26.04.1924
Neðri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

5. mál, vegalög

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Þetta frv. virðist hafa vakið alveg furðanlega eftirtekt síðan það var afgreitt frá 2. umr., því að síðan hafa komið fram brtt. 7 hv. þm. við það. Þessar brtt. eru á þskj. 392, 397 og 399. Hafa þær verið athugaðar af samgmn. og hefir nefndin leitað álits vegamálastjóra um þær. Við það verður að kannast, að sumar þessar till. styðjast við allmiklar sanngirnisástæður, en eru þó ekki allar jafnþungar á metunum.

Þar sem vegamálastjóri hefir nú lagt á móti öllum till., þá hefir nefndin ekki sjeð sjer fært að gera upp á milli einstakra flm., og hefir hún því leitt hjá sjer að ákvarða sig um þær og leggur ekki með neinni þeirra. En auðvitað hafa nefndarmenn alveg óbundnar hendur að því er atkvæðin snertir um einstakar till.; þó vænti jeg þess, að þeir verði, er til kemur, flestir á móti till. — ekki vegna þess, að þær eigi í rauninni ekki rjett á sjer, heldur vegna hins, að vænta má, að samþykt þeirra yrði annars til að tefja frv. um of, eða að fella það hjá háttv. Ed. Þær brtt., sem við gild rök hafa að styðjast, geta væntanlega komist að síðar, þegar búið væri að lögfesta þá skipun vegamálanna, sem hjer er gert ráð fyrir; svo það er í rauninni enginn skaði skeður, þótt þær verði ekki teknar til greina nú.

Við 2. umr. málsins var það einkum fundið að meðferð nefndarinnar á því, að hún gerði ekki nógu ítarlega grein fyrir kostnaðarhliðinni. Var þeirri aðfinslu einkum beint að nefndinni fyrir það, að hún hefði ekki útvegað yfirlit um kostnaðinn við viðhald akbrauta þeirra, sem flytja á nú yfir á ríkissjóðinn. Til þess að upplýsa það mál, hefir nefndin nú snúið sjer til vegamálastjóra og fengið hjá honum allar upplýsingar þar að lútandi. Skal jeg nú gefa hv. deild yfirlit yfir skýrslu hans í aðalatriðunum.

Vegamálastjóri hefir þá fyrst skýrt nefndinni svo frá, að viðhald þeirra akvega, sem enn er haldið við af hjeruðunum, sje um 25 þús. kr. Þar í er innifalin allstór upphæð, sem ekki lýtur beint að viðhaldi, heldur endurbyggingu á Holtaveginum í Rangárvallasýslu. Myndi þessi upphæð vera um 3–4 þús. kr. lægri, ef sá vegur væri ekki með talinn, eða ef aðeins væri um tómt viðhald að ræða. Hinsvegar bendir vegamálastjóri á, að nokkrar akfærar brautir, sem afhenda megi nú þegar til viðhalds hjeraðanna, sjeu enn óafhentar. Meðal þeirra er t. d. Biskupstungnabrautin, sem áætlað er, að kosti í viðhaldi 3 þús. kr. á ári, Hvammstangabrautin, sem kosti 500 kr., og Skagafjarðarbrautin, sem kosti 1500 kr. Er það samtals 6500 kr. kostnaður, sem þar hvílir enn á ríkissjóðnum, en sem leggja mætti á hjeruðin samkvæmt núgildandi lögum. Hjer við bætist svo viðhaldskostnaður við akfæra þjóðvegi, sem afhenda mætti samkvæmt núgildandi lögum, og er hann alls talinn 12 þús. kr. Samtals verður þá sá viðhaldskostnaður, sem þannig má firra ríkissjóð og leggja á hjeruðin, um 43500 kr. Af þeirri upphæð hvíla 25 þús. kr. nú þegar á hjeruðunum. Það mætti því í rauninni segja, að með þessu frv. sje um það að ræða að ljetta á hjeruðunum og leggja á ríkissjóðinn sem nemur 43500 kr. En þessu er samt ekki þann veg varið, því að eftir samþykt laganna um sýsluvegi frá síðasta þingi er opnuð leið til þess að fá frá ríkinu vist tillag til viðhalds vegum, hafi hjeruðin áður uppfylt viss skilyrði um framlög úr eigin sjóði. Vex það tillag ríkissjóðsins eftir því, sem hjeruðin leggja meira á sig.

Samkv. þessari heimild samþyktalaganna frá 1923 áætlar vegamálastjóri, að 23300 kr. dragist frá, sem verði aftur lagðar á ríkissjóð, og er þá mismunurinn, sem eftir er, 20200 kr., og ennfremur viðhald á svo nefndum Strandavegi, sem nemi um 2000 kr. árlega. Telur því vegastjóri, að sá raunverulegi kostnaður ríkissjóðs á ári, sem verður vegna þessarar lagabreytingar, nemi 22200 kr. Upphæðin er ekki ýkjastór í sjálfu sjer, en hún kemur niður á fremur fáum hjeruðum, eins og nú hagar til, og verður þeim tiltölulega þungbær, þar sem önnur hjeruð hafa verið losuð við þessa byrði, og kennir því hjer nokkurs misrjettis, ef frv. verður ekki samþykt. Þess vegna er, eins og tekið var fram við 2. umr., verið með þessu frv. að fylgja fram þeirri rjettlætisskyldu að gera öllum jafnhátt undir höfði. Þó skal jeg kannast við það, að þó að þetta frv. verði samþykt, þá eru eftir nokkrir vegir, þar sem viðhaldsskyldan hvílir ekki á landssjóði, og af því munu sumar brtt. fram komnar. En það stendur samt svo á, að í þeim hjeruðum, sem þessir vegir eru, þá eru og aðrir vegir, sem teknir eru upp í þjóðvegatölu og sem ríkið annast, og því ekki hægt að segja, að þessi hjeruð verði algerlega útundan. Hefi jeg hjer sjerstaklega í huga Eyjafjarðarbrautina frá Akureyri að Grund, sem ekki er tekin með, en um leið er þó ljett af sýslunni brautinni út Kræklingahlíðina til Skagafjarðar og eins viðhaldi á framhaldi þess vegar austur á bóginn, að því leyti, sem hann heyrir til Eyjafjarðarsýslu.

Þessar eru þær upplýsingar, sem jeg get frekast gefið viðvíkjandi ágreiningsatriðum þeim, er fram komu við 2. umr. Finst mjer raunar ekki um stóra upphæð að ræða fyrir ríkissjóð, en hún kemur aðallega á 3 sýslufjelög, sem ótilhlýðilegt er, að verði látin bera þá byrði lengur, þar sem búið er að losa önnur við hana.

Að því er snertir kostnaðinn við nýjar vegalagningar skal jeg ekki fjölyrða, með því að greinargerðin bendir á, hver kostnaðurinn að líkum verði, ef vegirnir verða lagðir. En eins og jeg hefi áður tekið fram, er ekki hægt að gera nú þegar ábyggilegar áætlanir um kostnað við slíkar nýlagningar, sem ef til vill verða ekki framkvæmdar fyr en eftir tugi ára, þegar alt verður breytt orðið, bæði hvað peningagildi snertir og annað.

Loks vil jeg taka það fram, að þar sem samgmn. er ekki allskostar sammála um meðferð frv., og nefndin hefir því óbundin atkvæði um það, verður að fara sem verkast vill um úrslit einstakra brtt. En fyrir mjer og ýmsum öðrum vakir það, að rjett sje að afgreiða frv. eins og það er á þskj. 383, með þeim brtt. einum, sem gerðar voru við 2. umr., þótt jeg hinsvegar viti, að einstakir hv. nefndarmenn hefðu heldur kosið, að einhverjar fleiri brtt. hefðu líka komist að. Jeg fyrir mitt leyti treysti því, að þegar þessi skipun á vegalögunum er komin á, muni ekki líða á löngu, áður en sanngjarnlegar breytingar fáist.

En eins og fyr verð jeg að telja, að samþykt frv. sje nokkurn veginn vís, einnig í hv. Ed., ef því verður ekki breytt frekar, því hv. samgmn. Ed. hefir lýst því yfir, að hún fallist á þær brtt., sem samþyktar voru hjer við 2. umr.