29.03.1924
Neðri deild: 36. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

100. mál, verðtollur

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg hefi leyft mjer, ásamt hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), að koma fram með brtt. á þskj. 250 við þetta frv. Fer breytingartillagan fram á, að nokkrar algengar vefnaðarvörutegundir, sem kaupstaðabúar, einkum þeir fátækustu, geta ekki án verið, verði undanþegnar þessum verðtolli. Vænti jeg, að hv. þm. hafi aðgætt brtt. Eftir því, sem jeg þekki til, veit jeg að slíkur tollur kæmi allhart niður á mönnum, einkum í stærri kaupstöðunum. Býst jeg ekki við, að hv. deild vilji verða til þess að íþyngja fátæklingum á landi hjer meira en þörf gerist. Og jeg þykist viss um, að það hefir heldur ekki verið tilætlun hv. fjárhagsnefndar. Mjer hefir annast fundist þessu verðtollsfrv. talsvert ábótavant. En jeg hygg, að þessi brtt. bæti nokkuð úr, ef hún verður samþykt.

Þar sem verðtollurinn nær til, eru fremur þær vörutegundir, sem síður verða taldar nauðsynjavörur, og þeir, sem minna gjaldþol hafa, geta því fremur við sig sparað. En jeg býst við því, að mönnum finnist nóg dýrtíð í landinu, þó Alþingi gerði sitt ýtrasta til þess að draga úr henni. Það má vera, að þessi undanþága geri máske eitthvað erfiðara með eftirlit, en jeg hygg, að það sje ekki svo miklu nemi. En þar sem þessar vörutegundir eru tiltölulega fáar, ætti það að vera hægara að líta eftir því, að undanbrögð frá tollgreiðslum ætti sjer ekki stað, að minsta kosti ekki svo neinu næmi, en þó svo færi, að það yrði afleiðing hennar, að eigi væri hægt að gera við þessum undanbrögðum, teldi jeg það þó skárra en að fátæku fólki yrði íþyngt um of vegna þess, að því væri gert ókleift að afla sjer þeirra nauðsynja, sem það getur ekki án verið. Hins vegar munar ríkissjóð ekki svo mjög um tollinn af þessum vörum. Þetta voru aðalástæðurnar, sem vöktu fyrir okkur flm., er við ákváðum að bera þessa brtt. fram, sem jeg vænti, að hv. deild geti fallist á.