29.03.1924
Efri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

100. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er borið fram af fjhn. Nd. til þess að afla ríkissjóði tekjuauka. Eins og háttv. þm. er kunnugt, hefir þingið afgreitt ein lög, sem útvega ríkissjóði nokkurn tekjuauka, og hafa þau nú þegar hlotið staðfestingu konungs, en það eru lög um 25% gengisviðauka við tolla, sem eiga að greiðast til ríkissjóðs, og það hefir verið áætlað, að það muni auka tekjur ríkissjóðs um ½ miljón króna. En fjhn. Nd. sá, við athugun á fjárhag ríkissjóðs, að þurfa mundi 1½ miljón króna tekjuauka til þess að komast tekjuhallalaust yfir þetta ár, og þess vegna bar nefndin fram þetta frv. Og það liggja ekki önnur tekjuaukafrv. fyrir þinginu en þetta, fyrir utan eitt frv., sem liggur fyrir neðri deild og er borið þar fram af hv. 1. þm. S.-M. Það er frv. til laga um breytingu á lögum um áfengisverslun, þar sem heimilað er að taka verslunarhagnað af lyfjaspíritus.

Jeg gerði við meðferð þessa máls í Nd. grein fyrir fjárhag ríkissjóðs og þeirri brýnu nauðsyn, sem er á að útvega honum tekjuauka. Jeg skal ekki fara mikið út í það mál nú, en vil aðeins nefna aðalniðurstöðuna.

Skuldir ríkissjóðs eru nú rúmar 22,3 miljónir króna með núverandi gengi íslensku krónunnar, og af þeirri upphæð eru 3,5–4 miljónir lausaskuldir, sem hafa verið stofnaðar með loforðum um fljóta greiðslu. Þau loforð hefir ekki verið hægt að efna, sökum þess, að fje hefir ekki verið fyrir hendi, og það er óhætt að segja það um meiri hlutann af þessum lausaskuldum, að þær eru í vanskilum. Landsbankinn hefir lánað mest af þessu fje, og jeg hefi átt tal við bankastjórnina, og hefir hún sagt, að landsstjórnin hafi gengið lengra í því að nota lánstraust ríkissjóðs hjá bankanum en góðu hófi gegnir og holt getur talist fyrir viðskiftalífið í landinu. Þetta er raunar ekkert undarlegt, því tekjuhalli varð árið 1922 2,6 miljónir og árið 1923 um 2 miljónir króna. Og á þessum árum hefir ríkissjóður ekki tekið neitt fast lán, heldur hefir þessi halli verið jafnaður að mestu með bráðabirgðalánum.

Jeg gat þess ennfremur við meðferð þessa máls í Nd., að fyrir utan skuldir ríkissjóðs sjálfs mundi hann verða að borga ábyrgðarskuld fyrir Vestmannaeyjar á þessu ári. Ríkissjóður tók á sig þessa ábyrgð fyrir Vestmannaeyjar sökum hafnargerðar þar í Eyjunum, sem lokið var við nú á síðastliðnu sumri. Það hafa nýlega verið gerðir samningar um þessa skuld, og á hún að greiðast á 5 árum, og 47 þús. kr. falla í gjalddaga nú mjög bráðlega. Vestmannaeyjar geta ekki greitt þetta fje, og þótt stjórnin muni reyna alt hvað hún getur til þess, að þetta lendi að sem minstu leyti á ríkissjóðnum, getur hún þó ekki gert ráð fyrir öðru en verða að greiða eitthvað til bráðabirgða. Af þessu ásamt fleiru leiðir það, að á þessu ári munu verða miklar umframgreiðslur. Afborganir og vextir af lánum munu fara um 350 þús. kr. fram úr áætlun, sökum lækkandi gengis íslensku krónunnar og aukninga á lausaskuldum. Þar að auki eru sumir liðir í fjárlögunum of lágt áætlaðir. Berkla varnakostnaður er t. d. áætlaður 70 þús. kr., en verður 300–400 þús. kr. Það er líka óhjákvæmilegt að greiða eitthvað af lausaskuldum. T. d. liggur fyrir loforð frá fyrverandi stjórn um greiðslu á 240 þús. kr. skuld, sem fellur í gjalddaga 1. apríl. í sjóðnum hefir nú undanfarandi aðeins verið til fyrirliggjandi það, sem hefir þurft til að standast útgjöldin frá degi til dags, og nú er í honum aðeins það nauðsynlegasta, sem þarf til þess að komast yfir mánaðamótin. Þó hefi jeg orðið að taka 50 þús. kr. bráðabirgða lán til þess að geta staðið í skilum með greiðslu, sem fram á að fara í Kaupmannahöfn. Mjer finst því vera ríkar ástæður til þess, að þingið geri alt, sem mögulegt er, til að útvega ríkissjóði tekjuauka.

Það er hinsvegar ómögulegt að gera nokkra áætlun um, hve mikinn tekjuauka þetta frv. muni færa ríkissjóði, og liggja til þess ýmsar ástæður. Fyrst og fremst er það sökum þess, að það liggja ekki fyrir neinar nýrri skýrslur um innflutning á þeim vörutegundum, sem á að leggja þennan bráðabirgðatoll á, en frá 1921. En það er ekki hægt að miða við árið 1921, því að þá stóð alt öðruvísi á. Kaupgeta manna var þá yfirleitt miklu meiri en nú, og því meiri innflutningur á miður þörfum vörum en búast má við, að hann verði nú. Það væri frekar hægt að miða við árið 1922 eða 1923, en skýrslur eru ekki fyrir hendi um slíkan innflutning á þeim árum.

Önnur ástæðan er sú, að þegar svona hár tollur er lagður á vörur, sem ekki eru mjög nauðsynlegar, má búast við, að dragi úr innflutningi þeirra.

Þriðja ástæðan er sú, að nú er í ráði að banna innflutning á ýmsum þeim vörutegundum, sem falla undir þennan toll, og slíkt aðflutningsbann hlýtur auðvitað að draga nokkuð úr þeim tekjum, sem ríkissjóður fær af þessum tolli. Það er talið, að innflutningur á þeim vörutegundum, sem þessi aukni tollur nær til, hafi numið 10 milj. kr. árið 1921. Það hefir ekki verið búist við, að tekjur af þessum tolli yrðu meiri en 1 milj. kr., og til þess að svo verði, þarf innflutningur á þeim vörutegundum, sem tollurinn er lagður á, ekki að vera nema 5 milj. kr., eða helmingur af því, sem hann var árið 1921. En jeg skal taka það fram, að jeg fyrir mitt leyti þori varla að búast við svo miklum tekjuauka af þessum tolli.

Fjhn. Nd. bar frv. þetta fram eftir að hafa athugað vandlega þær leiðir, sem hugsanlegar væru til þess að afla ríkissjóði aukatekna.

Sú nefnd vildi ógjarnan fara lengra í tollhækkunum en að hækka tollana sökum hins lága gengis íslensku krónunnar, eins og þegar hefir verið gert. Og nefndin vildi það ógjarnan, sökum þess að auknir tollar, einkum á nauðsynjavörum, hafa óhjákvæmilega í för með sjer aukna dýrtíð í landinu og þar af leiðandi kauphækkunarkröfur, bæði af hálfu verkamanna og starfsmanna ríkisins.

Nefndin sá því ekki aðra heppilegri leið til þess að afla ríkissjóði aukatekna en að leggja toll á svona vörur, sem að vísu er ekki hægt að segja, að sjeu að öllu óþarfar, en eru þó miður þarfar og hægt að spara kaup á þeim á krepputímum eins og nú eru. Og með því að leggja tollinn á þessar vörur, kemur hann tiltölulega rjettlátlega niður, því það verða efnuðustu mennirnir, þeir menn, sem hafa mesta kaupgetuna, sem aðallega kaupa slíkan miður þarfan varning. Þessi tollur ætti því að hafa einna minst áhrif á dýrtíðina í landinu.

Stjórnin vill, að þetta frv. fái mjög skjóta afgreiðslu, sökum þess, að nýlega voru sett innflutningshöft á flestar þær vörur, sem tollurinn nær til, en þau höft ná ekki til þeirra vörubirgða, sem komnar voru á stað til landsins, eða sem komnar voru á afgreiðslur skipanna áður en reglugerðin um höftin varð kunn; því ekki þótti fært að hindra innflutning á þeim vörutegundum, sem svo var ástatt um. Hinsvegar var mönnum yfirleitt kunnugt um, að höft mundu koma, og munu menn því hafa pantað mikið, og það þykir fullvíst, að með næstu skipum, sem hingað koma, muni vera alveg óvenjumikið af þeim vörum, sem falla undir þennan toll. Þess vegna vill stjórnin gera alt, sem hún getur, til þess að ná tolli af þessum vörubirgðum, því þær mundu hvort sem er verða hækkaðar jafnt og þær vörur, sem tollurinn næði til, og ágóðinn myndi renna í vasa innflytjendanna, en almenningur að mjög litlu eða engu leyti njóta þess, þó þær yrðu tollfríar.

Það varð á endanum gott samkomulag í Nd. um þetta frv. Þrír aðalflokkarnir komu sjer saman um að láta það fá fljóta afgreiðslu, og ef eins verður hjer í þessari hv. deild, þá verður hægt að afgreiða það sem lög frá Alþingi á mánudaginn og fá konungsstaðfestingu á því á þriðjudaginn, en á miðvikudaginn er einmitt von á fyrsta farminum, sem þarf að ná tolli af.

Jeg vona því, að hv. deild taki þessu frv. vel og afgreiði það svo fljótt, sem mögulegt er, svo það geti fyllilega náð tilgangi sínum.