01.03.1924
Neðri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

46. mál, vélgæsla á íslenskum mótorskipum

Flm. (Jón Baldvinsson):

Á síðasta Alþingi voru samþykt lög, sem auka kröfurnar til þeirra manna, er stunda atvinnu við vjelgæslu á mótorskipum. Jeg hafði þá nokkra sjerstöðu í málinu, vildi ekki setja strax svo hörð ákvæði að binda rjettindin eingöngu við próf, eins og farið var fram á í því frv. Jeg vildi koma inn í lögin, að í stað prófsins mætti koma svo og svo langur tími við vjelgæslu á skipum. En þessar brtt. mínar voru feldar.

Þetta frv. gengur í sömu átt, og þó ekki eins langt. Hjer er farið fram á, að menn með ákveðinn starfstíma í þessari grein hafi sömu rjettindi sem menn með próf. Lögin um mótorskóla eru ekki ennþá komin til framkvæmda, og er ekki líklegt, að þau verði framkvæmd á næstu árum, eins og hag ríkissjóðs er nú háttað. Það verður óhjákvæmilegt að launa föstum kennurum, borga húsnæði og kaupa ýmsar vjelar til notkunar við kensluna. Þó að ýmsir hafi á síðasta þingi vænst þess, að stofnunar skólans yrði ekki langt að bíða, má ganga út frá því sem vísu, að flestir munu ekki vilja leggja út í þennan kostnað fyrst um sinn.

Jeg hygg því fulla ástæðu til að bera nú fram þetta frv. Það er aðallega tvent, sem fyrir mjer vakir, sumpart að lengja starfstímann, sem krafist er, sumpart að rýmka nokkur ákvæði laganna. Það hefir komið í ljós nokkur misskilningur á lögunum, 7. gr. verið skilin rýmra en ætlast hafði verið til á síðasta þingi. Jeg hefi fyrir mjer stjórnarráðsúrskurð, sem skýrir svo ákvæði 7. gr., þar sem talað er um, að menn megi stunda vjelgæslu á samskonar skipum sem áður, að átt sje við öll mótorskip, án tillits til stærðar eða vjelar. Þannig eru lögin skýrð og framkvæmd, og tel jeg rjett að breyta orðalagi laganna í samræmi við það.

Jeg skal ekki fara út í að bera saman breytingar frv. við greinar laganna, enda á það heima við 2. umr., og mun ekki ræða þetta mál frekar við þessa umr., nema sjerstakt tilefni sje gefið til þess. Jeg vil svo leyfa mjer að leggja til, að frv. verði vísað til sjútvn. að lokinni umræðunni.