31.03.1924
Efri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

100. mál, verðtollur

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Það er rjett, sem hv. 2. þm. S.-M. (IP) sagði um það, að fjhn. þessarar hv. deildar gat ekki orðið sammála um breytingar á frv.; hitt var einnig á vissan hátt rjett, að nefndin í heild sinni var óánægð með frv. Alment skoðað eru menn altaf óánægðir yfir hækkuðum tollálögum. Menn vilja helst vera lausir við þær og ekki leggja þær á aðra nema brýn nauðsyn beri til. Það, sem helst bar á milli í nefndinni, var það, að meiri hl. áleit svo brýna nauðsyn fyrir hendi, að ekki væri vogandi að tefja fyrir skjótum framgangi frv. Minni hl. var ekki sammála um þetta, og þar skildum við. Af því ýmislegt hefir komið fram við umr. þessa frv. viðvíkjandi viðskiftamálum þjóðarinnar, vil jeg skýra í fám orðum, hvernig jeg lít á málið. Landsmenn hafa yfirleitt þá sannfæringu, að með því að draga úr innflutningi á óþarfa varningi megi ráða bót á ýmsum vandræðum og þar á meðal lággenginu. Síðastl. haust, þegar þingmálafundir voru haldnir, kom þessi skoðun mjög í ljós. Menn vita, að til eru lög frá 1920, sem heimila stjórninni að hefta óþarfan innflutning eftir vild. Því var haldið fram í háttv. Nd., að stjórnin hefði ekki beitt þessum lögum í ár vegna þess að á síðasta ári hefði þingviljinn verið á móti innflutningshöftum. Hefi jeg ekki heyrt aðrar ástæður fyrir afskiftaleysi hæstv. stjórnar í þessu máli. Jeg vil leyfa mjer að spyrja: Var ekki full ástæða fyrir hæstv. stjórn að taka tillit til þess á síðasta ári, hvað íslenskar afurðir fjellu í verði? Var ekki ástæða fyrir hæstv. stjórn á síðasta ári að taka tillit til þess, hvað íslenska krónan var stöðugt að falla í verði? Bendi jeg á þetta af því, að það er í svo nánu sambandi við það, sem til er ætlast, að þetta þing geri. Um innflutningshöftin er það að segja, að sú skoðun hefir orðið ofan á hjá mörgum þeim, sem hafa vandlega athugað málið, að þau beri að framkvæma á tvennan hátt; fyrst og fremst með algerðu innflutningsbanni á nokkrum óþörfum vörutegundum og í öðru lagi með því að leggja háan toll á miður þarfar vörur. En það er víst, að það er ekki nægileg lækning á lággengi, að taka stóran flokk af þörfum og miður þörfum vörutegundum og banna skilyrðislaust innflutning á þeim, því að óþarft er að leiða rök að því, að á þann hátt yrði höggið svo stórt skarð í tekjur ríkissjóðs, að óhjákvæmilegt yrði að jafna þennan halla upp á einhvern annan hátt. Jeg og fleiri telja því þessa leið eingöngu ekki geta komið til mála, heldur verði að fara hinar tvær leiðir, bann- og tollaleiðina.

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er flutt af fjhn. Nd., og hefir það vitanlega, eins og öll mannleg smíði, sína galla, og ef til vill fleiri en venja er til um slík mál, fyrir þá sök, að því er svo mjög hraðað gegnum þingið. En þess ber að gæta, að þetta á að vera einungis bráðabirgðaráðstöfun, en ekki lög, sem eiga að standa lengi. Út frá þessu gengur meiri hl. fjhn., er hann leggur til, að frv. verði samþykt. Þó finst mjer rjett, að það komi fram undir umræðunum, að jeg tel flokkunina í frv. mjög ónákvæma, og eigi að síma það út um land eins og það liggur fyrir nú, gæti jeg ímyndað mjer, að lögreglustjórar legðu allmisjafnan skilning í, hvaða vörur sjeu undanþegnar tolli þessum og hverjar ekki. Skal jeg þá drepa á það, sem jeg tel, að helst geti valdið misskilningi. Er þá fyrst, að talið er, að undanþegið þessum verðtolli sjeu: galvaniseraðir brúsar, balar og fötur. En er þá ekki átt við, að þar heyri einnig undir brúsar, sem kallaðir eru „fortinaðir“, ennfremur blikkbrúsar og emailleraðir brúsar? Jeg get ekki skilið annað en svo sje, því ef ástæða er til að undanþiggja verðtollinum galvaniseraða olíubrúsa, þá er engu síður ástæða til að undanskilja „fortinaða“ mjólkurbrúsa, blikkbrúsa og emailleraða brúsa. Þá er ennfremur undanskilið: lamir, lásar, gluggajárn og skrár. Skilst mjer, að þar vanti einnig hurðarhúna, því að ætlunin mun vera að undanskilja járnvörur, sem þurfi við húsasmíði. Þá eru einnig nefndar mottur, en umbúðastrigi er ekki nefndur, því að hann mun heyra undir 2. gr. vörutollslaganna. Hessianstrigi er stundum talinn undir 3. lið vörutollslaganna, en jeg geri þó ráð fyrir, að hann eigi að vera þarna undanskilinn. Þá eru taldir pottar og pönnur, og eins og kunnugt er, geta slík áhöld verið úr járni, aluminíum eða steind. Ef rjett er að undanskilja þessi áhöld, er jafnsjálfsagt að undanskilja katla, sem notaðir eru til suðu. Jeg leyfi mjer því að leggja þann skilning í þetta, að þarna sjeu undanskildir allskonar suðukatlar og eldhúsáhöld yfirleitt. Þá er og „skipsbrauð“ undanskilið. En það er mjög teygjanlegt, því að sumstaðar er notað „skonrok“ og annarsstaðar hart ósætt kex, eða þá hálfsætt kex. Jeg lít svo á, að hjer undir heyri aðeins ósætar, grófar brauðtegundir.

Þessar athuganir eru allar frá mjer persónulega og í samráði við einn nefndarmann fjhn. Nd., en ekki frá meiri hl. Ed.-nefndarinnar.

Meiri hl. fjhn. hefir ekki viljað tefja þetta mál, og leggur því til, að frv. verði samþykt óbreytt eins og það liggur fyrir nú, þó hann vitanlega fylgi því nauðugur og telji það neyðarráðstöfun að þurfa að leggja þessa þungu skatta á þjóðina, og vonar því, að lög þessi standi sem skemst.

Um brtt. þær, er hjer liggja fyrir, er það að segja, að jeg persónulega hefði verið því hlyntur, að breytingin að því er snertir dúkvörurnar hefði komist inn í frv. í Nd. En úr því að svo varð ekki, hefi jeg ekki viljað tefja málið með því að taka þær upp hjer; sömuleiðis hefi jeg líka komist að þeirri niðurstöðu við nánari athugun, að undanþága svona margra dúktegunda frá þessu gjaldi mundi auka mjög á annmarka við framkvæmd laganna. Þannig er t. d. orðið „tvistdúkur“ notað yfir 5 eða jafnvel fleiri tegundir af útlendum dúkum, svo erfitt gæti orðið að greina þar á milli. Jeg vil því leggja til, að brtt. þessar verði feldar, fyrst og fremst af því, að samþykt þeirra tefur fyrir málinu, og í öðru lagi gera þær framkvæmd laganna miklu örðugri.