20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

97. mál, landhelgissektir í gullkrónum

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Háttv. þm. V.-Sk. (JK) hefir bent á það, að orðalag frv. sje eigi sem heppilegast, en það ætti að vera auðvelt að leiðrjetta í nefnd. Það má vel vera, að heppilegra sje að orða það þannig, að sektirnar „skuli miðaðar“ við gullkrónu, en eigi innheimtar í gullkrónum. En þó hefi jeg heyrt allgildan lögfræðing segja, að þetta mætti vel standa þannig eins og það er orðað í frv. En hvað sem þessu líður, kemur orðalagið ekki því við, hvort rjettara sje að ákveða sektirnar í gullkrónum eða tvöfalda þær frá því, sem nú er; en það held jeg miklu óheppilegra, því þá þyrfti ávalt að vera að grauta í sektarákvæðunum í hvert skifti, sem gengið breyttist að mun, og það mundi verða svo að segja á hverju þingi, ef gengisbreytingar halda áfram, sem vænta má, og mundi þó aldrei nást rjettlæti. Þess vegna held jeg fast við þetta, að festa sektarákvæðin á þann hátt, að sektir skuli miðast við gullkrónu.