19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

100. mál, verðtollur

Sveinn Ólafsson:

Það má vera, að litið verði á frv. á þskj. 165, sem fjhn. standi óskift að því, og einnig er viðbúið, að sumir telji það flutt í þeim tilgangi að ná líku marki, sem stefnt er til með frv. um innflutningsbann á þskj. 88. En hvorugt er fyllilega rjett. Nefndin hefir ekki getað orðið allskostar samdóma um meðferðina á þessu tvíþætta máli, en minni hlutinn hefir þó ekki viljað bregða fæti fyrir framkomu þessa frv., sem er í raun og veru önnur leið að svipuðu marki sem því, er stefnt er að í hinu frv. Þetta er til þess gert, að frv. geti orðið hinu samferða, sem gengið hefir gegnum 1. umr. og liggur nú hjá fjhn. Minni hlutinn lítur svo á, að þessar 2 leiðir þurfi að liggja fyrir til athugunar samtímis og að meðferð hvors frv. um sig verði að nokkru leyti að miða við meðferðina á hinu.

Þetta frv. stefnir fyrst og fremst að því, eins og hv. frsm. (JakM) tók rjettilega fram, að afla þeirra tekna, sem ríkissjóði er óhjákvæmilegt að fá. Hitt frv. stefnir ekki nema óbeint að þessu marki, í þeirri mynd, sem það er í nú, og því virðist nauðsynlegt, að hvortveggja frv. fylgist að. Frv. á þskj. 88 stefnir fyrst og fremst að því að koma á almennum sparnaði í notkun þeirra útlendra vörutegunda, sem eru annaðhvort miður nauðsynlegar eða þá ónauðsynlegar með öllu, og þannig að skapa hagstæðari viðskiftajöfnuð og lyfta gengi ísl. gjaldmiðils. Það má að vísu segja, að þetta frv. miði að nokkru leyti að því hinu sama, að því leyti sem hár verðtollur mundi verða til þess, að menn hættu að flytja þessar vörur inn eða takmarka innflutninginn mjög. En ef sú yrði niðurstaðan af því, að þetta frv. væri lögleitt, yrði vitaskuld ekki heldur neinn tekjuauki af því.

Hinsvegar er sá hanki á þeirri leið til sparnaðar, að leggja á háan verðtoll, sem aftra mundi innflutningi, að þá er erfiðara að hafa eftirlit með því, að tollsvikinn varningur flytjist ekki inn í landið. Þegar algert bann er á innflutningi, er auðveldara að líta eftir framkvæmdum og sjá við því, að vörur sjeu fluttar inn á laun, heldur en þegar vörurnar eru að vísu leyfðar, en afarhár verðtollur á þeim. Í skjóli þess varnings, sem þá væri fluttur inn að lögum, mætti tollsvíkja svo og svo mikið af sömu vöru, án þess að hendur verði hafðar í hári þeirra, sem það gera. Þetta hafði minni hlutinn sjerstaklega að athuga við frv., en eins og jeg tók fram áður, vildi hann líka stuðla að því, að þetta frv. kæmist til 1. umr. og undir álit hv. deildar, en síðan ætlast hann til þess og óskar þess, að þetta frv. verði hinu samferða.

Jeg tók ekki eftir, að hv. frsm. tæki fram, hvað nefndin hefir áætlað, að þetta frv. muni geta gefið í ríkissjóð. Sú áætlun er auðvitað mjög á reiki og erfitt að giska á þá upphæð, sjerstaklega þar sem þess má vænta, að innflutningur takmarkist afskaplega við háan verðtoll. Nefndinni taldist svo til, að verðtollurinn mundi nema röskum 2 milj. kr., ef miðað væri við innflutninginn 1921. En auðvitað má ekki gera ráð fyrir óbreyttum innflutningi. Það liggur næst frá sjónarmiði minni hlutans að banna innflutning á mörgum þeim vörutegundum, sem verðtollur er lagður á eftir frv., en setja verðtoll á það, sem eftir verður. Eftir lauslegri áætlun ætti hann að geta numið 1 milj. kr., ef miðað væri við innflutningsbann eftir frv. á þskj. 88.

Eins og jeg hefi tekið fram, mun minni hl. fylgja þessu frv. við 1. umr., en hugsar sjer að fylgja fremur haftafrv. við síðari umræður, eins og aðalþætti þeirra ráðstafana, sem gera þarf til gengisrjettingar og almenns sparnaðar.