26.04.1924
Neðri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

5. mál, vegalög

Þorleifur Jónsson:

Jeg hafði ekki búist við því, er jeg kom með brtt. mínar, að jafnmargar brtt. myndu koma fram við þetta frv. og raun er á orðin. Þó hygg jeg, að mínar brtt. sjeu þær, er binda ríkissjóði einna minstan bagga. Jeg skal ekki fara út í 1. brtt. mína, enda er þar aðeins um orðabreytingu að ræða, eins og menn munu sjá. En það er 2. brtt. mín, sem skiftir mestu máli, og um hana vil jeg fara nokkrum orðum. Eins og mönnum mun kunnugt vera, var stofnað kauptún í Hornafirði árið 1897. Um aldamótin var lagður þangað vegur af þjóðveginum, sem enginn hafði verið áður, og kostaði landssjóður lagningu hans að helmingi, en sýslan að helmingi. Viðhaldið hvíldi hinsvegar á sýslunni. Út af þessu hefir orðið almenn óánægja þar. Þessi vegur er fyllilega sambærilegur við Hvammstangaveginn og Eskifjarðarveginn, sem báðir eru orðnir þjóðvegir. Þessi vegur er ekki nema 5 kílómetrar á lengd, svo að viðhaldskostnaður ríkissjóðs á honum gæti aldrei orðið ýkjamikill, enda þótt sýslunni veitist viðhald hans erfitt. Nú þarf að byggja upp veg þennan, og voru í fyrra veittar til þess 5000 kr. úr ríkissjóði. Jeg er alls ekki beint að færast undan því fyrir hönd sýslunnar, að hún leggi eitthvað fram í þetta skifti á móti framlagi ríkissjóðs til að byggja veginn upp, heldur fer jeg aðeins fram á, að þessi vegur sje tekinn í tölu þjóðvega, eins og aðrir, sem líkt er ástatt um, og að ríkissjóður annist hann hjer eftir eins og aðra slíka vegi. Þessi vegur er mjög fjölfarinn kaupstaðarvegur og eftir honum fara allir þeir, er erindi eiga í kauptúnið. Og flestir, sem fara eftir þjóðveginum um sýsluna, eiga og leið í kauptúnið. Auk þess er þetta póstleið, því póstur gengur frá Höfn með allan skipapóst. Það er því engin fjarstæða, að hann væri tekinn í þjóðvegatölu. Það er ekki heldur svo að skilja, að þetta sje eini vegurinn, er sýslan hefir að annast. Hún verður að kosta viðhald annars vegar, sem liggur innar yfir Hornafjarðarfljót, og vegar í Lóni og víðar, en hún hefir ekki haft bolmagn til að laga alla þessa vegi sem skyldi.

Jeg skal ekki dæma um rjettmæti þeirra tillagna, er fram hafa komið hjer frá ýmsum öðrum, en víst er um það, að þær eru flestar eða allar fjárfrekari en mínar. Jeg get nú að vísu ekki búist við góðu um að þær nái fram að ganga, þar sem hv. frsm. samgöngumálanefndar er þeim andvígur, en mjer þótti þó rjett að koma fram með till. þessar og bjóst ekki við, að þær þyrftu að leiða til þess, að margar aðrar kæmu fram. Jeg vona, að menn sjái, að það, sem jeg fer fram á, sje sanngjarnt, og tillaga mín nái fylgi hv. deildar. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta.