14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

5. mál, vegalög

Þórarinn Jónsson:

Jeg skal ekki vera orðmargur. Mjer finst það mjög á vanta hjá hv. samgöngumálanefnd, að hún hafi rakið þann kostnað, er leiðir af framgangi þessa frv. fyrir ríkissjóð, eins og hefði þurft og sjálfsögð skylda var. Hvorki nál. nje frv. sjálft gefa fullnægjandi upplýsingar um þetta. En eins og hæstv. fjrh. sagði, þarf að ganga að þessu máli með yfirlögðu ráði og gæta hins fylsta samræmis og jafnframt þess, að ríkissjóði sje ekki ofboðið.

Það hefir verið talað um, að þessu máli þyrfti að vísa til hjeraðanna og fá upplýsingar hjá þeim. Jeg get nú fyrir mitt leyti ekki lagt mikið upp úr því. Bæði tel jeg vafasamt, að svör þau yrðu nokkurn tíma til upplýsinga málinu og eins mundi það sannast, að stöðugt yrðu áframhaldandi kröfur frá hjeruðunum um undanþágu frá viðhaldinu þar til það yrði fengið.

Í sambandi við þetta má líka minna á það, að ríkissjóður hefir oft dregist lengi með flutningabrautir án þess að geta afhent þær hjeruðunum til viðhalds, sökum þess, að þær hafa verið svo illa gerðar. Þannig er því farið með Húnvetningabraut, að við viðhaldi á henni myndi ekki verða tekið nema með dómi, yrði annars hægt að fá dóm þar á. Þetta þarf því að komast í betra horf, verði breyting ekki á. Brautirnar á að gera vel í upphafi og afhenda þær síðan hjeruðunum til viðhalds, nema þar sem utanhjeraðs umferð er allra mest.

Jeg fæ ekki skilið annað en mál þetta geti gengið fram á þessu þingi, þó að hjeruðin segi ekki sitt orð um það. Og hvað undirbúning snertir frá hálfu vegamálastjóra, þá er líklega ekki að búast við honum betri síðar. Jeg skal ekki vera margorður út af einstökum atriðum, enda þótt sum sjeu mínu kjördæmi viðkomandi. Brtt. hafa enn ekki komið fram, og get jeg því slept að minnast á ýmislegt í sambandi við þetta mál, uns þær koma. Jeg mun, hvað sem öðru líður, greiða frv. atkvæði til 3. umr. Hitt þykir mjer miklu skifta, að hv. samgöngumálanefnd leiti sjer nánari upplýsinga um fjárhagshlið málsins.