29.03.1924
Neðri deild: 36. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1542 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

100. mál, verðtollur

Jörundur Brynjólfsson:

Það var aðeins örstutt aths. út af ummælum hv. 3. þm. Reykv. (JakM).

Jeg skildi ekki betur en að hann vildi halda því fram, að þessi tollhækkun kynni eins að ná til þeirra vara, sem undanþegnar eru. Kaupmenn myndu ekki eingöngu færa upp verð tolluðu varanna, heldur og annara. Jeg vona, að þetta reynist ekki rjett, því annars verð jeg að segja, að þetta frv., sem jeg hefi borið fram ásamt öðrum í fjhn., er meira en lítið mislukkað. Við höfum tekið undan margar vörutegundir í þeirri góðu trú að tollhækkunin nái ekki til þeirra. Og á þeirri trú er og bygð brtt. okkar hv. þm. N.-Ísf. (JAJ).

Hv. þm. sagði líka, að samkepnin myndi gera það að verkum, að verðlag slíkra vara færi ekki um skör fram. Jeg skil það ekki. Hví skyldi verða meiri samkepni um að selja tollaðar vörur en ótollaðar? Jeg skil ekki, að meiri samkepni verði um söluna, þó lagður sje 10–20% tollur á þær. Finst mjer því þessar mótbárur hv. þm. (JakM) gegn brtt. ekki svo mikilvægar að hún þurfi að falla fyrir þær.

Annars geri jeg ráð fyrir, að hv. þdm. hafi skapað sjer skoðanir á þessu máli og sýni þær nú við atkvgr.