24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

1. mál, fjárlög 1925

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi ekki átt mikinn þátt í þeim brtt., sem fram hafa komið við þann kafla fjárlaganna, sem nú er til umræðu. Mun jeg að mestu takmarka mál mitt við þær fáu brtt. og ekki tefja tímann. Jeg býst heldur ekki við því að þurfa að eiga í útistöðum við háttv. fjárveitinganefnd, því hún hefir unnið meira að mínu skapi nú að þessu sinni en stundum áður. Jeg get sagt það í fáum orðum, að jeg felli mig yfirleitt vel við flestar tillögur hennar, án þess að jeg þó með því gefi yfirlýsingu um það, að jeg muni styðja hverja einstaka tillögu frá henni.

Aðrir háttv. þm. hafa minst þegar á sumar þær till. fjvn., sem mjer þykja helst athugaverðar. Það var einkum hv. 2. þm. Rang. (KlJ), sem það gerði. Jeg vil nú ekki tefja tímann með því að minnast á þær sjerstaklega, en læt nægja að sýna með atkvæði mínu, hvernig jeg lít á þær.

Hinsvegar verð jeg að segja fáein orð viðvíkjandi einni brtt. á þingskjali 196, sem jeg á þátt í. Einnig mun jeg lítillega minnast á aðrar brtt. á því sama þskj., er snerta stefnu mína í meðferð fjárlaganna og fara í bága við hana. Annars verð jeg að segja það, að mjer brá í brún þegar þessu þingskjali var útbýtt hjer í háttv. deild og þótti skjóta skökku við þann sparnaðaranda, sem virst hefir áður svo almennur í þinginu. Á þessu þskj. komu fram brtt. um 200 þús. kr. aukningu á gjöldum ríkissjóðs umfram sparnaðartillögurnar, ef alt verður samþykt.

Jeg skal nú ekki leggja neinn dóm á það, hve nauðsynlegar hinar ýmsu brtt. eru, sem að auknum útgjöldum lúta. Þær hafa sjálfsagt allar við einhverja sanna eða ímyndaða þörf að styðjast; annars væru þær ekki fram bornar. En um margar af þörfum þessum mun vera svo, að á öðrum stöðum blasi við samskonar þarfir og jafnvel átakanlegri en þær, sem hjer er lagt til að bætt verði úr, án þess að reynt sje að bæta úr þeim.

Jeg vík fyrst að brtt. III á þingskjali 196. Jeg er að vísu aðeins meðflutningsmaður þeirrar till., og ekki aðalflm. Sú till. fer að vísu fram á aukin útgjöld, en það er líka eina brtt. mín, sem gengur í þá átt. Með henni er farið fram á, að bætt verði nýjum lið við 3. lið 12. gr. og 1500 kr. styrkur veittur til nokkurra hreppa á Austurlandi, eins og fyrirheitið er í núgildandi fjárlögum, ef þeir ráðast í að ráða sjerstakan lækni. Þessir hreppar, 5 að tölu, Jökuldals-, Hlíðar-, Tungu-, Hjaltastaðar- og Eiðahreppar, hafa verið læknislausir langan tíma og hafa orðið að vitja læknis í önnur hjeruð, þegar á hefir þurft að halda.

Háttv. frsm. fjvn. benti á það, að nefndin hefði ætlað að fela þennan styrk í aðalupphæðinni, sem er í 3. lið 12. gr., 5000 kr. til læknisvitjana í sveitum, sem eiga sjerstaklega erfiða læknissókn. Þetta sjest ekki af till. hennar. Nú er þessi styrkur 8400 krónur í gildandi fjárlögum, en hjer aðeins settur 5000 kr. Er þá auðsjeð, að ef hjer á að draga frá 1500 kr., þá verður harla lítið eftir handa þeim hreppum öllum fyrir norðan, austan og vestan, sem njóta eiga þessa styrks, eins og hæstv. forsrh. (JM) tók rjettilega fram. Tilgangur okkar flm. þessarar brtt. er sá, að fá veittar 1500 kr. sjerstaklega handa þessum hreppum, ef til kæmi að þeir fengju sjer lækni, en að sú upphæð yrði ekki tekin af þessum 5000 kr., því að styrkurinn til hinna mörgu hreppa er langt of lítill, ef hann ætti fyrst að skerða um 1500 kr. Jeg verð annars að segja það viðvíkjandi hinum mörgu og tiltölulega háu útgjaldatillögum á sama þskj. um styrki til þess að koma upp læknisbústöðum og sjúkraskýlum, að líklega er enginn landshluti ver skipaður þessum stofnunum og sneyddur sjúkraskýlum og læknishjálp en Austurland. Þó er þaðan engin fjárbeiðni í þessu efni. Jeg vil í því sambandi minna á það, að í fyrra var sýnd nokkur viðleitni í að ljetta undir með mönnum í þessu efni, með því að veita fje til þess að leigja franska spítalann á Búðum. En nú er þessi hjálp feld niður, jafnvel á yfirstandandi ári, og hefir því að engu liði verið. Jeg verð að segja það, að það er óbærilegt misrjetti gagnvart þessum landshluta, sem fram kemur, ef allar þessar brtt. á þskj. 196, sem lúta að heilbrigðisráðstöfunum annara hjeraða, verða samþyktar. Jeg vil minna á það, að á milli Lónsheiðar og Smjörvatnsheiðar eru nú einir tveir læknar, sem starffærir eru, læknirinn á Djúpavogi og læknirinn á Brekku. Hinir eru allir meira eða minna fatlaðir í starfinu. En því meiri og ríkari er ástæðan til þess að bæta ástandið þar en víða annarsstaðar. Jeg vona því, að ef till. um styrk til sjúkraskýla verða samþyktar, þær sem á þessu þskj. standa, að þá verði till. okkar hv. þm. N.-M. um 1500 kr. styrk til íbúa Hróarstunguhjeraðs einnig samþykt. Það hefir verið læknislaust um mörg ár og leitað færis á eigin spýtur að útvega sjer lækni.

Jeg mun svo ekki fjölyrða meira um þetta mál. Jeg býst við því, að háttv. aðalflm. till., hv. 1. þm. N.-M. (HStef) muni mæla fram með henni, en jeg drap á hana vegna sambands hennar við fortíðina.

Þá er aðeins ein brtt. enn, sem jeg finn ástæðu til að fara fáum orðum um. Það er lítilvæg breyting við 12. gr. 13. m., þar sem farið er fram á það, að niður falli 200 kr. til sjúkrasjóðs Fellshrepps. Jeg fer fram á þetta fyrir samræmis sakir og vegna þess, að háttv. fjvn. hefir látið falla niður ýmsa smástyrki, sem kannske er vafasamt, hvort eigi að fella, ef þessi stendur. En úr því það á að fella niður fjárveitingar til nauðsynlegra fyrirtækja, þá á þessi fjárveiting eigi mikinn rjett á sjer. Mæli ekkert sjerstakt með, þá sje jeg ekki ástæðu til þess að þetta sjúkrasamlag fái styrk framar öðrum sjúkrasamlögum, sem njóta hlutfallslegs styrks af þeirri almennu fjárveitingu til sjúkrasamlaga.

Í þessu sambandi vil jeg minnast á brtt. fjvn. við 12. gr. 5. b., um það, að styrkurinn til ferða augnlæknis verði lækkaður um 200 kr., færður úr 700 kr. ofan í 500 kr. Það er hliðstæð lækkun við þá, sem jeg ber fram um að fella niður styrkinn til sjúkrasjóðs Fellshrepps, og jafnstór. Annars held jeg, að þessi lækkun á styrknum til augnlæknis sje mjög óheppileg, því að mikill hluti landsmanna er svo illa settur í tilliti til aðgerða augnlæknis, að ekki má lakara vera. Eftir skilyrðum fjárlagafrv. á augnlæknir í hverri hringferð að dvelja minst ½ mánuð á tveim fjölmennustu viðkomustöðum strandferðaskipsins, sem þá líklegast verða kaupstaðirnir Akureyri og Ísafjörður, og orðalag greinarinnar gefur tilefni til að ætla, að ferðirnar eigi að vera fleiri en ein á ári, en reynslan undanfarið hefir sýnt, að ferðin hefir ekki orðið nema ein, og jafnvel stundum fallið niður. En með því móti fer mikill hluti landsmanna á mis við notin af þessari hjálp. Sjónveiklaðir menn eru eðlilega miklu víðar en á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði, og búa sumir svo langt frá þessum stöðum, að þeir eiga þess engan kost að ná í lækni, þótt hann komi þar við. Jeg skal í þessu sambandi minna á það, að 1922 var augnlæknir fenginn til þess að fara sjerstaka ferð til Austurlands, þar sem yfir 40 sjónveiklaðir menn biðu hans, er eigi höfðu þá um 2 ár náð til augnlæknis. Sú ferð kostaði um 1200 kr., og tel jeg það því misráðið mjög af hv. fjvn. að rýra þennan styrk til ferða augnlæknis frá því sem var. Jeg held, að það ætti miklu frekar að hækka hann, svo að hægt væri að fá lækni til að fara eina hringferð á sumri með 5 eða 6 dvalarstöðum í þeim fjarlægari hjeruðum, þótt stutt dvöl væri á hverjum, ella munu margir sjónveiklaðir menn eiga örðugt með að hafa not af ferð augnlæknis, en fæstir hafa efni á að vitja hans hingað.

Jeg lofaði að tefja ekki lengi þessa umræðu, og vil jeg standa við það; neita jeg mjer þessvegna um það að tala um ýmsar aðrar brtt. nefndarinnar og einstakra þingmanna, sem jeg hefði annars minst á. Má vera, að færi gefist á því síðar. Jeg þykist hafa gefið það nógu ljóslega í skyn, að jeg vilji yfirleitt fylgja brtt. nefndarinnar. En jeg verð tregur til að fylgja stórfjárútlátatillögum einstakra þm. á þskj. 196. Það er nú, ekki síður en fyr, mitt aðalmarkmið að reyna að takmarka eyðsluna svo sem fært er. Er mjer ekki síður nú en áður alvara að leggja mitt lóð í vogarskálina til takmörkunar útgjalda, enda skal ekki standa á mjer til þess.

Út af athugasemd hv. þm. V.-Sk. (JK um styrk til flóabáta skal þess getið, að jeg get tekið undir með honum um samgangnaþörfina með suðurströndinni, og þar eð samgmn. hefir enn ekki látið frá sjer heyra, vil jeg gefa hv. þm. nokkrar upplýsingar um það, hvað nefndin ætlast fyrir. Við 3. umr. mun hún hafa skilað áliti sínu. Um skiftingu styrksins mun nefndin gera till., en hún er eigi að öllu sammála um upphæð styrksins, og vill meiri hl. hækka aðalupphæðina í 65 þús. kr., en minni hl. láta sitja við áætlunarupphæð stjórnarinnar, 60 þús. kr. Væntanlega verður það stjórnarinnar verk að úthluta styrknum, líkt og áður, og verða till. nefndarinnar þá til hliðsjónar. En hvað sem um till. verður, þá býst jeg við, að nefndin ætli aldrei minna en 60 þús. til flóabátanna alls, en að öllum líkum þó eitthvað rífara.