27.03.1924
Efri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

46. mál, vélgæsla á íslenskum mótorskipum

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg hefi ekki margt um frv. þetta að segja, enda eru meðmælin þegar tekin fram í nál. sjútvn. beggja hv. þingdeilda. Hv. flm. þessa frv. vildi lengja mikið þann tíma, sem menn þyrftu að starfa við vjelgæslu á skipum til þess að öðlast sama rjett og þeir, sem tekið hafa próf frá mótorskóla eða mótornámskeiði Fiskifjelagsins. Þegar lög þessi voru sett, var ákveðið, að stofnaður skyldi mótorskóli, en hann er ekki kominn enn. Verður því að miða þekkingu vjelamanna við námskeið Fiskifjelagsins eða starfstíma þeirra við vjelgæslu.

Jeg lít svo á, að hin praktiska reynsla sje besti skólinn í þessu efni og að hún taki fram námskeiðum eða skólum á landi. Sjútvn. hv. Nd. dró úr ákvæðum hins upprunalega frv., þar sem hv. flm. vildi breyta 3. gr. laganna þannig, að maðurinn þyrfti að hafa stundað vjelgæslu samkvæmt 2. gr. að minsta kosti 18 mánuði. Þetta ákvæði færði nefndin niður í 12 mánuði.

Sjútvn. þessarar deildar er samþykk þessari breytingu, og vill því láta samþykkja frv. eins og það liggur fyrir nú, því að hún telur ekki hyggilegt að ganga lengra en hv. Nd. gerði, enda ekki sanngjarnt. Og jeg er viss um, að 12 mánaða tími er nægilega langur reynslutími fyrir þá, sem á annað borð geta þá nokkurntíma lært þetta. Nefndin leyfir sjer því að leggja til, að frv. á þskj. 159 verði samþykt eins og það liggur fyrir nú.