01.05.1924
Efri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

5. mál, vegalög

Fjármálaráðherra (JÞ):

Í tilefni af orðum hv. 1. þm. Rang. (EP) skal jeg taka það fram, að í tölum þeim, sem jeg nefndi í sambandi við kostnaðarauka ríkissjóðs, voru ekki taldir vegir þeir, sem nú hvíla á ríkissjóði. Og endurbyggingu Holtavegarins mundi verða ljett af sýslunni, hvort sem þetta frv. nær fram að ganga eða ekki.

Tölur háttv. nefndar taka aðeins til þeirra flutningabrauta, sem nú eru í umsjá sýslufjelaganna, en þegar sýslurnar eru búnar að útvega sjer þann tekjuauka, sem þeim er heimilaður í lögunum frá 1923, þá verður sá kostnaður yfirleitt viðráðanlegur fyrir þær.

Af því að hv. 5. landsk. (JJ) mintist á Fagradalsbrautina, skal jeg taka það fram, að vegamálastjóri gerir ráð fyrir því, að kostnaður sýslufjelaganna af viðhaldi hennar muni vera um 4000 kr. á ári, en með því að nota sjer þann tekjuauka, sem lögin frá 1923 heimila, geta sýslurnar fengið minst 2000 kr. upp í kostnaðinn úr ríkissjóði.

Hv. 5. landsk. þm. hjelt því fram, að Árnessýsla væri að sligast undir viðhaldi veganna, en jeg held þó, að það verði vel viðráðanlegt fyrir sýsluna, þegar hún er búin að fá þann tekjuauka, sem lögin frá 1923 heimila, því að nú er búið að ljetta viðhaldi Flóavegarins af henni. Þessum ástæðum móti ákvæði vegalaganna frá 1907, sem mjer hafa altaf fundist á rökum bygðar, er því rutt úr vegi með lögunum 1923.

Háttv. 1. þm. Rang. sagði, að jeg hjeldi máske upp á þetta ákvæði sökum þess, að jeg væri höfundur vegalaganna frá 1907, en svo er ekki. Það var búið að undirbúa þetta mál á 2 þingum áður en lögin voru samþykt, og það var ekkert sett í stjfrv. 1907 annað en það, sem Alþingi hafði krafist áður en jeg tók við vegamálunum og varð að fullnægja.

En jeg hefi altaf haldið því fram, að sýslurnar yrðu að fá tekjuauka til þess að geta staðist þennan kostnað, en það hefir altaf farist fyrir þangað til í fyrra. En nú þegar sýslurnar hafa fengið þennan tekjuauka, sem þær þurfa, er einmitt ekki ástæða til að fara að breyta þessu ákvæði vegalaganna frá 1907, því að kostnaðurinn af viðhaldi veganna ætti nú ekki að vera sýslunum of þungbær.