvort heldur hann eða sýslusjóðirnir hafa kostað byggingar veganna. Þetta á að komast á árið eftir að ákveðið er, að ríkissjóður fari að taka verulegan þátt í viðhaldi veganna samkvæmt lögunum um sýsluvegasjóði.

Hjer mætti fara millileið, því að hjer hafa komið fram öfgar á báða bóga.

Þjóðvegir eiga að vera nokkurskonar hringbraut kringum land alt, alfaravegur, sem tengir saman hjeruðin. Þessa vegi á ríkissjóður að leggja og halda við, en ekki að taka neina útúrkróka á sína arma. Með þessu yrði víða mikilli byrði ljett af hjeruðunum. Að vísu kæmi þetta ef til vill ekki alveg rjettlátlega niður, því að misjafnt er, hvað hjeruðin fá mikið af þjóðvegum, en í það tjáir ekki að horfa. Þetta er mín skoðun, án tillits til þess, þótt mitt kjördæmi verði hart úti.

Ef þetta frv. nær fram að ganga, er ríkissjóði með því gert örðugra fyrir með að annast nokkrar nýbyggingar. Ef allir nauðsynlegir vegir væru þegar lagðir hjer, væri sök sjer, þótt svona frv. kæmi fram. En því er nú ekki að heilsa, að svo sje. Í því efni er margt og mikið eftir ógert. Við getum tæplega sett okkur lægra mark Norðlendingarnir en að lagður verði bílfær vegur alla leið frá Borgarnesi til Akureyrar eða Húsavíkur. Það er enginn vafi, að þetta frv. hlýtur að tefja mjög fyrir öllum slíkum framkvæmdum, ef það nær fram að ganga.

Jeg skal að svo búnu ekki orðlengja þetta meira, enda er búið að ræða ýms smærri atriði málsins, og læt jeg því hjer staðar numið.