28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

100. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg skal strax svara fyrirspurn hv. 2. þm. Rang. (KlJ) því, að jeg tel alveg nauðsynlegt, að þetta mál verði afgreitt frá deildinni á morgun, og að Ed. geti afgreitt það á einum degi, á mánudaginn. Þetta er alveg nauðsynlegt til þess að tollun verði viðkomið á þeim förmum, sem væntanlegir eru til landsins næstu daga. Hygg jeg, að afgreiðsla megi alls ekki dragast lengur, ef þessi tilgangur á að nást. Það er meiri sæmd fyrir Alþingi vegna fjárhags ríkissjóðs að afgreiða málið í tíma, svo hægt sje að ná tolltekjum af þessum væntanlegu förmum. Jeg hafði ætlað að fara fram á það við hv. deild, að 2. umr. yrði lokið nú, en jeg skil aðstöðu hv. 2. þm. Rang., að hann vilji ræða málið við fjhn. áður en það fer úr deildinni. Jeg vil spyrja háttv. þm., hvort honum sje ekki nægilegt að ræða við nefndina milli 2. og 3. umr. Nefndin gæti haft fund í kvöld eða snemma á morgun.

Jeg vil þá svara nokkrum ummælum, sem fram hafa komið, og skal þá fyrst víkja að ummælum hv. 2. þm. Rang., að skuldir ríkissjóðs hefðu hækkað frá því, sem alment var álitið og gefið var upp, en það voru 20 milj. kr. Þetta stafar að nokkru leyti af gengislækkun. Hefi jeg reiknað sterlingspundið á kr. 33,50 og danska krónu á kr. 1,23. Einnig hafa bæst við lausar skuldir.

Það er alveg rjett, að samningar um hafnargerð í Vestmannaeyjum voru gerðir áður en hin síðasta stjórn tók við völdum, Einungis samningar um greiðslu lánsins voru gerðir um síðustu áramót. Ummæli mín viðvíkjandi láninu voru í þá átt, að jeg er hræddur um, að Vestmannaeyingar geti ekki greitt það, sem þeim ber, á þessu ári, og kemur þá til kasta ríkissjóðs. Og því erfiðara sem verður að eiga við bæjarsjóð Vestmannaeyja, því brýnni nauðsyn er á því að greiða úr þörf ríkissjóðs.

Út af upplýsingum, sem háttv. 2. þm. Rang. gaf um það, að reynt hafi verið að festa lausaskuldir með erlendum lánum, vil jeg taka það fram, að því fer mjög fjarri, að jeg vilji álasa hæstv. fyrv. stjórn fyrir að hafa ekki fest lausu skuldirnar. Jeg tel það ekki æskilegt, að við reynum að svæfa sjálfa oss með því að taka hagkvæm lán til að greiða tekjuhalla. Það er að vísu erfitt fyrir fjrh. að taka við svo miklum lausum skuldum, en jeg er ekki viss um nema það hafi verið nauðsynlegt, að svo færi, til þess að menn rönkuðu við sjer og vöknuðu til fullrar meðvitundar um fjárhagsástandið og gerðu ráðstafanir, sem duga til þess að hægt sje að snúa við af þessari tekjuhallabraut. Býst jeg ekki við, að það hefði orðið happasælla fyrir þjóðina, þó skuldum hennar hefði verið ráðstafað með hagkvæmum löngum lánum.

Hvað snertir aths. háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), verð jeg að segja það, að mjer er það óskiljanlegt, að þær geti ráðið svo miklu hjá honum, að hann synji frv. um atkvæði sitt. Hann greiddi atkvæði með frv. í nefndinni í fyrstu ágreiningslaust. (SvÓ; Ekki ágreiningslaust; með skilorði). Jú, ágreiningslaust. Það er vitanlegt, að slíkar stórfeldar breytingar geta ekki orðið óþægindalaust með öllu. Það er auðvitað mögulegt fyrir kaupmenn að setja upp birgðir sínar, en jeg er ekki viss um, að kveða muni svo mikið að því eins og hv. 1. þm. S.-M. ímyndar sjer. Góðir kaupmenn hafa sagt mjer, að þeir myndu jafna tollinum niður á gömlu og nýju birgðirnar, og er það rjett aðferð eins og hjer stendur á. Á stríðsárunum var stjórninni gefin heimild til að takmarka vöruverð, og skipaði hún til þess verðlagsnefnd. Veit jeg ekki annað en að stjórnin hafi enn heimild til að grípa til þessa ráðs, ef þörf krefur. Þurfa því ekki að vera ákvæði um þetta í frv., nje heldur þarf frv. að tefjast þess vegna. Að öðru leyti má segja það, að taki kaupmenn einhvern gróða af þessum tolli nú, kemur það annarsvegar fram í auknum gjöldum þeirra til hins opinbera í tekjuskatti. Þar sem þessi ráðstöfun er til bráðabirgða og búast má við einhverjum vörubirgðum þegar tollinum verður af ljett, verða kaupmenn að taka tilsvarandi tap af þeim birgðum eins og þann gróða, sem þeir kunna nú að fá af fyrirliggjandi birgðum. Auðvitað gæti farið svo, að seinni birgðirnar yrðu eitthvað minni en þær fyrri, og því einhver vinningur fyrir þá kaupmenn, sem vildu nota sjer hann út í æsar. En einhver óþægindi hljóta altaf að fylgja slíkum óvenjulegum ráðstöfunum. Hliðstæð óþægindi stafa af bráðabirgðareglugerðinni um aðflutningsbann á ýmsum vörum, og mun þó hv. þm. S.-M. fremstur manna viðurkenna það, að ekki var rjettmætt að undanfella að setja slíka reglugerð.

Jeg hefi nú svarað mótbárum hv. þm. um það, að með þessum tolli sje sjerstaklega verið að hlaða undir kaupmenn. Má bæta því við, að það er vitanlegt, að slík tollhækkun mun draga úr verslunarveltu með þessar vörur, þó engar væru aðrar hömlur; afleiðingin er hagsmunarýrnun fyrir kaupmenn. Er enginn efi á því, að það mun koma mjög við hagsmuni margra þeirra. Ef mönnum finst, að það verði um of til hagsmuna fyrir vissa grein verslunar að setja tolllögin á nú þegar, — hvað segja hinir sömu menn um að draga það þangað til kaupmenn eru búnir að ná heim til sín þessum væntanlegu vörum án aukatolls? Það finst mjer hlynna meira að hagsmunum kaup manna heldur en að samþykkja frv. sem fyrst. Jeg veit, að hv. 1. þm. S.-M. sjer þetta, ef hann vill líta á það.

Þá sagði sami hv. þm., að vel mætti flytja inn tollsviknar vörur í skjóli hins leyfða varnings. Vitanlega fylgir sá galli öllum tollum. En ef menn telja þetta sem gilda ástæðu á móti tollum, verða þeir að stinga upp á öðrum færari leiðum til að afla ríkissjóði tekna. Ef til vill hafa þessi ummæli hv. þm. átt að þýða það, að heppilegra myndi aðflutningsbann heldur en tollun, því þá yrði erfiðara að skjóta inn vörum. Jeg hygg hið gagn stæða. Við erum nú búnir að fá fulla reynslu fyrir því á þessu landi, að almenningsálitið er á móti aðflutningsbönnum, og mönnum þykir engin minkun að því að brjóta þau, en þykir aftur á móti minkun að því að koma upp um lögbrjótana. Löggæslan hefði því mjög slæma aðstöðu með almenningsálitið á móti sjer. Þessu er öðruvísi varið með tollsvik. Sem betur fer er ennþá sá heilbrigði hugsunarháttur ríkjandi hjer á landi, að það þykir skömm að svíkja tolla. Sá mikli mismunur, sem liggur í því, að hafa almenningsálitið með sjer eða móti, ríður alveg baggamuninn í þessu efni. Jeg get því ekki sjeð, að nein af þeim ástæðum, sem fram hafa verið bornar, geti rjettlætt að draga afgreiðslu þessa frv.