28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1498 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

100. mál, verðtollur

Tryggvi Þórhallsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) ljet þess getið áðan, að hann væri ánægðari með mig nú en hann hefði verið stundum áður. Jeg tel það vel farið, að svo sje, þótt jeg hinsvegar búist við að verða að sætta mig við, að þetta kunni áður en varir að breytast til hins gagnstæða. En jeg get því miður ekki sagt það sama og hæstv. ráðherra. Það er fjarri því, að jeg sje ánægður með svar hans — þetta, að hann muni fylgja höftunum að svo miklu leyti, sem ríkissjóður þoli. Jeg verð að vera tortrygginn í þessu efni af tveim ástæðum. Fyrst af því, að hæstv. ráðherra, sem aðallega er studdur af kaupmönnum, virðist leggja höfuðáhersluna á það að ná með þessu móti tollum fyrir ríkissjóðinn, en hugsa minna um hitt, að sparað sje stórfje fyrir landið alt, með því að loka úti glingurvörur. Hæstv. ráðherra virðist með öðrum orðum fremur kjósa að afla ríkissjóðnum 400 þúsund króna tekna heldur en að spara 2 miljónir kr. fyrir landið alt. Jeg er algerlega mótfallinn þeirri fjármálastefnu. Það er nauðsynlegt, að öll þjóðin spari, því það hefir drýgst áhrif á gengi peninganna. Íslenska krónan má með engu móti falla frekar en nú er orðið. Við hvert spor, sem stigið er í þá átt að fella krónuna, er þess að gæta, að um leið hækka ekki einasta vextirnir af skuldum ríkisins erlendis, heldur verða og allar erlendar skuldir landsmanna hærri í krónutali, og fá þeir að kenna þunglega á því. Það er því stórum betra, að ríkissjóðurinn sje nokkrum þúsundum fátækari nokkurn tíma en að felt sje enn frekar gengi íslensku krónunnar, og hagur almennings jafnframt borinn fyrir borð svo að jeg haldi mjer við dæmið, þá er það með öðrum orðum betra, að ríkissjóðurinn sje 400 þús. kr. fátækari en að landið alt tapi 2 miljónum.

Hin ástæðan fyrir mig til þess að vera tortrygginn gagnvart yfirlýsingu hæstv. stjórnar er sú, að bak við hana standa þeir menn, sem hafa sjerstakan hag af því að hindra innflutningshöft, þeir menn, sem einmitt versla með þessar vörur. Það er nú svo, að þm. eru altaf að einhverju leyti háðir vilja kjósendanna, og jeg get mjög vel skilið, að það sje vont fyrir hæstv. stjórn að ganga á móti vilja sterkasta valdsins, sem stendur bak við hana. En þeim mun meiri er ástæðan til tortryggni fyrir okkur hina. Ef hæstv. stjórn vildi stofna hjer til samkomulags, þá ætti hún að orða yfirlýsinguna á þá leið, að hún vildi styðja haftafrv., sem færi aðallega í þá átt, sem þetta frv., sem fram er komið í þinginu, eða þá haftafrv., sem myndi spara þjóðinni sem næmi 5–6 miljónum króna. — Jeg get annars sagt eins og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að jeg get látið vera að spyrna gegn þessu frv. við þessa umr., en endanleg afstaða mín verður undir þessu komin.

Hæstv. fjrh. hneykslaðist á þeim orðum mínum áðan, að ef stjórnin hefði ekki næga alvöru til að hefta innflutning á ónauðsynjavöru til landsins, og bjarga þannig genginu, þá væri ekki fært að láta hana hafa á hendi peningastjórn landsins. En það er nú svo um bæði fullorðna sem börn, að ef þeir hafa ekki peninga undir höndum, þá eyða þeir ekki heldur. Og ef alvöruleysi hæstv. stjórnar er svo mikið, að hún hirðir ekkert um það, þótt peningar landsmanna haldi áfram að falla í verði, þá eru peningar landsmanna eins vel komnir hjá fólkinu eins og í höndum slíkrar stjórnar. Jeg er ekki með þessu að halda fram, að víst sje, að hæstv. stjórn hagi sjer þannig, en jeg verð að telja þessa afstöðu hennar fremur slæman fyrirboða.

Jeg vildi svo að lokum víkja að einu atriði í ræðu hæstv. fjrh. Hann kvað það ekki sæmilegt að leggjast á móti þessu frv., nema bent væri um leið á einhverja tekjulind í staðinn. Þar til er því að svara, að hægt er að ná tolli af þessum vörum, þótt fylgt verði okkar stefnu. Ekki er annað en að telja þær fram og banna síðan að selja þær, nema tollur sje áður greiddur. Þetta er vel hægt, ef hæstv. stjórn aðeins vildi.

Jeg skal annars ekki fjölyrða um þetta meira. Jeg mun hjá frv. fylgi, ef jeg fæ skýr svör hæstv. stjórnar um það, að hún vilji gera eitthvað alvarlegt í haftamálinu. Jeg hefi fyrir sjerstaka þolinmæði hæstv. forseta fengið að tala nú í þriðja sinn, enda mun jeg nú ekki tala lengur. Jeg vil þó að lokum taka það fram, að jeg tel hæstv. stjórn það engan vansa, þótt hún gangi að þessum kostum til að vinna fylgi með þessu frv. Og jeg fyrirverð mig ekki fyrir það, þótt jeg hafi þetta sem vopn á hæstv. stjórn, til þess að knýja fram jafnmikilsvert mál sem það er að rjetta við gengi íslensku krónunnar, og þar með fjárhag ríkisins.