26.04.1924
Neðri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

5. mál, vegalög

Pjetur Þórðarson:

Jeg tek hjer til máls vegna flutningabrautarinnar í Mýrasýslu, í sambandi við framkomnar brtt., þar sem svo er til ætlast, að sá hluti hennar, er enn hvílir ekki á ríkissjóði, verði ekki tekinn í tölu þjóðvega. Jeg get ekki stilt mig um að minnast á málið í heild sinni um leið, enda þótt það væri heldur hlutverk frsm. Hjer hefir gætt ýmislegs misskilnings hjá ýmsum þingmönnum, jafnvel hæstv. fjrh. (JÞ). Jeg skal fara fljótt yfir sögu.

Með þessu frv. er ætlast til, að ákveðin sje nokkurskonar hringbraut um þjettbygðustu sveitir landsins til og frá Reykjavík, að undanskildu/m útkjálkum, þar sem fólk er fæst, svo sem Vestfjörðum. Út frá þessari hringbraut liggja svo ýmsar álmur, og skifta þar mestu máli álman vestur í Dalasýslu og álman um Strandasýslu til Djúps. Þetta hefir orðið sumum þingmönnum þyrnir í augum, og bjóst jeg þó sannarlega ekki við, að þetta yrði til að fella frv., enda vona jeg, að svo verði ekki. Jeg vil biðja þá hv. þm., sem hjer eiga brtt., og þá sjerstaklega hv. 2. þm. Eyf., að athuga það, að þar sem aðalbrautin á að liggja eða liggur um aðalkaupstaði og kauptún landsins, er ekki tekið sjerstakt tillit til vegakerfa innan hinna einstöku hjeraða. Að vísu eru vegirnir í Árnessýslu undantekning frá þessari reglu, en fyrir því eru gild og góð rök. Annarsstaðar, þar sem þessi hringbraut nær ekki til aðalkaupstaðanna, koma aukabrautir til greina. Til þess að fullnægja þessu skipulagi þurfti viðhaldsskylda ríkisins hvorki að ná til Borgarfjarðarbrautarinnar nje Eyjafjarðarbrautarinnar. Þetta er aðalatriðið, þótt hv. deildarmenn hafi, ef til vill, ekki gert sjer það nægilega ljóst.

Hæstv. fjrh. lýsti því skipulagi á vegamálunum, er komið var á með lögum frá 20. júní 1923. Samkvæmt því áttu allar sýslur landsins, til þess að fullnægja sinni áætluðu vegaþörf, að fá 60 þús. kr. úr ríkissjóði árlega, eftir áætlun vegamálastjóra. Af þessari fjárupphæð ætti að koma niður á Árnessýslu fullkomlega 1/5 hluti, eða 12,13 þús. kr., Gullbringusýslu 1/6 hluti, eða 10 þús. kr., Mýrasýslu 6,60 þús. kr., Eyjafjarðarsýslu 6,35 þús. kr., Rangárvallasýslu 5,29 þús. kr., Skagafjarðarsýslu 3,84 þús. kr., Austur-Húnavatnssýslu 3,82 þús. kr., Suður-Þingeyjarsýslu 3,58 þús. kr., Borgarfjarðarsýslu 3,10 þús. kr., Norður-Múlasýslu 2 þús. kr., Suður-Múlasýslu 1,79 þús. kr., Vestur- Húnavatnssýslu 1 þús. kr., og Austur- Skaftafellssýslu 0,50 þús. kr. Af þessari áætluðu fúlgu koma næstum ¾ hlutar niður á 5 fyrsttöldu sýslurnar, en rúmlega ¼ hluti á hinar 8 sýslur, er jeg nefndi. 10 sýslur landsins áttu ekkert fje að fá í þessu skyni samkvæmt sömu áætlun og miðað við lögin frá 20. júní 1923. Allir hv. þdm. vita, hvers vegna þessu er þannig varið, og þarf ekki að rekja það hjer, og þótt þetta frv., sem hjer liggur fyrir, verði að lögum, raskar það í raun og veru ekki gildi þessara margnefndu laga um sýsluvegasjóði. Þau eru og verða jafnnauðsynleg, þótt áætlun sú, er jeg nefndi, um fjárframlög ríkisins eftir þeim, breytist nokkuð í heild sinni, og sjerstaklega hlutföllin milli hjeraðanna. Samkv. áætlun vegamálastjóra, þeirri, er nú er hjer fram komin, um aukinn árlegan viðhaldskostnað ríkissjóðs eftir þessu frv., að upphæð 22 þús. kr., koma 14 til 15 þúsund í stað jafnmikillar upphæðar af þeim 60 þús. króna, er jeg hefi minst á, en vitanlega verða hlutföllin milli hjeraðanna alt önnur. Af þessum alt að 15 þús. kr. koma langstærstar upphæðir á tvær sýslur. Önnur þeirra er Rangárvallasýsla með helmingi hærri upphæð en nokkur önnur sýsla, eða 4000 kr., enda munaði mjög litlu í fyrra, að viðhaldi Holtavegarins væri ljett af henni. Því var aðeins frestað þá, en nauðsyn og sanngirni gera það ekki fært lengur.

Þá er rjett, að jeg víki að aðalatriði þess, er jeg vildi sagt hafa, nefnilega Borgarfjarðarbrautinni. Jeg og hv. þm. Borgf. (PO) vildum ekki flytja till. um að ljetta viðhaldi hennar af sýslunum. Enda þótt Mýrasýsla beri 7/10 kostnaðar, er af viðhaldinu leiðir, og ætti hina fylstu sanngirniskröfu til þess, að viðhaldinu væri ljett af, þá var mjer það ljóst, að slík krafa mundi heldur spilla fyrir framgangi frv. eins og nú standa sakir, eins og jeg álít, að allar þær brtt. geri, sem hjer eru fram komnar. Við vildum því ekki fylgja hv. 2. þm. Eyf. (BSt) í því, að taka þessar brautir (Eyjafjarðar- og Borgarfjarðarbraut) upp í frv. Það er aðeins vegna þess, að jeg tel, að með þessu frv. sje svo mikil bót ráðin á vegakerfi landsins, þó að ef til vill sje langt til verklegra framkvæmda, að jeg vil ekki spilla fyrir framgangi þessa máls nú með því að flytja brtt. í þessa átt. En í raun og veru liggja fyllri ástæður fyrir þeirri brtt. en nokkurri annari, sem fram hefir komið. Vænti jeg þess, að hv. deildarmenn geti látið sjer það skiljast, ef þeir hafa fylgst með tölum þeim um vegakostnað í ýmsum hjeruðum, sem jeg las upp.

Jeg get ekki stilt mig um að minnast á einstöku brtt., þó að jeg búist við, að hv. frsm. geri það einnig, til þess að sýna, hve lítillar sanngirni gætir í sumum þeirra. Vil jeg fyrst minnast á það, sem mest virðist standa á milli, en það er það, sem hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) sagði um vegi þar í sýslu. Hv. þm. hefir flutt brtt. um að taka upp í kerfið vegarspotta frá þjóðveginum til aðalkauptúnsins. Þegar þess er gætt, að til þessa vegar hefir að minsta kosti verið lagt eins mikið úr ríkissjóði sem til annara sýsluvega og að vegurinn er mjög stuttur, ætti það ekki að vera sýslunni ofurefli að halda honum vel við. Jeg verð að segja það, að það er í vægasta lagi ekki nákvæmt hjá hv. þm., þegar hann segir, að sýslan hafi lagt allmiklar byrðar á sig til þess að halda við þessum vegi og öðrum. Til þess að sýna, hve nærri sjer sýslan hefir tekið, þá skal jeg skýra frá, eftir upplýsingum vegamálastjóra, að hún hefir ekki hækkað vegagjaldið upp úr kr. 1,25 á mann, en flestar sýslur aðrar hafa hækkað það mjög; sumar upp í hámark, 3 kr. á mann. Þetta sýnir, að Austur- Skaftafellssýsla hefir ekki þurft að bera miklar byrðar vegna vega sinna. En jeg játa, að á henni geti hvílt aðrar byrðar af samgöngutækjum. Um það er mjer ekki kunnugt, en þó veit jeg, að sýslan hefir fengið sanngjarnan hlut hingað til af bátastyrknum, þó að brugðið geti til beggja vona um það eftirleiðis. Það sýnir þó, að vegakerfi sýslunnar er lítið, að það eru aðeins 500 kr., sem hugsanlegt er, að komi á ríkissjóð til styrktar vegagerðum þar, þó að farið sje upp í hámark laganna frá 1923.

Jeg skal játa, að brtt. hv. 2. þm. Eyf. er næst því að hafa sanngirnisrjett, því að Eyjafjarðarsýsla er ein af þeim sýslum, sem mest hafa lagt á sig til vegagerða, og hefir hún fjórðu þyngstu byrðarnar í þessu efni. En eins og hv. þm. mintist sjálfur á, er þessi braut inni í miðju hjeraði, og aðalþjóðbrautin liggur um stærsta kauptún sýslunnar. Hv. þm. gat um, að ekki ætti illa við, að þessi braut og jafnvel Borgarfjarðarbrautin væru teknar í þjóðvegatölu, þar sem ekki væri víst, að þær yrðu teknar í sýsluvegatölu. Jeg tel það engan galla fyrir hlutaðeigandi hjeruð, því að ef unt er að bægja þessum brautum frá því að komast í sýsluvegatölu, þá eru engin önnur ráð en að ríkissjóður taki þær að sjer, þótt síðar verði, og tel jeg þá, að það sje ekki nema meðalsanngirniskrafa til þess að koma þessu heim á eftir.

Það er hvorki hlutverk mitt nje ætlun að tala um allar brtt. Jeg hefi nú minst á þær tvær, sem mjer voru sjerstaklega minnisstæðar, í sambandi við þá tillögu, sem jeg ljet kyrra liggja. Þó get jeg ekki stilt mig um að nefna brtt. hv. 2. þm. Skagf. (JS). Mjer er ekki ljóst það rjettlæti eða sú sanngirni, sem þessi brtt. er bygð á. Bæði er það, að þessi vegur er mjög langur, á að giska 35–40 km., eftir uppdrættinum að dæma, og að hann liggur út eftir hjeraðinu án þess að enda í aðalkauptúni. (Atvrh. MG: Hann liggur ekki út úr hjeraðinu). Það veit jeg líka, og það er gott, að hæstv. ráðherra leiðrjetti það, hafi jeg sagt, að hann lægi út úr hjeraðinu, í stað þess, að jeg vildi sagt hafa út eftir hjeraðinu, því að það er einmitt aðalástæðan á móti brtt., að veginn nota hjeraðsbúar, og aðrir ekki. Annars þekki jeg ekkert, sem gerir það rjettmætt, að hann sje tekinn upp í kerfið, eins og það liggur nú fyrir, vegna þess skipulags, sem jeg áður gat um.

Jeg hefi mikla tilhneigingu til þess að minnast á brtt. hv. 1. þm. G.-K. (ÁF). En þar sem jeg tel rjett, að frv. gangi fram án frekari breytinga en á því eru orðnar, get jeg ekki fallist á neina brtt., en þó tel jeg þessa brtt. hv. 1. þm. G.-K. eiga einna mestan rjett á sjer, og meiri en brtt. hv. 2. þm. Eyf. Þessi sýsla hefir lagt svo mikið á sig og steypt sjer í skuldir vegna vegagerða, að sanngjarnt væri að rjetta henni verulega hjálparhönd frá ríkissjóði. Þessi sýsla hefir svo þungar byrðar, að hún á kröfu til 1/5 af öllu framlagi ríkissjóðs samkvæmt lögunum frá 1923. En þar sem hún hefir nú fengið góðan spöl og dýran upp í þetta frv., verð jeg að vera á móti brtt. að þessu sinni.

Jeg er ekki eins kunnugur í Húnavatnssýslu og hæstv. fjrh., en þó dálítið. Þykir mjer undarlegt ósamræmi milli brtt. hans um vegi þar í sýslu og afstöðu hans til frv. í heild. Hæstv. fjrh. er mótfallinn frv., einkum af því að það eykur væntanlega útgjöld ríkissjóðs þegar í stað, og meira er frá líður, en þó vill hann heldur láta taka upp í frv. þá stefnu, sem að líkindum verður allmikið dýrari, en vafasamt nema komi færri að notum. Þykir mjer þetta í litlu samræmi við fjárhagsstefnu hans í þessu máli.

Hæstv. fjrh. sagði, að heimildin til þess að færa viðhald þjóðvega yfir á hjeruðin hefði ekki verið notuð ennþá. En það er langt síðan viðhald þjóðvegarins vestur Mýrar var lagt á hjeraðið, og hefir það verið mjög þung byrði á því. (Fjrh. JÞ: Það var gert með sjerstökum lögum, sem eru eldri en vegalögin frá 1907). Er þá sanngjarnt að gera ráð fyrir, að viðhaldið, sem kemur svo þungt niður, haldi áfram að hvíla á þeim hjeruðum, sem hafa tekið það á sig áður? Þessi braut liggur aðeins yfir vestustu hreppana og er sjálfsagt að ¾ notuð af öðrum en sýslubúum. Það er álíka sanngjarnt að láta sýsluna halda þeim vegi við eins og að leggja á viðkomandi hjeruð viðhald vegarins frá Reykjavík austur yfir fjall eða yfir Mosfellsheiði. Sú stefna er fyrir löngu viðurkend, að ekki er rjett að leggja viðhald vega á þær sveitir, er þeir liggja um, ef þeir eru notaðir miklu meir af öðrum hjeruðum.

Jeg þykist vita, að horfur sjeu á því, að mönnum segi þungt hugur um að samþykkja þetta frv. nú, og hæstv. fjrh. hefir nú sjerstaklega vegið að því með þeirri rökstuddu dagskrá, sem hann hefir borið fram. En mjer er ekki ljóst, hvað það er, sem gerir hv. þm. örðugt að fylgja frv., þar sem misrjettið í því er lítilsvirði í samanburði við það, sem sjálfsagt er, að vegakerfið sje upptekið öðruvísi en verið hefir.