26.04.1924
Neðri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

5. mál, vegalög

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg vil einungis leiðrjetta þann misskilning hjá hv. þm. Mýra. (PÞ), er honum virtist brtt. mín fara fram á að velja dýrara vegarstæðið af þeim 2, sem um hefir verið rætt. En svo er ekki. Brtt. mín fer ekki fram á, að vegurinn verði ekki lagður um Vesturhóp, eins og stjfrv. ákveður, heldur einungis það, að vegarstæðið verði ekki eins einskorðað og það er nú í frv., svo að unt sje að taka alt tillit til vegaþarfar hjeraðsins við endanlega ákvörðun vegarins. Það liggur ekkert fyrir um það, að vegurinn þurfi að vera dýrari, þó að brúin á Víðidalsá verði ofurlítið framar en á Steinsvaði.

Þá vil jeg benda á viðvíkjandi tölum hv. þm. Mýra., að þær tölur, sem hann hafði eftir vegamálastjóra um Árnessýslu, eru miðaðar við annað ástand en nú er, því að síðan hefir viðhaldi Flóavegarins, milli Ölfusár og Þjórsár, verið ljett af sýslunni. (PÞ: Mínar tölur voru miðaðar við þá skýrslu, sem í fyrra var gefin). En hv. þm. bar þær saman við þá skýrslu, sem gefin var 1922.