29.03.1924
Neðri deild: 36. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

100. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Stjórnin hefir þegar við 2. umr. lýst yfir því, hve langt hún vilji fara í því að beita innflutningshöftum. Í umræddri fyrirspurn Framsóknarflokksins til stjórnarinnar er farið fram á, að stjórnin gefi yfirlýsingu um það, hvort hún vilji fylgja fram frv. um innflutningshöft, sem sje í aðalatriðum eins og það frv., sem þegar er fram komið um það efni frá tveim hv. þm. Framsóknarflokksins. Jeg verð nú að segja það, að jeg sje ekki, hvaða rjett Framsóknarflokkurinn á til þess, að stjórnin, í umræðum um annað mál, gefi yfirlýsingu um, hvort eða hve mjög hún vilji styðja að innflutningshöftum. Jeg sje ekki heldur, að stjórnin geti gefið ákveðnari yfirlýsingu um þetta en hún hefir þegar gert, og jeg skil ekki, að Framsóknarflokkurinn græddi nokkuð frekar á því, að stjórnin lýsti því yfir, að hún vildi fylgja frv., sem væri í aðalatriðunum eins og frv. hv. þm. flokksins, því að hver á svo að dæma um, hvað eru aðalatriði og hvað aukaatriði? Hver á þar að vera dómari? Á Framsóknarflokkurinn að vera það eða stjórnin? Eigi stjórnin að kveða upp dóminn, þá getur hún gefið yfirlýsingu um þetta, en hún yrði þá líka lítils virði fyrir hinn aðiljann. Annars getur hún það alls ekki.