24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

1. mál, fjárlög 1925

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg kvaddi mjer hljóðs meðfram vegna brtt., sem jeg á við þennan kafla fjárlaganna, sem nú er til umræðu.

Jeg get fúslega tekið undir með þeim mönnum, sem talað hafa um, að störf hv. fjvn. hafi ekki verið sem skemtilegust að þessu sinni, því frekar nú en áður, þar sem fyrir henni hafa legið til úrlausnar ýms vankvæði, sem ekki hafa áður verið. Þó nú að sumum hv. þm., sem ekki eiga sæti í henni, þyki ef til vill nokkuð langt gengið að því er snertir ýmsar sparnaðartill., þá vil jeg segja, að henni sje vorkunn, og það miklu frekar nú en áður. Jeg er hv. nefnd mjög þakklátur fyrir það, að hún virðist hafa áætlað tekjurnar fyrir árið 1925 mjög varlega, — miklu varlegar en gert er í núgildandi fjárlögum, því að þar er gert ráð fyrir miklu meiri tekjum en líkur eru til, að þær muni verða. En eins og jeg hefi tekið fram áður, tel jeg það eitt hið hættulegasta fyrir fjárhag okkar að áætla tekjurnar óvarlega. Jeg tel það ennþá skaðlegra en þó að skilið sje við fjárlögin með töluverðum tekjuhalla. Hefir slíkt oft komið fyrir áður, en það, sem þá hefir bjargað og bætt upp tekjuhallann, hefir verið hin varlega áætlun teknanna, sem þá hafa altaf farið fram úr áætlun, og það svo mjög, að þó að gjöldin hafi farið fram úr áætlun, hefir það ekki komið að sök. Hv. fjvn. á því þakkir skilið fyrir að hafa gengið feti framar í þessu en gert var í stjfrv.

Um meðferð hennar á gjaldahlið frv. geta eðlilega verið skiftar skoðanir. Þó nú að þær sparnaðartillögur, hver út af fyrir sig, geti ekki talist stórvægilegar, þykist jeg skilja hugsun nefndarinnar í þessu efni, sem sje þá, að vilja draga úr öllum mögulegum útgjöldum ríkissjóðs, til þess að reyna að tryggja fjárhag hans. Mun jeg því styðja nefndina að þessu leyti, eftir því sem jeg get.

Þó jeg að sjálfsögðu styðji þessa grundvallarhugsun nefndarinnar, eru þó sumar tillögur hennar, sem jeg get alls ekki fallist á, og býst jeg við, að hv. fjvn. komi það ekkert óvart. Þá eru og nokkrar tillögur hennar svo vaxnar, að ekki hefir orðið komist hjá þeim greiðslum, og því rjettara að taka þær upp í fjárlög. Um þetta er vitanlega ekkert að segja. En aftur eru nokkrar tillögur hennar til aukaútgjalda, sem jeg get alls ekki fallist á, og skal jeg þar sjerstaklega nefna till. um hækkun til símalína, t. d. aukinna símalína í Reykjavík o. fl. Þar er farið fram á allstórar upphæðir, sem jeg get ekki með neinu móti greitt atkvæði með. Úr því að svo er komið fjárhag vorum, að við verðum að draga úr öllum verklegum framkvæmdum úti um land, er ekki nema eðlilegt, að dregið sje einnig úr hinum miklu gjöldum hjer í Reykjavík.

Um þær brtt. hv. fjvn. við síðari kafla fjárlaganna, sem horfa til sparnaðar, skal jeg ekki tala nú.

Við þennan kafla fjárlaganna á jeg aðeins eina brtt. og er auk þess meðflutningsmaður að annari, og býst jeg við, að fyrsti flm. hennar hafi þar orð fyrir okkur. Brtt. mín er við 25. lið a. á þskj. 163, en er á þskj. 196,IV. Er hún um að hækka styrkinn til Grímsneslæknishjeraðs úr 3 þús. kr. upp í 9 þús. kr. Þar sem tillaga þessi er til hækkunar, mun jeg víkja að því, af hverju jeg hefi leyft mjer að koma fram með hana. Háttv. frsm. (ÞórJ) vjek að þessu máli í framsöguræðu sinni, en ummæli hans gáfu ekki beinlínis ástæðu til andsvara, en þó mun jeg síðar í ræðu minni víkja að þeim.

Fyrir háttv. fjárveitinganefnd lágu plögg frá þeim mönnum fyrir austan, er höfðu með höndum byggingu læknisbústaðarins og sjúkraskýlisins í Laugarási. Er þegar sýnt fram á, að húsið hafi kostað rúmar 30 þús. kr., að undantekinni jörðinni. Nú sækja menn þessir til þingsins um samskonar upphæð og venja hefir verið að veita slíkum sjúkraskýlum, sem sje 1/3 kostnaðar. Og þó að undarlegt sje, hefir hv. nefnd ekki getað orðið við þessum tilmælum, en leggur aftur á móti til, að læknishjeraðinu sjeu veittar 3 þús. kr. eða 1/3 af því, sem landið er vant að veita í þessum tilfellum, og nær það tæplega því að vera 1/9 af því, sem skýlið kostaði. Þessu til stuðnings færir nefndin fram í áliti sínu, að hjeraðið hafi áður fengið óbeinlínis styrk, með kaupum á Geysishúsinu, sem rifið var í fyrra og flutt að Laugarási og haft í læknisbústaðinn. Hefðu nú engar aðrar upplýsingar en umr. hjer á Alþingi í fyrra legið fyrir hv. nefnd um þau hlunnindi, sem hjeraðið hefir haft af húsakaupum þessum, væri skiljanlegt, að hún hefði hagað tillögum sínum á þennan hátt. En svo vel vill til, að á síðasta þingi lá engin umsókn fyrir um styrk til þessa sjúkraskýlis, af því að húsið var þá í smíðum og ekki kunnugt um, hvað það myndi kosta. Eru því þau ummæli, að fyrir hafi þá legið styrkbeiðni um 3 þús. kr., alveg röng. Heldur var það flutt af þingmönnum sýslunnar, án þess að hjeraðsbúar óskuðu þess. En út af þeim móttökum, sem þessi tillaga fjekk hjá hinu háa Alþingi, ljet nefnd sú, er sá um byggingu hússins, mæla upp allan viðinn úr Geysishúsinu og reikna hann til rjetts verðs, eins og verðið var á nýju timbri austan fjalls á þeim tíma er húsið var bygt, og reikna svo á honum hæfilega fyrningu. Þessi plögg lágu nú fyrir háttv. fjvn., og hefði hún því getað sjeð, hver hlunnindi læknishjeraðið hefir hlotið við kaupin á húsi þessu. Sannleikurinn er sá, að þegar búið var að reikna flutningskostnað á húsinu frá Geysi til Laugaráss, það sem hann var meiri en ef timbrið hefði verið flutt af Eyrarbakka, og auk þess 20% fyrningu á efninu, þá stóð alveg heima kostnaður og ábati. Það var hvorki gróði nje tap á kaupunum, nema hvað leikna hefði mátt meiri fyrningu en 20%, þar sem húsið var orðið gamalt og hafði aðeins einu sinni verið málað á 15 árum.

Matið á húsinu var framkvæmt af mjög trúverðugum mönnum, og jeg vona því, að hv. fjvn. geti ekki vefengt þessa reikninga. Og jeg vænti þess, að þar sem hæstv. atvinnumálaráðherra þekkir einn manna þessara mjög vel og veit, að hann nafnfestir ekki þau skjöl, sem ekki eru rjett, þá efist hann ekki um, að hjer er með rjett mál farið,

Mjer skilst háttv. fjvn. byggja ummæli sín í nál. um styrk þann, er hún vill veita læknishjeraðinu nú, á því, að það hafi hlotið óbeinlínis styrk með húsakaupum þessum, því að háttv. nefnd segir þar, að ekki sje sanngjarnt að svifta læknishjeraðið öllum styrk, og vilji hún því sýna einhvern lit og búist við, að hjerassbúar geri sig ánægða með þessar 3 þús. krónur, þó að nú liggi fyrir hærri kröfur. Hefði það verið handahófsregla, sem fylgt hefir verið við úthlutun á þessum styrkjum undanfarið, gat þetta verið rjett. En þar sem það hefir verið föst regla að borga 1/3 kostnaðar við sjúkraskýlin, þá fæ jeg ekki skilið, hvernig hv. fjvn. getur látið sjer detta í hug, að hjeraðsbúar geti gert sig ánægða með það að fá 1/9. Þeir hefðu áður verið búnir að fá nokkum styrk. En svo var nú ekki, því að alt þetta hjal um gróða við húsakaupin er vitanlega ekkert nema hugboð og margsannað, að svo er. Hefði háttv. nefnd af sparnaðarástæðum ekki sjeð sjer fært að verja neinu fje í þessu skyni, þá var á það lítandi og ekkert um það að segja. En með næstu tillögu getur maður sannfærst um, að svo er ekki, því að þar leggur nefndin til, að eitt læknishjerað fái 15 þús. kr., sem mun vera nálægt 1/3 áætlaðs kostnaðar. Það er langt frá mjer að ætla að andmæla þessari tillögu, því að nefndin segir, að hætta sje á, að hjeraðið verði læknislaust, ef læknisbústaður og sjúknaskýli verði ekki bygt. Er það ærin ástæða til þess, að þingið geri sitt besta í þessu efni. En það, sem jeg vildi vekja athygli á, er, að þarna vill háttv. fjvn. verða við þeim óskum hjeraðsbúa, að veita þeim sem næst 1/3 kostnaðar. En mín brtt. fer ekki fram á 1/3. Ætti því hv. nefnd af þeim ástæðum, ekki síður að geta fallist á hana. Hv. fjvn. víkur svo síðar í nál. að því, að sjerstakar ástæður hafi verið fyrir hendi með þessi tvö læknishjeruð, og því hafi hún komið fram með brtt. sínar. En nú er svo ástatt í hjeruðum þessum, að annað þeirra er búið að byggja, en hitt aðeins á pappírnum. Liggur því í hlutarins eðli, að það hjeraðið, sem búið er að byggja, á sanngirniskröfu á að fá þann styrk, sem venjulegt er að veita læknishjeruðum, er svona stendur á. Það er vitanlega ofboð þægilegt, þegar hjeraðið er búið að leggja út í þann mikla kostnað að byggja læknisbústað ásamt sjúkraskýli, að bregða þá fyrir það fæti og segja, að það fái ekki nema svo og svo lítið. En slík hugsun er ekki í samræmi við það, að vilja launa framtakssemina.

Annars er jeg hissa á, að háttv. fjvn. skyldi fara að gefa tilefni til að láta Geysishúsið dragast inn í umræðumar nú, með því að rökstyðja tillögu sína í nál. með því, að hún líti svo á, að læknishjeraðið hafi óbeinlínis fengið styrk með kaupunum á því, þar sem hún mátti búast við, að fulltrúarnir myndu andmæla þessari fjarstæðu, sem slegið var fram í þinginu í fyrra alveg út í bláinn.

Úr því að farið var að draga þetta mál inn í þessar umræður, get jeg ekki annað en gengið nánar inn á þau ummæli, sem höfð voru hjer um það í fyrra og nefndin endurtekur nú í nál. sínu, til þess að sýna fram á allar þær staðleysur, sem um það hafa verið sagðar.

Húsi þessu var illa haldið við, ójárnvarið, nema aðeins þakið, og hjelt hvorki vindi nje vatni. Eftir 15 ár var það svo selt á 3 þús. kr. Það var að vísu gert lítilsháttar við það haustið áður en það var selt, en það var ekki neitt, sem um munaði. Jeg get viðurkent það, að byggingarefni hækkaði á þessum árum, en það var ábyggilega ekki meira en sem svaraði fyrningu á húsinu. Því að húsið hafði gengið mjög úr sjer, einkum vegna þess, að þess var mjög illa gætt.

Mjer er ekki grunlaust um, að þetta eigi að vera refsing fyrir það, að húsið var selt, en þá er það mjög einkennilegt, hvar sú refsing kemur niður. Það virðist rjettara, að sú refsing kæmi þá niður á rjettum aðilja, en ekki saklausum hjeraðsbúum, sem alls ekki höfðu sóst eftir húsinu, þó þeir hins vegar keyptu það, þegar þeim var boðið það, og hafa auðvitað búist við að hafa einhvern hag af kaupunum, því annars hefðu þeir eigi gert þau. (HK: Hver bauð þeim húsið?). Háttv. þm. Barð. ætti ekki að þurfa að spyrja að því, hver bauð það. Jeg get vel sagt hv. þm., hver það var, en jeg býst við, að hann viti það, og af Þingtíðindunum má nokkurn veginn sjá það. En ef hv. fjvn. vill synja styrks vegna þess arna, þá hefði verið sönnu nær að láta refsingu koma niður á þeim, sem sökina á. Og þó svo væri, að með þessari sölu hafi verið farið illa með landsfje, þá varð það ekki til neinna hagsmuna fyrir hjeraðsbúa. Jeg vænti þess svo, að ef hv. frsm. (ÞórJ) hefir eitthvað við þessu að segja, þá komi hann fram með það, því að jeg vil fá að heyra, á hverju hv. fjvn. byggir þessa till. sína.

Þótt hv. fyrv. þm. þessa kjördæmis hafi flutt till. um þetta á síðasta þingi, þar sem nefnd var ákveðin, lág upphæð, þá var það ekki af því, að hann vildi ekki, að þetta hjerað fengi hlutfallslega eins mikinn styrk og önnur hjeruð, heldur vegna þess, að honum var eigi kunnugt um kostnaðinn, og þetta var því aðeins áætlunarapphæð hjá honum, og það alt saman í besta skyni gert. Það þýðir því ekkert að skírskota til hans í þessu máli. Ef hv. fjvn. hefði fundist fjárhagur ríkisins svo bágborinn, að ómögulegt hefði verið að veita nokkra styrki í þessu skyni, þá hefði jeg máske ekkert sagt, þó að þetta hjerað hefði ekkert fengið að þessu sinni, þó þar með hefðu vitanlega verið brotin loforð þingsins. En það er auðsjeð, að það hefir alls ekki verið meining hv. nefndar, því hún hefir lagt til, að hærri styrkir væru veittir en það, sem jeg fer fram á að þetta hjerað fái. Jeg vonast því eftir, að hv. deild leiðrjetti þetta með því að samþykkja till. mína.

Jeg ætla mjer svo ekki að fjölyrða frekar um þetta, en jeg ætla þó að minnast aðeins á það, sem háttv. frsm. sagði, að nefndin ætlaði sjer ekki að leggja neinn dóm á þau hlunnindi, sem hjeraðsbúar hefðu haft af því að kaupa Geysishúsið. Það má vel vera, að hún hafi ekki ætlað að gera það, en þó hefir hún óbeinlínis gert það, og beiti hún sjer gegn tillögu minni, þá leggur hún dóm á þetta og það rangan dóm. Hún ætti því að vera fylgjandi brtt. minni.

Jeg vonast nú eftir, að hv. þdm. afsaki, þótt jeg hafi orðið nokkuð langorður um þetta mál. Jeg var neyddur til þess sökum till. hv. fjvn. að vera nokkuð langorður um þetta, þó mjer sje það hinsvegar alls ekki ljúft að lengja umræður úr hófi fram.

Að því er snertir 36. brtt. nefndarinnar, skal jeg taka það fram, að jeg er nefndinni þakklátur fyrir þann styrk, sem hún ætlar til bifreiðaferða austur. Jeg er hv. nefnd sammála um það, að styrkinn eigi að veita vor og haust, og jeg álít ástæður þær, sem nefndin færir fram fyrir því, rjettmætar.