14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

5. mál, vegalög

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg vildi byrja mál mitt með þeirri ósk, að frv. yrði þó að minsta kosti vísað til 3. umr., svo að hægt yrði milli umræðnanna að athuga þann kostnað, sem af því myndi leiða. Um þennan kostnað er fyrst og fremst það að segja, að nú þegar er viðhald sumra flutningabrautanna komið yfir á ríkissjóð; auk þess er nokkuð af þeim óafhent sýslunum ennþá. Er jeg því ekki viss um, að frv. auki svo mjög kostnað ríkissjóðs.

Frv. þetta er komið fram af því, að sýslufjelögin hjeldu flutningabrautunum ekki eins vel við og búist var við og til var ætlast. Og voru lög þau, sem sett voru í fyrra um sýsluvegasjóði, aðallega til þess ætluð að gera sýslunum viðhaldið ljettara, og taki ríkissjóður viðhaldið yfir á sig nú, er óneitanlega snúið við á þeirri braut, sem byrjuð var með þeim.

Það er óneitanlegt, að það yrði þungur baggi fyrir ríkissjóð, ef hann ætti að taka yfir á sig kostnaðinn af viðhaldi flutningabrautanna, og auk þess að leggja fram tillagið til sýsluvegasjóðanna samkvæmt lögunum frá í fyrra. Annars vildi jeg óska, að nefndin reyndi fyrir 3. umr. að komast að nokkurri niðurstöðu um það, hve mikill aukakostnaður fyrir ríkissjóð myndi leiða af frv. þessu á næstu árum. Og er jeg viss um, að hún getur það með aðstoð vegamálastjóra.

Hvað 1. og 2. brtt. nefndarinnar snertir, skal jeg taka það fram, að jeg tel þær næsta þýðingarlitlar, því að engum málum, er snerta vegamál, er ráðið til lykta í stjórnarráðinu án þess að bera þau fyrst undir vegamálastjóra, og er farið þar mest eftir tillögum hans. Að fella í burt orðin: „fasta“ og „fastir“ er líka þýðingarlaust, því að þetta nær einungis til fastra aðstoðarmanna, en annara ekki.

Þriðju brtt. nefndarinnar, sem er við 49. gr., tel jeg varhugaverða, og hefði jeg getað betur felt mig við þau ákvæði, sem stóðu í stjórnarfrumvarpinu, að þeir verslunarstaðir, sem eru hreppsfjelög út af fyrir sig, skuli vera lausir við að greiða sýsluvegagjald, ef hreppsfjelagið hefir næsta ár á undan því, er það sýsluvegagjald var lagt á, varið til vegagerða í verslunarstaðnum að minsta kosti jafnmiklu fje úr sveitarsjóði, sem sýsluvegagjaldinu nemur, auk hreppsvegagjaldsins, sem það hafði til umráða það ár; því að það er venja, að þessir verslunarstaðir leggi fram miklu meira fje en hreppsvegagjaldinu nemur, enda hefir þessari reglu verið fylgt síðan vegalagabreytingin var gerð 1911, og hefir altaf reynst vel. Jeg skal játa, að í fyrra var þessu breytt, en hefði átt að taka upp þau ákvæði, hefði mátt vísa til þeirrar greinar. En ef nefndin hefði viljað halda fast á þessari breytingu, hefði brtt. átt að vera þannig, að greinin fjelli burt.