31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

100. mál, verðtollur

Frsm. (Jakob Möller):

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) vill ekki gera mikið úr örðugleikunum við undantekningarnar. Er jeg hræddur um, að það stafi af því, að hann þekki ekki vel, hvernig þetta muni reynast í framkvæmdinni. Hv. þm. sagði það, að ef menn sæju það ekki á skjölunum, hverjar vörurnar væru, þá væri ekki annað en að láta hlutaðeigandi lögreglustjóra rannsaka það nánar. En hv. þm. gáir ekki að því, að þessi nöfn eiga við vörur, sem nefndar eru ýmsum nöfnum á ýmsum málum. Til dæmis skal jeg geta þess, að flónel heitir ekki svo á öllum málum. Kaupmenn nefna þetta flónel, en það er ekki nóg að skoða aðeins pappírana, það verður líka að skoða vöruna sjálfa. Það er t. d. enginn minsti vafi á því, að undir sömu vörutegund getur fallið mikið fleira en hv. þm. hefir hugmynd um. T. d. getur molskinn sem best náð yfir margskonar efni í utanyfirföt, nankin, shirting, boldang, hvert um sig yfir margar tegundir. Vil jeg fyrir hönd okkar þriggja flm. brtt. vara við því að treysta þessari flokkun, því að hún er mjög svo villandi.