24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

97. mál, landhelgissektir í gullkrónum

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Nefndin varð einhuga um það að leggja til, að frv. verði samþykt. Brtt. sú, sem hún hefir gert við það, er aðeins orðabreyting og er miðuð við það, að ekki er ávalt svo, að það komi til greiðslu á sektum, því sektirnar má sitja af sjer. Þá þótti nefndinni og nákvæmara að tiltaka það, að gullkrónan skuli miðast við gengið þann dag, sem sektin er ákveðin. Er það enginn vandi fyrir lögreglustjóra að reikna út sektarfjárhæðina, því ekki þarf annað en að síma til Landsbankans og spyrjast fyrir um gullgildi krónunnar. Skal jeg svo þakka háttv. meðnefndarmönnum mínum fyrir það, hve þeir hafa tekið vel í þetta mál, og vona jeg, að hv. deild taki því engu síður, því hjer er aðeins um það að ræða að greiða jafnháar sektir og ætlast var til upphaflega.