01.05.1924
Efri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

5. mál, vegalög

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Með því að jeg hefi haft framsögu vegalagafrv. á hendi í þessari hv. deild, skal jeg taka það fram, að jeg er á þeirri skoðun, þrátt fyrir mótmæli hæstv. fjrh., að það sje ekki til neins að vera að fresta í þetta sinn að samþykkja frv.

Eins og hv. 1. þm. Rang. tók fram, hefir megn óánægja gert vart við sig út af skipun vegamálanna, og þingið hefir verið að smáláta undan þeim, sem harðastir hafa verið í kröfum sínum, og með því hefir skapast það ástand, að sum hjeruð hafa orðið betur sett en önnur í þessu tilliti, en slíkt er auðvitað alls ekki rjettlátt. Með þessu frv. er lagður sá grundvöllur, að öll hjeruð verði jafnvel sett.

Það er alls ekki rjett, að lögin um sýsluvegasjóði frá 1923 geri að engu þær ástæður, sem haldið hefir verið fram á móti fyrirkomulagi því, sem skapaðist með vegalögunum frá 1907. Það má vel vera, að þau dragi eitthvað úr misrjettinu, en að mínu áliti gera þau alls ekki það að verkum, að fyrirkomulagið verði svo viðunandi, að menn alment sætti sig við það.

Hæstv. fjrh. hjelt því fram, að þessi breyting væri síst tímabær nú, þar eð hagur ríkissjóðs væri mjög örðugur. Það er rjett hjá hæstv. fjrh., að fjárhagur ríkissjóðs er erfiður, en hjer er þó þess að gæta, að þrátt fyrir lögin, er það þó fjárveitingavaldið sem ákveður árlega, hve miklu skuli varið til viðhalds veganna, og það getur því ávalt tekið tillit til fjárhagsástands ríkissjóðsins.

Jeg sje því ekki, að það sje nein ástæða til þess að fresta málinu. Samgmn. þessarar deildar hefir gengið inn á þær breytingar, sem gerðar voru á frv. í hv. Nd., og hefir gefið í skyn, að hún mundi ekki láta þær verða til þess að fella frv.

Það voru gerðar 2 breytingar við frv. í hv. Nd., og er önnur þeirra talsvert þýðingarmikil, nefnilega breyting á 7. gr., um aðstoðarmenn vegamálastjóra. Jeg skal játa það, að samgmn. þessarar hv. deildar hafði upphaflega ekki gefið ákvæði þessarar greinar um fasta aðstoðarmenn nægilegan gaum.

Í 7. gr. er svo ákveðið, að vegamálastjóri skuli hafa fasta aðstoðarmenn, en það ákvæði er dálítið varhugavert, og samgmn. tók eftir þessu eftir að frv. hafði verið samþykt hjer í þessari hv. deild, og vöktum við því athygli samgmn. Nd. á því, og tók hún það til greina.

Í öðru lagi hefir hv. Nd. breytt 49. gr. þannig, að lágmark hreppsvegagjaldsins verður 5 kr. í staðinn fyrir 4. Samgmn. hjer hefir lofað að láta frv. ekki stranda á þessum breytingum. Jeg vil ekki leggja á móti því, að nefndin fái frv. og áætlanir þær, sem vegamálastjóri hefir gert, enn til athugunar, en geri þó ekki ráð fyrir, að hún breytti við það afstöðu sinni til málsins.