31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

100. mál, verðtollur

Jörundur Brynjólfsson:

Það var aðeins stutt athugasemd. Jeg skal játa það, að það þýðir ekki að andmæla jafnmiklum málfræðingi og jafnverslunarfróðum manni og hv. 3. þm. Reykv. (JakM). Þó get jeg ekki að því gert, að mjer finst nokkuð langsótt sú mótbára hans, að það sjeu til misjöfn heiti á sömu vörutegund hjá ýmsum þjóðum. Jeg hefi aldrei borið á móti því, en jeg held því fram, að undir flestum kringumstæðum sje eitt heitið í okkar máli á þessum vörum öðrum fremur helgað af málvenjunni, eins og t. d. á sjer stað um flónel, og það má sín mest í þessu sambandi og er sama og lögfest væri. Og þó svo væri, að eitthvað meira fjelli undir þetta, þá er þó betra að fara með þetta, ef undanþága hv. Ed. stendur, (heldur en ef hún er feld burt. Er jeg undrandi, að hv. þm. skuli sjá sjer fært vegna íbúa Reykjavíkur, og einkum stærri kauptúna, að leggja á fátæklingana slíkar búsifjar sem þessar. Hvað eftirlitið snertir, þá skal jeg taka það fram, að það þarf hvort eð er að gera athugun á innflutningi tollvara, og hefir það því engan aukinn kostnað í för með sjer. Mun jeg því halda minni skoðun um þetta atriði óbreyttri.