28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

100. mál, verðtollur

Ásgeir Ásgeirsson:

Mjer var það fullkomlega ljóst, hvaða skýrslur hafa komið frá hv. fjvn., þótt hæstv. fjrh. efaðist um það. En jeg vil leyfa mjer að spyrja hæstv. fjrh., hvernig hann fer að reikna út tekjuhalla yfirstandandi árs meðan óvíst er, hversu mikið hefst upp úr þessum auknu tollum, ef ströng innflutningshöft verða sett. Ennfremur vil jeg spyrja hann, hvernig hann fer að reikna út, hve miklu landssjóður muni tapa af verðtollinum meðan óákveðið er, hve víðtæk innflutningshöft verða sett. Á þetta vildi jeg benda í síðustu ræðu minni, og sömuleiðis sýndi jeg Íhaldsflokknum það traust, að hann gæti tekið ákvörðun í máli, sem búið er að liggja jafnlengi fyrir þinginu og haftamálið, og þyrfti ekki að gefa nein hikandi svör. Það mál er búið að liggja svo lengi fyrir þinginu, að jeg trúi ekki öðru en það hafi verið rætt ítarlega í flokknum. Og enda þótt formaður flokksins gefi það í skyn, að aldrei hafi legið neinar skynsamlegar tillögur í því máli fyrir þinginu, og honum þyki frv. það, sem tveir Framsóknarflokksmenn hafa borið fram, óskynsamlegt, þá hlýtur hæstv. fjármálaráðherra að bera það traust til síns flokks, að hann hefði getað sjálfur komið fram með einhverjar skynsamlegar tillögur í málinu. En við viljum fá ákveðin svör. Við þurfum ekki að spyrja um vilja hæstv. atvrh., því hann hefir altaf verið fylgjandi innflutningshöftum, heldur aðeins um það, hversu langt hans flokksmenn vilja fylgja honum í því máli. Ef gefin verða af Íhaldsflokknum yfirleitt jafnóákveðin svör og hæstv. fjrh. hefir gert, þannig, að halda mætti, að þeir vildu engin önnur höft en þau, sem liggja í 20% tollinum, eins og helst var að skilja af ræðu hans, þá er það ljóst, eins og líka hefir komið fram undir umræðunum, að Framsóknarflokkurinn getur alls ekki látið sjer það nægja. Jeg viðurkenni það, að þessu máli liggur á, en stjórnin hefir það alveg í hendi sjer, hvort það kemst fljótt í gegnum þingið eða ekki. Ef hún aðeins gefur hiklaus svör viðvíkjandi haftamálinu — þau svör, sem Framsóknarflokkurinn getur látið sjer nægja — þá er flokkurinn reiðubúinn til þess að veita þau afbrigði frá þingsköpunum, sem nauðsynleg eru til þess, að málinu verði hraðað.