31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

100. mál, verðtollur

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg mundi ekki hafa flutt neinar brtt. við þessa umr., ef aðrar brtt. hefðu ekki verið komnar fram. En þar sem nú eru komnar brtt. hvort sem er og málinu hefir verið hraðað svo mjög, er ekkert undarlegt, þó að jeg flytji brtt. á síðustu stundu. Brtt. mínar liggja ljóst fyrir, og eru þær bornar fram að hvötum manna, sem þetta þekkja mjög vel. Tvær hinar fyrri miða að því að styðja innlenda framleiðslu. Báðar þær vörutegundir eru framleiddar eins góðar hjer á landi sem annarsstaðar, og því engin ástæða til að sleppa þeim undan tolli, til þess eins að hjálpa útlendingum í samkepninni við innlenda menn. Þriðja brtt. er að undanþiggja sjálfvinnandi þvottaduft, sem er til mikils vinnusparnaðar, enda mun það verða notað hvort sem er. Verði þetta tollað, er það því beinn neysluskattur.

Ef engar brtt. hefðu komið fram, mundi jeg ekki hafa gert þetta að kappsmáli, og mun ekki halda í þær, verði frv. ekki breytt að öðru leyti, en ef aðrar breytingar verða samþyktar, vil jeg mælast til, að brtt. mínar verði líka samþyktar.