29.02.1924
Neðri deild: 11. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

50. mál, hundahald í kaupstöðum og kauptúnum

Flm. (Magnús Jónsson):

Jeg býst fremur við, að innan um öll þau stórmál, sem hjer eru og hafa verið rædd, verði þetta mál, sem hjer ræðir um, talið meðal hinna smærri málanna. En það er hvorttveggja, að bæði verður að taka einnig tillit til hinna smærri mála, og þegar þau snerta svo mjög líf og heilsu almennings eins og þetta mál gerir, geta þau naumast talist vera smámál lengur. Það er alment viðurkent meðal lækna, að sullaveiki stafi frá hundum, og hefir talsvert verið gert til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu þessarar veiki, sem hjer var orðin næstum því þjóðarplága. Þess vegna hefir verið lögboðið, að hreinsa skuli hunda, og eins hefir verið reynt að koma í veg fyrir, að of mikið væri af óþarfahundum. En hvorugt hefir dugað; veikin er ennþá alt of algeng hjer á landi. Nú er ekki hægt að útrýma hjeðan algerlega orsök veikinnar — hundunum; þeir eru og verða allvíða ómissandi, aðallega í sveitunum, en í kaupstöðum eru þeir að mestu eða öllu óþarfir. Af þessum ástæðum hefir þessu máli verið hreyft, einkum af heilbrigðisnefnd þessa bæjar, og því er þetta frv. fram komið. Það eru og fleiri ástæður, eins og tilgreint er í greinargerð frumvarpsins, sem gera það að verkum, að rjett er að takmarka hundahald í kaupstöðum. Mörgum mönnum ofbýður oft hundaragið á götunum í Reykjavík og þykir lítill menningarbragur að því. Það var einu sinni víðfrægur maður, sem kom til Kaupmannahafnar; fanst honum hundamergðin einna einkennilegust fyrir borgina og sagði, að hún væri rjett nefnd „Hundaborg“. En Dönum fanst fátt um og þótti lítill vegsauki að þessu. Gæti jeg trúað, að sumum, sem hingað koma, detti stundum eitthvað svipað í hug um Reykjavík.

Því verður ekki neitað, að hundar eru skemtilegar skepnur, skynsamir og trygglyndir, og mun því mörgum falla erfitt að skilja þá við sig; en í það má þó ekki horfa. Þótt sett væru í lög strangar reglur um hundahald, t. d. hár skattur, ákvæði um, að þá skuli teyma í bandi o. s. frv., hygg jeg, að það yrði að harla litlu gagni. Lítum aðeins á, hvernig þeim lögum, sem til eru um þetta, er framfylgt. Nú eru í lögum ákvæði um merki, hálsbönd, sem skylt er að hafa á hundum. Hvernig er þessu hlýtt? Nýlega sagði mjer maður, að hann hefði sjeð hjer á götunni 12 hunda í hóp, og aðeins 3 af þeim voru með hálsband. Jeg hygg, að öll slík lög yrðu þýðingarlaust kák eitt. Þá hafa ýmsir kvartað yfir því, að börn gætu ekki farið óhrædd ferða sinna um bæinn vegna hundavaðsins á götunum. Það er oft ægilegt að sjá, hversu börn verða hrædd við hunda. Jeg hefi t. d. sjeð barn stirðna upp, verða eins og að steingervingi, af hræðslu við hund. Auk þess er harla lítil bæjarprýði að því og síst skemtilegt, að engin farartæki, að heita má, mega sjást á götum bæjarins án þess að þvaga af gjammandi hundum sje á eftir þeim. En aðalástæðan móti hundunum hlýtur að verða og er sýkingarhættan. Það má að vísu segja, að hún sje einna minst í kaupstöðunum; að minsta kosti ættu líkurnar þar að vera minni til þess að hundar kæmust í sulli. En aldrei er fyrir slíkt hægt að synja, og þar, sem hundar eru alóþarfir, ættu þeir því ekki að líðast. Það hefir komið til mála að gera heimildina víðtækari en ákveðið er í frv. — að hún nái einnig til hreppa- og sveitarstjórna þeirra sveita, sem liggja að kauptúnum, og til minni sjávarþorpa. Og auk þess mætti setja ákvæði um að takmarka, að hundar fylgist með mönnum í kaupstað eða láta setja þá í hald meðan staðið er þar við. Þetta ætti sú nefnd að athuga, sem fær þetta mál til meðferðar. Vænti jeg svo, að þetta frv. fái góðar viðtökur og legg til, að því verði vísað til allshn.