31.03.1924
Efri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (860)

100. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. minni hl. hefir flutt þrjár brtt. við frv. þetta. Mun jeg fylgja þingsköpum, og tala því einungis um þær, en láta hinar almennu athugasemdir bíða til 3. umr.

Fyrsta brtt. er sú, að í stað orðanna: „viðhafnarlaus skófatnaður úr skinni“ komi: „skófatnaður úr vatnsleðri“. Jeg hefði ekki beinlínis haft á móti þessari brtt., ef hún hefði komið fyr inn, en ef hún verður samþykt, kemur hún óneitanlega hart niður á almenningi, því eins og kunnugt er, er útlendur skófatnaður hrein og bein nauðsynjavara fyrir kaupstaðafólk, og hjá fátæku barnafólki er það einn dýrasti liðurinn. Breyting þessi yrði því til að auka á erfiðleika fátæks fólks, því að það er ekki hægt að skjóta því á frest að kaupa nýja skó, þegar er hinir gömlu eru orðnir útslitnir.

Háttv. frsm. minni hl. (IP) gat þess, að áður hefðu verið notaðir eingöngu innlendir handsmíðaðir skór. Þetta má vel vera, en nú eru tímarnir orðnir svo breyttir, að slíkir skór eru hreinasta „luxus“-vara, sem ekki er að vænta, að fátækt fólk geti keypt. Myndi það því heldur neyðast til að borga hinn háa toll af hinum útlenda skófatnaði. Er tillaga þessi því mjög varhugaverð frá þessu sjónarmiði, þó að hún myndi óneitanlega gefa ríkissjóði allverulegan tekjuauka.

Um b.-lið brtt. er það að segja, að jeg get talið hann sanngjarnan, en slík undanþága myndi gera alla framkvæmd laganna miklu erfiðari. Og því verður ekki neitað, að það er einmitt veikasta hlið þessa máls, því eins og kunnugt er, er tollgæsla lítil hjer á landi, nema þá helst hjer í Reykjavík. Hefir því aðallega verið bygt á ráðvendni innflytjenda, og svo mun verða að vera enn. En þar sem vörur þessar, sem undanþiggja á tollinum, koma flestar frá sömu verslunarhúsum og jafnvel í sömu kössum og hinar tollskyldu vörur, er jeg ákaflega hræddur um, að það gerði lögreglustjórunum mjög erfitt fyrir. Þyrftu þeir þá helst að hafa vel vefnaðarvörufróðan mann til þess að aðgreina hinar tollskyldu og ótollskyldu vörutegundir.

Jeg fór fram á við háttv. Nd., að hún setti ekki þessa undanþágu inn í lögin, af því að þau eiga að standa svo stutt, og menn geta sparað þessar vörur við sig þangað til að minsta kosti að fengin væri reynsla fyrir framkvæmd þeirra, því að þá mætti altaf slaka til á þeim, þegar reynslan væri búin að sýna, hvað helst ætti að undanþiggja tollinum.

Þó mjer þyki vitanlega ákaflega leiðinlegt að þurfa að leggja svona háan toll á þessar vörutegundir, vil jeg þó af framansögðu leggja til, að frv. verði að þessu leyti samþykt eins og það liggur fyrir nú.

Þá er þriðji liður brtt. háttv. minni hl. Hann verð jeg að telja alveg óhæfan, þegar þess er gætt, að þing kemur að öllum líkindum ekki saman fyr en um miðjan febrúar næstk., og því tæplega hugsanlegt, að það yrði búið að afgreiða ný lög um toll þennan eða framlengja þessi í mánaðarlok. Gæti því svo farið, að það yrði tímabil frá því lögin gengju úr gildi þangað til önnur ný yrðu samþykt, og gæti slíkt tollfrjálst tímabil komið mikilli óreiðu á, svo að jafnvel yrði erfiðara eftir en áður að hafa eftirlit með tollsmyglun og þess háttar.

Að síðustu skal jeg endurtaka, að það er mikil nauðsyn á, að máli þessu sje flýtt, ef það á að vera orðið að lögum, svo hægt verði að ná í toll af vörum þeim, er koma með næstu skipum, og til þess þarf það að verða að lögum í dag.

Að endingu skal jeg taka það fram, að það er ekki með neinni gleði, að jeg neyðist til að fara fram á að leggja þennan háa toll á landsmenn; en það er bein afleiðing þess, sem gert hefir verið undanfarin ár, þar sem útgjöldin hafa altaf verið aukin, án þess, að tekjurnar hafi verið auknar að sama skapi. Því lengur sem það er dregið að ráða bót á þessu, stefnir altaf meir og meir að þeim voða, sem hv. frsm. minni hl. (IP) virðist ekki hafa hugmynd um, þegar hann er að tala um, að fyrst þurfi að auka tekjur landsfólksins, áður en farið sje að hugsa um ríkissjóð.