14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

5. mál, vegalög

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Það væri margs að gæta, ef svara ætti öllum þeim mótmælum og athugasemdum, sem fram hafa komið, en það mun jeg ekki gera, heldur aðeins stikla á stærstu atriðunum.

Skal jeg þá fyrst snúa mjer að hv. þm. Mýramanna (PÞ). Hann hafði yfirleitt lítið að athuga við nefndarálitið, en fann að því, að jeg hefði talið aðalbreytinguna á vegalögunum í því fólgna, að feld væri niður viðhaldsskylda hjeraðanna á nokkrum akbrautum og lögð á ríkissjóð, auk viðhaldsskyldu þeirrar, sem nú hvílir á honum. En hann taldi aðalbreytinguna í því fólgna, að ýmsum vegaköflum er nú bætt inn í þjóðvegatölu. Þetta skiftir ekki miklu máli. Að því er snertir undanþágu hjeraðanna frá viðhaldsskyldu nokkurra akbrauta, er aðalbreytingin fólgin í því, að bæta úr misrjetti. Því að eins og kunnugt er, eiga hjeruðin samkvæmt vegalögunum frá 1907 að halda við akbrautunum. En nú þegar er búið að ljetta þessari viðhaldsskyldu af sumum hjeruðunum. Þannig tók þingið í fyrra yfir á ríkissjóð viðhald einnar dýrustu brautar landsins, sem er Flóavegurinn, og ennfremur viðhald Borgarnesbrautarinnar að mestu. Auk þess hafa sumar brautirnar verið afhentar hjeruðunum án lögskyldrar viðgerðar. Jeg tel og hefi talið það aðalbreytinguna með þessu frv., að það fullnægi þeirri sjálfsögðu rjettlætiskröfu, að þau fáu hjeruð, sem eftir eru með viðhaldskvöðina, sjeu látin njóta jafnrjettis við hin. Hv. þm. taldi sig ekki mótfallinn brtt. nefndarinnar, en óttaðist, að þær gætu orðið frv. að falli hjá Ed. Skal jeg því geta þess, að þær voru bornar undir samgöngumála nefnd efri deildar, og hún hefir lýst samþykki sínu á þeim. Þarf því ekki að óttast, að þær verði frv. að fótakefli.

Hæstv. fjrh. (JÞ) lagðist þungt á móti frumvarpinu og þótti það fljótfærnislega afgreitt, sjerstaklega að því leyti, að engin áætlun er um það, hve mikinn aukakostnað frv. myndi hafa í för með sjer fyrir ríkissjóð. Jeg skil vel þessa að stöðu hæstv. ráðherra. Honum er farið eins og búanda í harðindum, sem sjer heystabbann minka dag frá degi, en verður þó að skamta meðan endist. Öll hugsun hæstv. ráðherra snýst um „stabbann.“ Verð jeg því að minna á það, að hjer er ekki stefnt til neinna nýrra útgjalda fyrir ríkissjóð, nema eftir því, sem þingið ákveður hverju sinni í fjárlögum. Hjer er aðeins ákveðið, hvernig vegirnir eigi að liggja í framtíðinni, þegar þingið sjer fært að veita fje til að leggja þá.

Hvað það snertir, að kostnaðaráætlun vanti, vil jeg benda á það, að ákveðið hefir verið að leggja fjölda af símalínum, án þess að nokkur kostnaðaráætlun hafi fylgt. Jeg held sömuleiðis, að ónákvæm áætlun hafi legið fyrir um kostnaðaraukann af vegalögunum frá 1907 þegar þau voru gefin út. Enda hygg jeg, að flestir vegir hafi farið fram úr áætlun, sem gerðir hafa verið síðan. Það er augljóst, að engin leið er að segja um, hvað áformaðir vegir muni kosta í framtíðinni, því að fullvíst er, að dráttur verður mikill á flestum þessum vegalagningum, jafnvel um 20–30 ár á sumum. Það er fullvíst, að áætlun um þessar vegagerðir, sem samin er í dag, er orðin bandvitlaus eftir nokkur ár, vegna hverfulleika gengisins.

Hefir því enga þýðingu að gera öðruvísi áætlun en þá, sem vegamálastjóri gerir í greinargerð frumvarpsins, en hann kveður svo að orði um kostnaðarauka ríkissjóðs, að hann muni aðallega vera í pappírnum, því að um nokkurn verulegan kostnaðarauka sje ekki að ræða, þar sem fullvíst sje, að þeir fáu akbrautarkaflar, sem ekki eru þegar orðnir viðhaldsskyldir fyrir ríkissjóð, hljóti að koma á hann mjög bráðlega, en um nýja vegi akfæra er lítið að ræða í frv.

Ýmsir hv. þm. hafa tekið í sama strenginn og hæstv. fjrh., um að kostnaðaráætlun vantaði; meðal þeirra voru hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) og hv. 2. þm. Skagf. (JS). Eru sömu svörin við því öllu, að hjer er ekki verið að binda ríkissjóði neinn heljarbagga, eins og þeir láta í veðri vaka, því að, eins og hv. 2. þm. Rang. (KlJ) tók fram, kemur þetta aukna vegaviðhald á ríkissjóð áður en langt líður, ef ekki á þennan veg, þá gegnum tillag til sýsluvega eða öðruvísi. Það er ekkert rjettlæti í því að leggja dýrt vegaviðhald á einstök hjeruð þegar öll hin eru leyst undan því.

Háttv. 2. þm. Eyf. (BSt)) vildi halda því fram, að allir þjóðvegirnir, sem taldir eru í 2. gr. frv., ættu að verða akfærir og að það hlyti að vera tilgangurinn. En jeg þykist hafa skilið vegamálastjóra svo, að það sje ekki ætlunin um þá nýju þjóðvegi, nema þá á stuttum köflum. Enda þýðingarlítið að gera þá akfæra alla, þar sem lítil flutningsþörf er og þar sem nokkur hluti veganna liggur yfir torfær fjöll, og þeir því huldir gaddi mikinn hluta vetrarins og jafnvel langt á sumar fram.

Hæstv. atvrh. (MG) lagði ekki eins mikla áherslu á byrðarauka landssjóðs af frv. þessu eins og ýmsir aðrir, en taldi hinsvegar líklegt, að lögin frá síðasta þingi, um sýsluvegasjóði, gætu orðið ríkissjóði allþungur baggi. En að þau lög verði sjerstaklega þungur baggi fyrir ríkissjóð, held jeg að óþarft sje að óttast. Gjald ríkissjóðs eftir þeim er bundið við það, að sýslurnar skattleggi fasteignir sínar til vega meira en nemur 2‰, en það hygg jeg þær geri fæstar, nema sjerstaklega brýn þörf sje á vegagerð eða erfitt viðhald akbrauta. Móti 2–4‰, sem sýslurnar leggja fram, þarf ríkissjóður að leggja jafnmikið. En hann þarf ekki að leggja fram neitt móti fyrstu 2‰, og þungt verður gjaldið eigi á honum fyr en tillag sýslnanna er komið yfir 4‰, og þá fyrst getur verið að ræða um verulegan bagga fyrir ríkissjóð af þeim lögum. Eins og fyr var sagt, trúi jeg því laust, að fasteignagjald sýslnanna fari víða fram úr 2‰.

Þá vildi hæstv. atvrh. ekki fallast á, að brtt. nefndarinnar væru til verulegra bóta, og heyrðist mjer hann telja þær þýðingarlausar eða þýðingarlitlar. Hafi mjer misheyrst, leiðrjettir hæstv. atvrh. vonandi þetta.

Jeg tók það fram áður, að brtt. við 4. gr. væri gerð til samkomulags við einn nefndarmanna. Tel jeg hana þarflausa, en um leið meinlausa. Svipað má segja um brtt. við 7. gr. Það virðist enginn ágreiningur í nefndinni um það, að heppilegra væri að fella niður þetta eina orð „fasta“. Það týndist ekkert úr frv., þó að það fjelli úr, en aftur gæti verið auðveldara að losna við þessa menn, þegar þeirra væri ekki lengur þörf, ef þeir væru ekki fastráðnir.

Aftur er brtt. við 49. gr. ákveðin efnisbreyting, er skiftir allmiklu. Jeg get ekki verið sammála hæstv. atvrh. um það, að rjett sje að láta þetta ákvæði laganna frá 1911 óbreytt, að kauptún, sem er sjálfstæður hreppur, skuli laust við að greiða vegagjald í sýslusjóð. Það hefir komið upp ágreiningur um þetta á Austurlandi, og það oftar en einu sinni. Kauptúnin eru venjulega fjölmennustu hrepparnir, og munar því sýsluvegasjóði miklu, ef þeir sleppa við sýsluvegagjald, en það hafa þeir getað og gert oft og tíðum síðan 1911. Áður gátu þeir það ekki, eftir ákvæðum laga 1907, sem þá giltu. Sumstaðar kann að hafa verið ástæða til að ívilna kauptúnahreppum á þennan hátt, þar sem mikið þurfti að leggja í vegagerðir innan kauptúnsins vegna brattlendis og torfæru, en þar, sem landslag er sljett og vegarstæði góð, er lítil ástæða til þess. Slíkir hreppar munu ófúsir að gangast undir samþyktalögin frá 1923, ef 49. gr. þessara laga verður óbreytt, því að þau lög ætla þessum hreppum ætíð að greiða hálft gjaldið í sýsluvegasjóð, og alt, ef ekki er brýn vegaþörf kauptúnsins og fullnægt settum skilyrðum laganna. En eftir brtt. nefndarinnar hlíta þessir hreppar sömu kjörum sem eftir samþyktalögunum, og finst mjer það bæði sanngjarnlegt og samræmis vegna óumflýjanlegt. Jeg hefi borið þetta undir vegamálastjóra, og kannaðist hann við, að hann hefði ekki tekið eftir þessu ósamræmi frv. við samþyktalögin frá síðasta þingi. Fjelst hann á, að rjett væri að gera þessa breytingu vegna samræmisins. Það virðist og ekki heldur hallað á kauptúnin, þó að þessu sje breytt; þau hafa að jafnaði mikil not sýsluvega, og flestir dýrustu og vönduðustu sýsluvegirnir liggja einmitt í námunda við kauptún og að þeim.

Jeg þarf svo ekki að fara lengra út í málið. Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) hefir andmælt ýmsu, sem fundið var að hjá nefndinni, en flest annað skiftir ekki máli. Jeg hygg, að þetta geti ekki orðið neinum hitamál og að flestir komist að þeirri niðurstöðu, þegar þeir íhuga málið rólega, að rjett sje að samþykkja frv. með brtt. nefndarinnar.