29.03.1924
Efri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1560 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

100. mál, verðtollur

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skil það vel, að hv. 5. landsk. þm. (JJ) læst hyggja, að ráðherrarnir sjeu hver á sínu máli, en svo er ekki; þeir eru allir sammála, og sje jeg því ekki ástæðu til að skýra frá minni afstöðu sjerstaklega. Hv. þm. þekkir hana, enda hefir hæstv. fjrh. (JÞ) lýst henni. En þar sem jeg stóð upp, skal jeg víkja að nokkrum atriðum í ræðu hv. þm.

Hv. þm. kvað það skifta miklu máli, hvort um þetta efni væri sett reglugerð eða lög, og innflutningur mundi verða meiri eða minni eftir því, hvor leiðin yrði farin. Jeg býst við því, að við munum vera sammála um það, að keppa beri að því, að innflutningur sje sem minstur. En þess verður að gæta, að málið hefir tvær hliðar, og má ekki gleyma þeirri, sem veit að ríkissjóði. Hann verður að geta staðið í skilum, og munu allir sammála um það. Það verður að laga höftin eftir því, og við það var miðuð yfirlýsing stjórnarinnar í háttv. Nd., að hefta bæri innflutning svo mikið, sem hagur ríkissjóðs þolir.

Hv. 5. landsk. þm. áleit, að engin stjórn mundi verða svo föst fyrir, ekki einu sinni Framsóknarflokksstjórn, að hún gæti framfylgt innflutningshöftum eftir reglugerð, heldur hlyti hún að láta undan fyrir hinum sterku áhrifum andstæðinga þess máls í Rvík. Jeg skal segja hv. þm., að jeg ætla mjer ekki að láta undan þeim straumi. Jeg get ekki fullyrt, að jeg muni ekki bogna, eins og hv. þm. getur ekki staðhæft, að jeg muni bogna. Það var ekki stjórnin, sem kiknaði í þessu máli á árunum, heldur þingið. Það tók af innflutningsnefndina og dró með því mikið úr höftunum. En þó var þeim haldið uppi að nokkru leyti, og gaf stjórnin út reglugerð, sem var í gildi þangað til fyrir fáum dögum.

Hv. 5. landsk. þm. sagði, eins og líka hefir verið slegið fram í hv. Nd., að kaupmenn stæðu aðallega að baki núverandi stjórnar. En þá fara að verða margir kaupmennirnir í þessu landi, ef það er satt. (JJ: Jeg sagði í Reykjavík). Jeg er búsettur í Reykjavík, en þó standa engir kaupmenn hjer að mjer.

Þá spurði hv. þm., hvað mikið stjórnin vildi spara með innflutningshöftum. Hæstv. fjrh. hefir svarað þessu, og jeg vil taka undir með honum, að jeg vil reyna að spara sem mest. Það er ógerningur að gera áætlun um þetta fyrirfram, og hlýtur sparnaðurinn að fara nokkuð eftir því, hvaða áhrif þetta frv. hefir, ef það verður að lögum. Jeg skal segja það í fullri hreinskilni, að það er vilji stjórnarinnar að spara sem mest með því að draga úr innflutningi. En jeg verð að taka undir með hæstv. fjrh., að sterkar innflutningshömlur geta ekki átt sjer stað, nema tolltekjumar sjeu auknar um leið. Það má vera, að hv. 5. landsk. þm. gruni stjórnina um, að hún ætli að svíkja loforð sín um innflutningshöft, og því leggi hún kapp á að koma þessu frv. fram á undan. En hv. þm. veit þó, að alveg sjerstakar ástæður eru til þess að hraða þessu máli. Það eru skip á leiðinni, sem búast má við, að flytji mjög mikið af þeim vörum, sem koma undir þessa tollhækkun, en reglugerðin nær ekki að hefta. Ef þessar vörur fá að komast inn í landið án þessa tolls, er það mesta happ, sem unt er að veita þeim mönnum, er flytja vörurnar inn. Aftur á móti er svo um haftafrv., að það liggur ekki á að afgreiða það fyrir neinn sjerstakan dag, því að þar er brunnurinn byrgður með reglugerð þeirri, sem nýlega var gefin út um innflutningsbann. Annars kemur mjer ekki til hugar að ámæla hv. þm. fyrir það, að hann rengir stjórnina. Hann er í andstöðuflokki hennar, og er ekkert við því að segja. En jeg treysti því, að hann sjái, að það kemur ekki niður á stjórninni, þó að hann leggist á móti frv., heldur kemur það niður á ríkissjóði. Stjórnin fer ekki fram á þetta vegna sjálfrar sín, heldur nauðsynjar ríkissjóðs.