29.03.1924
Neðri deild: 36. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

100. mál, verðtollur

Jörundur Brynjólfsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) vjek nokkrum orðum að brtt. okkar á þskj. 250 og telur sig, því miður, ekki geta fylgt henni. Er raunar ekki svo að skilja, að hann líti ekki svo á, að gott væri að undanþiggja þessar vörur, sem þar eru taldar, frá tolli, en hann hræðist, að það yrði mjög til þess að auka á erfiðleikana um framkvæmd laganna. Vil jeg heldur ekki mæla því í gegn að öllu leyti, enda hefi jeg áður minst á þá agnúa. Það, sem hjer er um að ræða, er þá það, hvort menn meti meir þá örðugleika, sem af þessu geta stafað með tilliti til tollgæslunnar, eða þann ávinning, að hafa vörur þessar undanþegnar verðhækkunartollinum. Verða menn að gera það upp með sjálfum sjer, hvort þeir meta meira, að fá þessar bráðnauðsynlegu vörur sem ódýrastar eða eiga á hættu, að einstaka kaupsýslumaður, sem svo væri skapi farinn, hefði einhvern lítilfjörlegan hagnað af tollsvikum þeirra vegna. Jeg hefi lengi hugsað um þetta, og því lengur sem jeg hefi velt því fyrir mjer, því ljósara hefir það orðið fyrir mjer, að þessar vörur bæri að undanþiggja verðtolli. Jeg óttast það nefnilega, að nái þessi hækkun fram að ganga, þá skapi það þá dýrtíð, sem orðið geti næsta afleiðingarík meðal almennings. Jeg get auðvitað ekki sannað þetta — það er ekki þess eðlis — en jeg þykist hinsvegar hafa miklar ástæður til að byggja þessa skoðun mína á. Legg jeg það á vald hv. deildarmanna að gera upp með sjálfum sjer, hvað rjett muni vera í þessu efni.

Hæstv. fjrh. (JÞ) drap á það, að slík tollhækkun myndi verða til þess, að menn spöruðu við sig kaup á þeim vörum, sem hún lenti á. Býst jeg við, að ofurlítið kunni að sparast svo, en ekki neitt teljandi, því jeg geri ráð fyrir, að allur þorri þeirra manna, sem kaupa vörur þessar, geti ekki langa stund verið án þeirra.

Við flm. getum ómögulega orðið við þeim tilmælum hæstv. fjrh. að taka till. aftur. Við berum hana fram í þeirri fylstu alvöru og sannfæringu, að frv. væri betur komið með undanþágunni heldur en það væri samþykt án hennar.

Eitt atriði var það í ræðu hv. 3. þm. Reykv. (JakM), sem jeg vil stuttlega víkja að. Hann kvað svo mikið til af vörum þessum í landinu, að tollhækkunin gæti ekki orðið að tjóni. Vel má vera, að allmikið sje til af þessum vörum, en jeg býst við, að hv. þm. (JakM) viti eins vel og jeg, að eftirlit með því, að þær vörur, sem fyrir hendi eru, verði ekki hækkaðar óeðlilega í verði, er ómögulegt. Svo tollhækkunin kann eins vel að koma niður á þeim vörubirgðum, sem fyrir hendi eru.

Hv. þm. Barð. (HK) ber fram brtt. á þskj. 249. Jeg hygg, hvað snertir 1. lið, að þær vörur, sem þar eru taldar sjeu svo nauðsynlegar atvinnurekendum við sjóinn, að það væri í mesta máta órjettmætt að hækka toll á þeim. Um síðari liðinn get jeg fyrir mitt leyti sagt það, að jeg er ekki á móti því, að nokkur tollhækkun komi niður á þeim vörum. En mjer þykir 20% vera fullmikill verndartollur fyrir innlendar vörur, nema því aðeins, að landsstjórnin hafi svo gott eftirlit með verksmiðjunum, að hún sjái um, að þær noti ekki þau rjettindi, sem þeim eru þannig í hendur fengin, til verðhækkunar.

Jeg hefði talið betra, að komið hefði fram miðlunartill., virtist t. d. 10% vera fullnógur verndartollur. En sjái landsstjórnin svo vel um það, að vörurnar hækki ekki fyrir þetta í verði, þá má mjer standa á sama um þessa brtt.

Hv. þm. Str. (TrÞ) hefir svarað hv. 2. þm. Reykv. (JBald), og læt jeg þar við sitja.