31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

100. mál, verðtollur

Jörundur Brynjólfsson:

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) gat þess, að fjhn. hefði ekki getað orðið á eitt sátt um breytingar á frv. Vjer 4 nefndarmenn leyfum oss sem sje eindregið að leggja til, að frv. verði samþykt óbreytt. Þegar vjer tókum þessa afstöðu, bjuggust vjer við því, að það mundi að nokkru leyti vera í þágu hæstv. stjórnar, að henni mundi ekki mikið um það gefið, að frv. væri kastað á milli deildanna út af þessu atriði, sem litlu máli skiftir fyrir ríkssjóðinn, en allmiklu fyrir almenning. Jeg skal ekki rekja það hjer, því að jeg hefi áður gert það, en aðeins vil jeg geta þess, að mjer þykir furðu gegna, að hv. þm., sem ætla má að þekki best ástandið í stærri kauptúnum og kaupstöðum hjer á landi, skuli sjá sjer fært að hækka verðið á þessum brýnu nauðsynjavörum fátækasta hluta alþýðu um fimta hluta. Þetta segi jeg sem mína persónulegu skoðun, en ekki fyrir hönd hinna þriggja meðnefndarmanna minna. Virðist mjer, að sú ástæða eigi að mega sín meira heldur en þó að eitthvað meira kunni að komast undir þessar vörutegundir heldur en búist var við í fyrstu. Mjer þykir og fullmikið hafa verið gert úr því, hve miklum mun erfiðara eftirlitið mundi verða við þessar undanþágur.

Ef menn þykjast ekki geta tekið skjöl kaupsýslumanna trúanleg, þá þurfa lögreglustjórar að kynna sjer nánar, hvort skýrslur þeirra um innflutning sjeu rjettar. Og þó að þetta kunni að einhverju leyti að hafa meiri kostnað í för með sjer, þá tel jeg það ekki svo mikils vert atriði, að ekki beri að samþykkja frv. óbreytt. Eftir þeim álögum, sem frv. gerir gjaldendum, þá tel jeg því meiri ástæðu til að undanþiggja skatti þær lífsnauðsynjar, sem fátæklingarnir geta ekki án verið. Þar sem hv. 3. þm. Reykv. talaði um sparnað í þessu tilfelli, þá skal jeg leyfa mjer að taka það fram, að jeg álít, að hann nái alls ekki til fátæklinganna. Hv. Ed. hefir gert lítilsháttar breytingu á frv., sem jeg vænti, að þessi hv. deild samþykki, enda eru þær breytingar þannig úr garði gerðar, að ekki tekur því að breyta því enn á ný. Vil jeg því mælast til þess, að frv. verði samþykt óbreytt. Jeg skal taka það fram, að nefndin hefir ekki átt tal um breytingartillögur þær, er nú hafa komið fram, en jeg segi það aðeins fyrir mitt leyti, að jeg greiði frv. atkvæði mitt eins og það er nú.