28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

5. mál, vegalög

Klemens Jónsson:

Það er nú orðið svo langt síðan þetta mál var rætt hjer síðast, að jeg kann að vera búinn að gleyma einstöku atriðum, er komu fram í umræðunum.

Hæstv. fjrh. (JÞ) lagðist ærið fast á móti þessu frv. við 2. umr., og býst jeg við, að hann hafi sínar ástæður til þess. Þetta frv. fer nú fyrst og fremst fram á að raska allmjög grundvelli þeirra vegalaga, er nú gilda og hann sjálfur átti mikinn þátt í, og það er nú svo, að hverjum þykir sinn fugl fagur, og mun því hæstv. fjrh. vera allsárt um þessi lög. Ekki ljet hann þó þetta uppi í umræðunum, en talaði mest um þann feikimikla kostnað, er af þessu leiddi fyrir ríkissjóð, og einkum kvartaði hann þó yfir því, að ekki væri gerð grein fyrir þessum kostnaði. Nú hafa komið skýrslur frá vegamálastjóra, þar sem sýnt er fram á, að allur sá kostnaður, er ríkissjóður hefir af þessu frumvarpi, nemur einum 22 þús. kr. Þetta er sá feikikostnaður, sem hæstv. fjármálaráðherra var að fárast um. Sýnir það, að honum getur missjest með tölur ekki síður en öðrum.

Þetta er nú ekki nein ægileg upphæð, og þar að auki kemur ekkert af henni til útborgunar á þessu ári eða næstu árum. Jeg álít enga ástæðu til að rengja vegamálastjóra í þessu efni og hygg, að hann standi þar hæstv. ráðherra fyllilega á sporði, þótt hann sje bæði fjeglöggur maður og hafi vit á vegagerð. Þessi ástæða hans um kostnaðinn er því fallin um sjálfa sig, enda heyrði jeg, að hann var orðinn heldur linari í sókninni við þessa umræðu. Nú er ekki lengur til að dreifa aðalástæðunni gegn þessu frv. Jeg verð að endurtaka það, sem jeg sagði við 2. umr., að í fyrra voru í Ed. gefin loforð um það að taka Holtaveginn og Fagradalsbrautina í tölu akbrauta, er ríkissjóður kostaði að öllu leyti. Sú till. um þetta, er bera átti fram í fyrra, átti vísa leið í gegnum þingið, en var tekin aftur vegna þessa loforðs. Enda þótt nýjar kosningar hafi nú farið fram, þá finst mjer, að sómi þingsins liggi við að halda þessi loforð.

Jeg get verið hæstv. fjrh. þakklátur fyrir ummæli hans um Holtaveginn. Hann telur sjálfsagt, að ríkið kosti endurbyggingu hans að öllu leyti, og jeg er ánægður yfir því að vita, að trygging sje fyrir því, hvernig sem fer um frv. þetta. En þótt jeg viti, að hæstv. fjrh. bæði geti og vilji efna það, sem hann lofar, þá kysi jeg þó heldur að hafa þetta í lagaformi, bæði vegna þessa vegar og annara.

Jeg sje, að margar brtt. hafa komið fram. Jeg verð að segja það, að jeg hefi það álit á flestum þeirra, að þær sjeu komnar fram aðeins sem fleygar til að eyðileggja frv. Sumar þeirra hafa alls engan rjett á sjer. Þannig er það till. á þskj. 397 og 5. till. á þskj. 392. Mig minnir, að það hafi verið hv. 2. þm. Eyf. (BSt), sem gat þess, að tillaga um veg frá Hofsósi ætti engu meiri rjett á sjer en ef krafist væri vegar frá Dalvík fram Svarfaðardal. Að vísu hefir ekki verið farið fram á, að þetta yrði gert, en þó ætti sá vegur engu minni rjett á sjer. Jeg gæti með alveg sama rjetti borið fram till. um, að lagður yrði vegur upp á Land af Holtabrautinni, eða þm. Árn. að lagður yrði vegur af akbrautinni og upp á Skeið. Svo mætti lengi telja, og mætti alveg eins taka alla sýsluvegi á landinu í þjóðvegatölu. Þessi till. er því aðeins fleygur til spillingar.

Jeg verð að segja, að jeg tel það ilt, ef svo vel undirbúin lög sem þessi ná ekki fram að ganga á þessu þingi. Jeg vona því, að hv. þm. fylgi ekki þessum brtt., og sjálfur mun jeg greiða atkvæði móti þeim öllum. Jeg hefði þó mikla tilhneigingu til að fylgja brtt. 392,IV, en finst hún þó ganga alt of langt, þar sem farið er fram á viðhald vegarins alla leið fram að Saurbæ, í stað þess, að nægja ætti fram að Grund.

Það var sagt hjer við 2. umr., mig minnir af hv. 2. þm. Skagf. (JS), að lítið samræmi væri í þessum lögum við lög þau um breytingu á berklavarnalögunum, sem jeg flutti. Þetta kann nú að virðast rjett í fljótu bragði, en heldur ekki nema í fljótu bragði, því aðaltilgangurinn með þeim lögum var fyrst og fremst sá, að sjúklingarnir sjálfir bæru kostnaðinn eftir getu þeirra og efnahag. Með eldri berklalögunum er öll tilhneiging tekin frá sjúklingunum til þess að hjálpa sjer sjálfir, sem jeg get ekki álitið vera rjett. Satt er það líka, að þau lög ganga í þá átt að ljetta á ríkissjóði, en hvað ósamræmi snertir í þessu efni, þá mun mjer óhætt að fullyrða, að mörg dæmi finnist um annað eins, bæði að fornu og nýju. Jeg vona, að deildin fallist á að samþykkja frv. óbreytt og skal ljúka máli mínu að þessu sinni.