28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

100. mál, verðtollur

Klemens Jónsson:

Einn háttv. þm. Íhaldsflokksins skaut því fram í umræðurnar, að óþarfi væri að semja ný haftalög, því að heimildarlögin frá 1920 væru enn í gildi og þinginu væri nóg að skora á stjórnina að beita þeim svo stranglega, sem fjárhagur landsins leyfði. Þetta er sama skoðun, sem komið hefir í ljós hjá tveim hæstv. ráðherrum, að fyrst beri að líta á fjárhag ríkissjóðs. Þetta er gömul og góð kenning, en taka skal jeg það skýrt fram, að jeg mun ekki treysta hvaða stjórn sem væri til að meta þarfir ríkissjóðs gagnvart öðru gagni, sem af innflutningshöftum má leiða.

Ef kaupmaður sæti t. d. í atvrh.-sessi, kæmi mjer ekki til hugar að bera svo mikið traust til hans, að jeg teldi nægja að afgreiða haftamálið með því að samþykkja áskorun til hans um að beita lögunum frá 1920 eftir eigin geðþótta. Annað mál er það, að mjer hefir skilist, að núverandi hæstv. atvrh. (MG) sje eindreginn haftamaður, og get jeg því betur treyst honum í þessum efnum.

Jeg hefi oft áður lýst því yfir í þessari hv. deild, að vel er hægt að beita lögunum frá 1920 betur en gert hefir verið, og jafnvel svo, að fult gagn væri að. Sýnir bráðabirgðareglugerð sú, sem jeg setti á dögunum, þetta best. En til þess að þeim lögum verði beitt, þarf stjórn landsins að hafa í því efni ákveðinn þingvilja að baki sjer. Þessi þingvilji var ekki til staðar árið 1921; miklu fremur var stjórninni þá lagt á herðar að veita undanþágur frá banninu. Sama er að segja um þingið 1922. Þá var öllum ljóst, að meiri hluti þess var á móti ströngu innflutningsbanni; taldi sjálfsagt, að undanþágur væru veittar. Yfir höfuð að tala hefir vilji þingsins verið svo á reiki á undanförnum árum, að stjórnin hefir aldrei haft fastan botn að standa á.

Því álít jeg, að rjettara sje og heppilegra bæði fyrir hæstv. stjórn og landsmenn yfirleitt, að nú verði samþykt ný haftalög, heldur en að gamla heimildin í lögum frá 8. mars 1920 verði notuð. Þau lög setja stjórninni í sjálfsvald, hvað hún bannar og hvað ekki, svo og hverjar undanþágur hún veitir. Hún hefir jafnvel á valdi sínu að banna það í dag, sem leyft var í gær. Er miklu heppilegra, að menn viti með vissu, hvað bannað er að flytja inn, og um leið, að alveg sje loku skotið fyrir allar undanþágur. Af þessum ástæðum tel jeg alveg bráðnauðsynlegt, að ný, ströng haftalög verði samþykt, ekki síst fyrir hæstv. stjórn, því allir vita, hvílíkur aðsúgur er gerður að henni, ef nokkurra undanþága er von. Jeg get því ekki fallist á, að þessi skoðun hæstv. stjórnar og annara, sem henni kunna að fylgja, sje rjett.

Jeg hefi oftar en einu sinni tekið fram, að jeg álít slík haftalög tvíeggjað sverð. Því meira sem bannað er að flytja inn, því meira missir ríkissjóður af tolltekjum. Þess vegna má ekki banna innflutning frekar en ríkissjóður fær risið undir, ekki síst nú, þar sem fjárhagurinn er svo erfiður. Um þetta atriði er jeg sammála hæstv. ráðherrum. Því hefi jeg fallist á, að tiltækilegt sje að banna sumar miður nauðsynlegar vörutegundir, en tolla aðrar, og get þess vegna fallist á frv. þetta, en vel að merkja, með því skilyrði aðeins, að alveg sje víst, að innflutningshöft komi á eftir. Sama sagði hæstv. fjrh. Hann taldi, að með þessu frv. væri fyrri áfangi leiðarinnar farinn, höftin kæmu á eftir. Vil jeg treysta því, að hann hafi talað þar sem formaður Íhaldsflokksins, og því megi vonast eftir stuðningi þess flokks við innflutningshöft.

Hæstv. fjrh. ljet svo um mælt í dag, að svo mundi vera ástatt með þjóðinni, að mönnum þætti engin minkun í því að brjóta aðflutningsbannlög, því að almenningsálitið væri á móti þeim. Alt öðru máli væri að gegna um tollsvik. Þetta er, að mínu viti, gersamlega rangt. Jeg held, því miður, að líkt sje um hvorttveggja, bannlög og tolllög; menn víla ekki fyrir sjer að brjóta hvor þeirra sem eru. Jeg kannast ekki við, að menn sjeu nokkuð hneigðari fyrir að brjóta hafta- eða bannlög heldur en að svíkja undan tolli. Að vísu er tollalöggjöf eldri, en tollsvik munu líka hafa þekst hjer löngu áður en bannlög komu til sögunnar, eða sú er mín reynsla. Fram að aldamótum mun lítið hafa kveðið að tollsvikum hjer á landi, en árið 1899 voru tollar hækkaðir að miklum mun, og strax á eftir varð jeg var við tollsvik, sem jeg hafði ekki orðið áður var við, og enda er það alkunna, að tolllög voru brotin að mun hjer á landi áður en nokkur bannlög komu til sögunnar, og gæti jeg nefnt þess allmörg dæmi, ef þess gerðist þörf. Þannig hafa tollsvik verið brautryðjandi brota á aðflutningsbannlögum, ef svo mætti að orði komast. Þeir, sem eru heiðarlegir, brjóta hvoruga löggjöfina, en hinum, sem vilja hafa sig til þess, verður ekki síður skotaskuld úr að brjóta tolllög heldur en. bannlög. Ef þessi skoðun hæstv. fjrh. á að styðja það, að almenningur sje fremur á móti höftum en tollum, þá vil jeg spyrja hann, hvort hann hafi ekki orðið var við neina breytingu í því efni síðan á síðasta þingi. Jeg held, að þá hefði haftafrv. ekki náð samþykki þingsins, en nú eru allar líkur fyrir, að svo verði. Og jeg vil ennfremur spyrja hæstv. ráðherra að því, hvort hann hafi ekki lesið þingmálafundargerðir þær, sem fyrir þinginu liggja og þar sem víðast er krafist strangra innflutningshafta. Jeg hygg, að úr velflestum kjördæmum landsins liggi fyrir kröfur um innflutningshöft. T. d. voru í einu kjördæmi haldnir 7 eða 8 þingmálafundir, og er hafta sterklega krafist á þeim öllum.

Nú síðast sagði hæstv. fjrh., að þó að haftafrv. yrði samþykt, myndi það hrökkva skamt til þess að hækka gengi ísl. krónunnar. Jeg er alveg ósammála hæstv. ráðherra um þetta atriði. Jeg er sannfærður um, að ef okkur tekst að hefta innflutning fyrir svo sem 5–6 miljónir kr., þá muni það fljótlega hjálpa okkur til að ná hagkvæmum verslunarjöfnuði, og því hækka gildi peninga vorra. Það er enginn vafi á því, að ströng haftalög eru afarmikilvægur, ef ekki mestur, þáttur í því að rjetta við gildi ísl. krónunnar, þó að þau sjeu vitanlega ekki einhlít, því að ekkert ráð mun einhlítt í því efni.

Þetta frv. hefir, eins og eðlilegt er, verið sett í samband við haftamálið og gengið að því sem gefnu, að nál. í báðum þessum málum yrði skilað jafnsnemma og þau tekin samtímis fyrir þessa hv. deild. Hefi jeg altaf búist við því, að samkomulag næðist um þessi mál milli aðalflokkanna í þinginu, og má vel vera, að svo verði enn, ef vikið verður að því fljótlega, að nál. um haftafrv. verði skilað á morgun, sem ætti ekki að vera hv. fjhn. ofvaxið, og það því fremur, að ekki var hægt að skilja hæstv. fjrh. öðruvísi en svo, að Íhaldsflokkurinn hefði þegar tekið afstöðu til haftamálanna. (BL: Nei, alls ekki). Jeg gat ekki skilið hæstv. fjrh. á annan veg, og sömuleiðis annan hv. þm. flokksins.

Jeg get nú lýst því yfir, að svo framarlega sem hæstv. stjórn vill greiða fyrir fljótri afgreiðslu haftafrv. til deildarinnar, og með hliðsjón af því, að hæstv. atvrh. hefir talið sig fylgjandi innflutningshöftum, sem jeg vil ekki rengja, þá mun jeg í trausti þessa hvorstveggja greiða atkvæði með þessu frv. Hvort það verður lengur en til 3. umr., kemur undir því, hversu vel Íhaldsflokkurinn bregst við í haftamálinu. Jeg vildi nauðugur þurfa að grípa til þeirra ráða að tefja fyrir þessu frv., en hvort svo verður, er undir hv. stjórnarflokki komið.