01.05.1924
Efri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (684)

5. mál, vegalög

Eggert Pálsson:

Jeg kannast við þessi ummæli hæstv. fjrh. (JÞ), því að jeg hlustaði á þau í hv. Nd., og jeg vissi áður, að hann var á móti frv. þessu, sem í raun og veru er af eðlilegum ástæðum, þar sem hann er sjálfur höfundur vegalaganna frá 1907, því að það er oft svo, að hverjum þykir sinn fugl fagur og að mönnum er það kært, sem þeir hafa lagt mikið erfiði í. En hinsvegar hlýtur hæstv. fjrh. að vera það ljóst, að í seinni tíð hefir verið mikil óánægja með vegalögin, þar sem allháværar kröfur hafa komið hvaðanæfa um að fá þeim breytt, því að þau hafa komið mjög tilfinnanlega hart niður á sumum hjeruðunum, og má þar til nefna Suðurlandsundirlendið, þar sem þau hjeruð, sökum hafnleysis síns, þurfa að hafa miklu meiri vegi en fjöldamörg önnur. Auk þess er það kunnugt, að þeir vegir, sökum veðráttu og annara staðhátta, þurfa mjög mikið viðhald, og hefir þetta dýra viðhald orðið allþungbært fyrir hjeruðin. Þetta var og viðurkent af þinginu í fyrra, er það ljetti af Árnessýslu viðhaldi Flóavegarins, og hafi það verið rjett, þá er það ekki síður sanngjarnt, að Rangárvallasýsla verði leyst undan viðhaldi Holtavegarins. Og meira að segja má fullyrða, að það sje ennþá fyllri sanngirniskrafa, þar eð vegarstæðið er miklu verra, og viðhaldið þar af leiðandi miklu dýrara. Enda hefi jeg heyrt hæstv. fjrh. margtaka það fram, sem jeg er honum þakklátur fyrir, að fylsta sanngirni væri í því, að ríkissjóður kostaði að öllu leyti endurbyggingu Holtavegarins og endurgreiddi þá að einhverju leyti það fje, sem Rangárvallasýsla hefir orðið að leggja fram til hennar.

Hæstv. ráðherra mintist aðallega á kostnaðarauka ríkissjóðs af frv. þessu að því er snertir flutningabrautirnar, en ekki þjóðvegina. Get jeg því hlaupið yfir það, enda mjer ókunnara um það.

Þess ber nú að gæta, að viðhald nokkurra flutningabrautanna er þegar komið yfir á ríkissjóðinn, eins og t. d. Flóabrautarinnar, Þingvallavegar og Borgarfjarðarbrautar, og má því draga viðhald þessara brauta frá kostnaðaraukaáætluninni. Sömuleiðis virðist mjer, að draga megi frá viðhald Keflavíkurvegarins, því að til hans hefir farið og fer bílaskatturinn. Eins hygg jeg, að Grímsnesbrautinni megi sleppa, því að ennþá er viðhaldskostnaður hennar ekki kominn yfir á Árnessýslu, og verður sennilega ekki fluttur yfir á hana frekar en hingað til, þótt vegalögunum yrði ekki breytt. Eins mun vera ástatt með Hvammstanga- eða Húnvetningabraut og Skagafjarðarbraut. Mjer telst því svo til, að það, sem bætist á ríkissjóðinn með lögum þessum, verði aðeins viðhald Holtavegarins, Fagradalsbrautarinnar og Húsavíkurvegarins, og svo vegarkaflinn frá Selfossi að Eyrarbakka.

Jeg vænti því, að þetta frv. verði samþykt, hvort sem það verður tekið af dagskrá eða ekki. Ef frv. yrði ekki samþykt, þá yrðu menn fyrir mjög miklum vonbrigðum, því að það hefir skýrt komið í ljós, að bæði vegamálastjóri og fyrverandi stjórn og sömuleiðis hv. Ed. hafa verið máli þessu fylgjandi, og því hafa menn þóst mega treysta því, að það næði fram að ganga, einkum eftir að hv. Nd. hafði samþykt það með yfirgnæfandi atkvæðamun. Menn yrðu því fyrir mjög miklum vonbrigðum, ef það fjelli, en jeg þykist þess fullviss, að slíkt komi ekki fyrir.