07.03.1924
Neðri deild: 17. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

52. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Þetta mál er ofureinfalt, og þarf jeg lítið annað en að vísa til greinargerðar þeirrar, er frv. fylgir. Tilefnið til frv. er það, að brunabótafjelag það, sem húseignir hjer í Reykjavík hafa verið trygðar hjá, hefir sagt upp tryggingunum, en bæjarstjórn Reykjavíkur hefir náð viðunanlegum samningum hjá tveimur dönskum tryggingarfjelögum, „Baltica“ og „Nye danske Brandforsikring“. Tildrögin til þess, að gamla fjelagið sagði upp samningunum, voru þau, að bæjarstjórnin vildi ekki ganga að þeirri hækkun á iðgjöldum, sem fjelagið krafðist. En sú hækkun, sem „Köbstædernes alm. Brandforsikring“ fór fram á, var um 107%.

Einstakir nefndarmenn í allshn. óska þess getið, að þeir dragi í efa, að bæjarstjórn Reykjavíkur hafi þurft að hlíta uppsögn fjelagsins á brunatryggingum. Að vísu eru iðgjöldin samkvæmt nýju samningunum 31% hærri en þau hafa verið, en þar vega á móti nokkur hlunnindi, sem fengist hafa, t. d. að iðgjöld lausafjártrygginga í Reykjavík fást lækkuð um 12%. Brunatryggingum í Reykjavík er nú skipað með lögum. Fyrst með tilskipun frá 4. febr. 1874, og síðar með lögum frá 1895. Er bænum nú og nauðsynlegt að fá það lögfest, að húseigendur í Reykjavík sjeu skyldir að tryggja húseignir sínar hjá þeim fjelögum, sem bæjarstjórnin gerir samning við um brunatryggingar framvegis, svo og um önnur atriði, sem þetta snerta.

Þarf ekki að fjölyrða um þetta meira, en þar sem brunatryggingum í Reykjavík hefir verið sagt upp frá 1. apríl næstk., þá þarf að flýta þessu máli svo, að lög um það efni, sem frv. fer fram á, verði komin í gildi fyrir þann tíma.

Vil jeg beina því til hæstv. forseta, hvort hann muni ekki geta tekið þetta mál á dagskrá aftur á morgun, svo að þessi hv. deild geti lokið því fyrir helgi.