29.03.1924
Neðri deild: 36. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

100. mál, verðtollur

Frsm. (Jakob Möller):

Það hafa nú orðið miklar umræður um þetta mál, og ekki ósvipað því, þegar rætt hefir verið um ullariðnað; mönnum hefir hætt við að fara út fyrir efnið. Jeg hefi nú ekki fram að þessu fundið ástæðu til að taka til máls, hvorki mín vegna eða fjhn. Þegar haftamennirnir berast á banaspjót, þá get jeg sagt nokkuð svipað því, sem háttv. þm. Str. (TrÞ) sagði nýlega í öðru sambandi, að „þar eigast þeir einir við, sem mjer er ósárt um.“ En ekki get jeg neitað því, að mjer hafi flogið í hug, hvort ekki væri eðlilegt, ef 3. flokkur þingsins, sá sem jeg tilheyri, hefði nú tekið upp aðferð hinna þingflokkanna, og kæmi nú og segði við stjórnina: Já, ef við fylgjum þessu, þá verðið þið að lofa okkur því að setja engin höft. Jeg vil nú samt ekki álíta, að það sje rjett aðferð, þegar þess er gætt, að afla þarf ríkinu tekna og engum hefir tekist að finna aðra leið heppilegri en þá, sem frv. þetta fer fram á. Held jeg jafnvel, að það sje viðurkent af öllum, að hjer hafi fjhn. hitt á skárstu leiðina. Veit jeg þó vel, að þetta er neyðarúrræði. Aðeins einn hv. þm. í þessari deild hefir nokkra sjerstöðu í þessu efni. Hann getur staðið upp og sagt: Jeg er á móti öllu. Minnist jeg í þessu sambandi annars stórmáls, sem einusinni lá fyrir þinginu, þegar sami hv. þm. tók sig út úr og sagði þessi stóru orð: Jeg mótmæli. Menn muna, að fyrir þetta fjekk hann geislakórónu. Væntanlega fær hann annan geislabaug fyrir afskifti sín af þessu máli.

Hv. samþm. minn (JBald) talaði um það, að það væri ekki fátt af nauðsynlegum vörum, sem tollurinn lenti á. Þessu hefir verið játað. En um tvent var að velja, að afla tekjuaukans með tolli á öllum vörum eða taka þær einar, sem fólk gæti í raun og veru helst án verið. Þá leið fór fjhn. Og þó nefndin fyndi þörf hjá sjer til að taka fleiri vörur undan tolli en hún hefir gert, þá strandaði það á þeim erfiðleikum, sem framkvæmd laganna fylgdi, ef undanþágurnar yrðu alt of margar. Hinsvegar er það líka svo með flest af þessum vörum, að fólk getur yfirleitt sparað þær við sig meira en gert er, jafnvel þó menn þykist gæta sæmilegs sparnaðar. Menn geta oft nýtt föt sín betur út en þeir gera, ef þeir vilja, og á þessum tímum er það nauðsynlegt, að menn spari til hins ýtrasta.

Þá hefir till. komið fram um að undanþiggja frá tolli nokkrar vefnaðarvörutegundir, sem nefndin hefir ekki tekið upp í sína upptalningu á undanþegnum vörum. Nefndinni hefir ekki gefist tækifæri til að bera sig saman um þessa till., enda mun hún samin í morgun, en hvað mig snertir, þá get jeg tekið undir það, sem hæstv. fjrh. (JÞ) sagði um till. Það er ekki vegna þess, að jeg í rauninni vildi ekki gjarnan undanskilja svo nauðsynlegar vörur, en jeg vil benda á, að af sumum þeirra munu vera til talsverðar birgðir í landinu, og ef hægt yrði að hafa eftirlit með verði á nokkrum vörutegundum, þá ætti það að vera á þessum. En einhverjar slíkar ráðstafanir fyndust mjer vel geta komið til mála.

Viðvíkjandi brtt. hv. þm. Barð. (HK) skal jeg taka það fram, að nefndin hefir ekki tekið neina afstöðu til hennar. Þó hygg jeg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að meiri hl. nefndarinnar sje ákveðið á móti því, að þessi tollur sje lagður á bursta, þar sem þeir eru nauðsynleg tæki til atvinnurekstrar, sjerstaklega við fiskverkun. Hinsvegar er hjer ekki um slíkt vörumagn að ræða, að það skifti miklu máli. Um hinn lið till., sápur, er það að segja, að jeg hygg, að flestir nefndarmenn muni geta aðhylst hana. Var þetta til umræðu í nefndinni, en hún þóttist þó ekki hafa næga tryggingu fyrir því, að hin innlenda sápa væri svo góð, að rjett væri að vernda hana með háum tolli. En síðan hafa ýmsar upplýsingar borist um þetta efni, og fara þær allar í þá átt, að þessi innlenda framleiðsla hafi reynst mjög vel og jafnvel tekið samskonar útlendum vörum fram. Get jeg því mælt með, að till. þessi verði samþykt.