31.03.1924
Efri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

100. mál, verðtollur

Jónas Jónsson:

Við 1. umr. þessa máls vanst ekki tóm til að víkja að ræðu hæstv. fjrh.(JÞ). Hann talaði um það, að þessar 2 aðferðir, að hefta innflutning með tollum eða banni, yrðu að framkvæmast með gætni. Í þessu efni er það aðalatriðið, hvort eigi að framkvæma þetta með gætni eftir því, sem lög ákveða, eða hvort stjórninni á að leyfast að hringla með reglugerð um málið. Veit jeg, að hæstv. stjórn sjer, að gætnin er öll laganna megin. Hæstv. fjrh. sagði í ræðu sinni, að hveiti hefði hingað til verið talið nauðsynjavara. En þegar menn sjá allar þær kökur, sem útstilt er í gluggum bakarabúðanna hjer, og þegar menn athuga það, að læknar halda því fram, að það sje hlutfallslega miklu minni næring í hveiti en rúgmjöli, þá er sjálfsagt að tolla það mikið.

Hæstv. fjrh. hjelt því fram, út af uppástungu minni um það, að stjórnin gripi til eignarskatts, að þetta væri ekki skoðun annara en jafnaðarmanna. En sú skoðun, að ríkisskuldunum verði ekki ljett af nema með eignaskatti, hefir einnig komið fram hjá bændum, sem standa Íhaldsflokknum mjög nærri, t. d. ýmsum bændum í Borgarfirði, og hefir þeim ekki verið brugðið um byltingarhug fyrir það. Jeg fyrir mitt leyti tek það aðeins sem merki um það, að athugulir menn sjá, að ef greiða á ríkisskuldirnar, þá verður það aðeins gert með því að leggja skatta á þá, sem eitthvað eiga. Vil jeg í þessu sambandi benda á það, að stjórn hægrimanna og liberala í Englandi lagði 80% tekjuskatt á auðmennina, enda hafði það þau áhrif, að Englendingar urðu fyrstir allra stríðsþjóðanna til þess að grynna á stríðsskuldum sínum. Vil jeg leyfa mjer að ítreka það við hæstv. landsstjórn, að hjer er um möguleika að ræða, sem hægt er að nota, ef með þarf. Þessir skattar, sem lagðir eru á þá, sem ekkert eiga, leiða aðeins til þess, að þeir segja við hina: „Viljið þið ekki líka vera með.“ Mjer skildist á hæstv. fjrh., að hann hefði verið fáliðaður í hv. Nd. um gulltrygginguna, en hv. þm. Str. (TrÞ) hefir þó lagt honum liðsyrði opinberlega í því máli. Vil jeg beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjrh., hvernig hann líti á, að því er verðtoll snertir, þá dúka, sem unnir eru erlendis úr íslenskri ull. Er ekki ósennilegt, þar eð Gefjun og Álafoss hafa hvergi nærri undan, að ull verði send út til erlendra verksmiðja. Álítur hæstv. ráðherra, að skatturinn nái til þessara dúk? Eftir frv. finst mjer það ekki rjett, en jeg álít þó betra að fá skýringu á þessu hjá hæstv. fjrh. Ennfremur vil jeg spyrja hæstv. fjrh., hvort hann mundi veita því fylgi sitt, ef á næstu dögum kæmi fram frv. um að leggja 20% verðtoll á vörur þær, sem fyrir eru í landinu og verðtollur á annars að ná til. Er það í fullu samræmi við verðlagsvenjuna að þeirra dómi, sem kunnugir eru því. Mundi þetta tryggja landinu toll af þessum vörum. Mætti þá veita mönnum gjaldfrest eftir því, sem varan seldist. Geri jeg ráð fyrir, að hæstv. stjórn verði ekki á móti þessum tekjuauka. Liggja nú vörur hjá einstökum innflytjendum fyrir alt að miljón krónum. Háttv. þm. Vestm. (JJós) hefir sýnt, að hann er samdóma okkur minnihlutamönnum um galla frv. Sýndi hann í ræðu sinni fram á ýmsa þeirra, og tek jeg það sem vott um það, að frv. sje háskagripur, þar sem þeir, er frv. styðja, finna svo mjög til gallanna. — Þá talaði hæstv. fjrh. um brtt. minni hl. nefndarinnar. Jeg skal þá fyrst taka það fram, að „viðhafnarskór“ er mjög teygjanlegt orð, og er það alveg á valdi lögreglustjóranna, hvernig þeir skilja það. T. d. myndu silkiskór vera undanteknir ákvæðinu. Hefði átt að leyfa innflutning á vatnsleðurskóm og gúmmístígvjelum, því að það er ekkert á móti því fyrir fólk að nota þann skófatnað eingöngu á hallæristíma. Er einmitt nauðsynlegt að leyfa þetta, til þess að minka óhófið á þessu sviði. Sje jeg ekki, að það sje nokkur neyð fyrir fólk í bæjunum, sem vildi spara, að nota vatnsleðurskó. Vil jeg minna hæstv. fjrh. á það, að um það bil er hann varð stúdent, þá var það alsiða í Reykjavík, að börn gengu á klossum og íslenskum skóm innan í. Hví má ekki gera það nú? Jeg get ennfremur sagt hæstv. ráðherra, að einn af kunningjum okkar beggja, — fátækur embættismaður hjer í bæ, — hefir sagt mjer, að hann eyddi um 800 kr. á ári í skófatnað. Kvartaði hann undan því, hversu tískan gerði sjer, fátækum manninum, örðugt fyrir í þessu efni. Hann sagði, að ef hann setti börn sín á klossa, þá mundu leiksystkinin gera gys að þeim, og þannig væri ekki hægt að framkvæma þennan sparnað, af því að hann væri ekki í samræmi við landssið. Það, sem liggur á bak við till. okkar minni hl., er það að hjálpa mönnum til að spara og slá köldu vatni á óhófið. Og þegar þetta um leið eykur sjóð hæstv. fjrh., þá er jeg sannfærður um, að hann verður með þessu.

Viðvíkjandi því að auka við undanþágu dúka, þá vil jeg taka það fram, að þar eð fjhn. Nd. hefir gert ráð fyrir, að hægt verði að framkvæma slíka undanþágu frá frv., þá er ekkert aukið erfiði við það að bæta nokkrum dúkum við. Er ekki nema sanngjarnt að gera mun á dýrum fataefnum og silki, sem hægt er að komast af án, og efni í vinnuföt, sængurföt, fóður o. þ. h. Það, að hv. flm. frv. hafa ekki tekið þetta með, sýnir aðeins, hve illa frv. hefir verið hugsað, auk þess sem það kemur fram á óheppilegum tíma. Það stendur til, að Framsóknarflokksmennirnir hjer í hv. deild komi fram með viðbótartill., eftir ósk margra manna hjer í bænum, og gengur sú breyting í sömu átt og brtt. þeirra hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) og hv. þm. Mýra. (PÞ). Vil jeg leyfa mjer, fyrir hönd okkar flm., að óska þess, að hæstv. forseti láti ekki þessa till. okkar á þskj. 259 koma til atkvæða fyr en við 3. umr., til þess að hv. deild geti þá skorið úr því, hvort gera skuli þessa breytingu eða ekki. Hvað það snertir, að hæstv. fjrh. sagði, að tímatakmarkið væri of stutt, þá er það auðvitað, að það hefði mátt hafa það lengra. En þar sem málinu hefir nú verið hraðað í gegnum þingið á fáum dögum, þá vona jeg, að okkur hafi ekki farið svo aftur að andlegu atgervi eftir eitt ár, að við getum ekki gert því skil á mánuði. Annars skal jeg játa það, að við flm. teldum ekki skifta jafnmiklu máli, þó að þessi tillaga yrði feld, sem hinar. Það skiftir mestu máli, að tollurinn nái ekki til lífsnauðsynlegra vara. Við í minni hl. höfum — þó að við sjeum mjög óánægðir með frv. — ekki viljað tefja fyrir því með því að neita um afbrigði, og vænti jeg því, að hæstv. stjórn verði ekki skotaskuld úr því að fá um það atkvgr. í hv. Nd. í dag. En ýmsir í hv. Nd. sjá nú eftir því að hafa felt tillöguna á þskj. 259. Jeg legg ekki áherslu á það, að fá svar frá hæstv. ráðherra við þessa umræðu út af dúkunum, sem unnir eru í Noregi úr íslenskri ull, og heldur ekki við spurningu minni um afstöðu hans til þessa 20% tollhækkunar á fyrirliggjandi vörum. En það er nauðsynlegt, að þessu sje svarað áður en frv. er afgreitt. — Það er þegar komin fram skrifleg brtt. við brtt. minni hl. nefndarinnar frá hv. 6. landsk. (IHB). Úr því að þessi till. er fram komin, þá sje jeg enga ástæðu til þess að fresta atkvgr. til 3. umr.