24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

1. mál, fjárlög 1925

Hákon Kristófersson:

Jeg á ekki við þennan kafla fjárlaganna, sem hjer er til umræðu, nema 2 brtt. Skal jeg strax taka það fram viðvíkjandi brtt. á þskj. 196 VIII., við 12. gr. 13. 1., að jeg tek hana aftur við þessa umr. Þá er aðeins eftir brtt. á sama þskj. undir V., sem jeg ber fram ásamt háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ). Er hún í tveim liðum, og ætla jeg aðeins að tala um þann fyrri, a-liðinn, sem veit að mjer sjerstaklega, vegna þess að jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. N.-Ísf. tali fyrir b-liðnum, vegna kunnugleika hans á því máli. Þessi brtt. okkar fer fram á hækkun á útgjöldum ríkissjóðs, og er það síður en svo að mjer sje það ljúft að bera fram tillögur um hækkuð útgjöld ríkissjóðs, eins og nú er ástatt. En svo geta verið brýnar ástæður til þess, að þetta verði nauðsynlega að gera, og svo er um þetta mál. Hjer ræðir um 15 þús. kr. styrk til sjúkrahúss og læknisbústaðar í Flatey á Breiðafirði. Jeg sneri mjer til háttv. fjvn. með þetta, en hún hefir eigi sjeð sjer fært að taka þetta upp, og sje jeg ekki ástæðu til að átelja það, en hefði þó talið betur fara á því, að háttv. fjvn. hefði þá alls engar tillögur gert í þessu efni. Jeg hafði einnig talað við landlækni um þetta og taldi hann sig þessu máli mínu fylgjandi, en þó skýtur þar nokkuð skökku við, um álit hans og tillögur, milli mín og hv. fjvn. Annars tel jeg óþarft að fara inn á þá hlið þessa máls, en vík að því eins og það liggur hjer fyrir. Þessar tillögur miða í þá átt, sem hefir mætt allmiklum andróðri frá ýmsum háttv. þm. Mig minnir, að hv. 1. þm. S.-M. kæmist þannig að orði um aðra till., svipaða þessari, að þar stæði alveg sjerstaklega á. Jeg ætla alls ekki að gera lítið úr þeim orðum þess mjög svo merka og mæta manns, en leyfi mjer aðeins að benda á, að þar, sem jeg á við með þessari brtt. minni, stendur einnig „alveg sjerstaklega á.“ Þetta hjerað, Flateyjarhjerað, er að mestu leyti umflotið sjó. Þar verður ekki sóttur læknir á annan veg en að farið sje á sjó til þess. Eigi að vitja læknis frá þeim hluta hjeraðsins, sem ekki er umflotinn sjó, verður bæði að fara á landi og sjó til að ná í lækni, nema að vitja hans í annað hjerað. Þeir sem búa í eyjunum, verða því að fara til læknisvitjana, ef ekki í Flatey, þá til Stykkishólms. Komið hefir það meira að segja fyrir, að orðið hefir að vitja lækni úr Múlahreppi til Stykkishólms. En þeir, sem til þekkja, vita best um það, hve miklum vandkvæðum það er bundið að fara langar ferðir og erfiðar sjóleiðir á Breiðafirði í skammdegismyrkri innan um brim og boða. Því er það í augum uppi, að brýna nauðsyn rekur til þess, að svo verði fyrir sjeð, að læknir verði fáanlegur í hjeraðið, en mesti agnúinn í því máli er bústaðarleysið. Jeg þykist hafa ástæðu til þess að ætla það, að síðasti læknir, sem þarna var, Árni nokkur Vilhjálmsson, hafi látið þau orð frá sjer fara, að hann sæi sjer ekki annað fært en að hverfa á brott úr hjeraðinu vegna bústaðarleysisins. Nú hafa menn þar í hjeraði hafist handa til undirbúnings þessa máls, og meira að segja hefir verið efnt til samskota til þess að byggja fyrir læknisbústaðinn og til þess að kaupa lóð undir hann, og þarf jeg ekki að lýsa því, að þetta fámenna hjerað getur þetta ekki upp á sitt eigið eindæmi. Því hefi jeg snúið mjer til hins háa Alþingis í þessu efni, og vænti þess, að þetta hjerað fái að njóta sömu rjettinda og önnur læknishjeruð hafa notið undanfarin ár; vísa jeg í því efni til gerða síðasta þings. Nú er þessu máli svo langt komið, að húsagerðarmeistari ríkisins, hr. Guðjón Samúelsson, hefir gert teikning að og kostnaðaráætlun um þennan fyrirhugaða læknisbústað, og nemur sú kostnaðaráætlun 81 þús. kr., miðað við Reykjavíkurverð, en við fljótlegt yfirlit verður alt efni til þessarar byggingar að minni reynslu mun dýrara í Flatey en hjer syðra, nema ef vera skyldi vinna.

Hæstv. atvrh. (MG) drap á það, að hann vildi styðja að því, að styrktar yrðu þær sjúkrahús- og læknissetursbyggingar, sem mest væri þörfin fyrir að ráðist væri í. Jeg þakka hæstv. atvrh. þessi ummæli hans, en jeg álít, að betur færi á því, að það sje ákveðið, hvað fara á til hvers sjúkraskýlis, því annars gæti það valdið miklum meiningamun, hvaða staðir ættu að ganga fyrir og hverjir að bíða. Færi svo, að háttv. þingdeild hyrfi að því ráði að fella þessa brtt. mína, býst jeg við, að það verði þá aðeins af því, að háttv. þingdeild vilji halda inn á þá braut að veita alls enga styrki í þessu skyni; enda væri það miður heppilegt að taka út úr eitt hjerað í þessu efni og veita því styrk, en setja önnur hjá. Það er að vísu alment viðurkent, að fjárhagur ríkisins er nú svo þröngur, að skera verður við nögl eða fella alveg niður margar fjárveitingar, sem annars eru taldar nauðsynlegar, en því er nú þannig varið, að fjárveitingar, sem miða að því að vernda og tryggja líf og heilsu almennings, má allra síst skera niður eða takmarka að mun. Mjer hafði og af hjeraðsbúum verið falið að leita heimildar Alþingis til þess að fá lán úr viðlagasjóði, en mjer dettur ekki í hug að fara þá leið, þar eð jeg þykist þess fullviss, að það hefði orðið árangurslaust. En þó að nú þingið veiti fjelaginu þennan styrk, verður það samt að fá fje að láni til að greiða hinn hluta kostnaðarins, og jeg býst við., að þeim verði fullerfitt að standa straum af því. Þess vegna vona jeg, að háttv. deild verði mjer sammála um það, að þegar umrætt hjerað vill leggja svona hart á sig til þess að koma þessu í framkvæmd, þá sje rjett að Alþingi veiti þeim þennan umbeðna lága styrk, þrátt fyrir það, þó að fjárhagur ríkisins sje örðugur í svipinn. En hvað snertir fjárbeiðni hv. 2. þm. Árn. (JörB) til Grímsneshjeraðs, hefði jeg leitt það alveg hjá mjer, hefði háttv. þm. eigi gefið mjer tilefni til þess að víkja að því nokkrum orðum. Jeg skaut þeirri spurningu fram í mesta meinleysi, hver það hefði verið, sem hefði boðið viðkomandi hjeraði í fyrra kaup á því margumrædda Geysishúsi. Jeg mundi alls ekki hafa spurt um þetta, ef jeg hefði vitað, að húsið hefði verið boðið fram. Jeg hugði sem sje, að húsið hefði verið selt samkvæmt beiðni hjeraðsbúa, en vissi alls ekki, að það hefði verið boðið fram að fyrra bragði. En mjer fanst yfir höfuð öll ræða háttv. 2. þm. Árn. vera nokkurskonar kisuþvottur á þeim ráðherra, sem seldi Grímsnesbúum húsið. Munu ályktarorð mín og annara, sem andmæltu þessari sölu á síðasta þingi, hafa jafnt gildi eftir sem áður, þrátt fyrir þennan ræðuþvott háttv. 2. þm. Árn. Þegar hann drap á verð hússins — að það hefði kostað um 2000 kr. upphaflega —, þá gat hann þess ekki, sem hann þó hefði átt að gera, að síðan húsið var bygt og til þess er salan fór fram hafði allur húsaviður og annað efni til húsabygginga hækkað að minsta kosti 4–5-falt. (JörB: Jeg hefi tekið þetta fram). Jú, háttv. þm. tók fram í fyrir mjer nú sem oftar, en hafi hann nefnt þetta í ræðu sinni, hefi hvorki jeg nje aðrir heyrt það, og þess vegna dreg jeg það mjög í efa, að þetta komi fram í ræðu hans eins og hún kemur úr höndum skrifaranna.

Háttv. 2. þm. Árn. (JörB) gat um það, að efniviður hússins hefði verið metinn til verðs, en jeg spyr þá — án þess að setja beint út á það mat — hvernig var efnið metið? Var viðurinn í húsinu metinn sem telgdur viður samskonar eða sem ótelgdur viður? Þetta getur munað talsverðu, við hvora tegund víðar hefir verið miðað, telgda eða ótelgda. Þá gat háttv. þm. eigi um það atriði, sem þó er allverulegt, að það má telja, að hjeraðið hafi hlotið alls eigi óverulegan styrk í því innbúi, sem fylgdi húsinu, og verður eigi vægar að orði komist en að fyrir sjúkrahús sje þetta alls eigi einskisvirði. Mjer fanst sem kendi nokkurs ásökunarhreims í rödd háttv. ræðumanns (JörB) til þeirra, sem á sínum tíma lýstu óánægju sinni yfir þessari ráðstöfun. Mjer þykir leitt, að hæstv. forsrh. (JM) er hjer eigi viðstaddur; hann kom inn á þá hlið þessa máls, sem veit að lítilfjörlegum styrk til læknisvitjana handa ýmsum hjeruðum, sem fjvn. hefir dregið saman í eitt, og taldi að þessi fjárveiting mætti falla niður, vegna þess hve lítilfjörleg upphæð það væri, sem kæmi í hluta hvers hrepps eða hjeraðs. Jeg veit að vísu, að þetta er smáræði, en eftir því sem upphæðin er minni, ætti og að vera síður tilfinnanlegt fyrir ríkissjóð að greiða það. Jeg tel það engan veginn sanngjarnt, að þau hjeruð, sem eru svo afskekt og illa sett að hafa ekki lækni, fái engan styrk til læknisvitjana. Ennfremur get jeg eigi heldur verið hæstv. forsrh. (JM) sammála um það, að læknar úti um land sjeu afaródýrir. Furðar mig mjög, að jafnstórmerkur maður og hæstv. forsrh. skuli halda þessu fram; því vart mun hann hafa þetta af reynslu mælt, eða að minsta kosti henni eigi víðtækri. Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. forsrh. hafi átt við þann taxta, sem hjeraðslæknum er ætlað að fara eftir, en jeg leyfi mjer að fullyrða, að fjölmargir læknar hafa margfaldað þann taxta með 2 eða 3.

Þá gleymdi jeg því, sem jeg vildi hafa tekið fram viðvíkjandi fjárbeiðni háttv. 2. þm. Árn. handa Grímsneshjeraði, að orð mín mátti eigi skilja svo, að jeg væri að mæla því í móti, að hjeraðinu yrði veittur þessi styrkur. Jeg læt það mál alveg hlutlaust. Jeg átaldi aðeins þetta, að háttv. 2. þm. Árn. mat það einskis, að hjeraðsbúar fengu margnefnt Geysishús með svo vægu verði, en það tel jeg einmitt, að þeim hafi verið allmikill styrkur.

Jeg á auk þessa brtt. ásamt háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) o. fl., en jeg ætla ekki að gera hana að umtalsefni að þessu sinni, þar eð jeg geri ráð fyrir, að háttv. þm. V.-Ísf. sjálfur, sem er aðalflm. þeirrar tillögu, taki þar til máls. En jeg treysti því, að þó að þar sje farið fram á allstóra fjárveitingu, sýni háttv. deildarmenn það með atkvæðum sínum, að þessu skuli varið til eins hins mesta þjóðþrifamáls, sem of lengi hefir setið á hakanum hjá þingi og stjórn og má alls eigi bíða lengur.

Jeg ætla að leiða hjá mjer að fara inn á till. háttv. fjvn. eða nál. hennar, enda liggur þetta eigi alt fyrir til umr. að þessu sinni. Jeg mun því hvorki færa háttv. fjvn. þökk mína nje vanþóknun, eins og sumir hafa gert. Jeg veit, að hún hefir haft með höndum erfitt verk og ærið vanþakklátt, sem óframkvæmanlegt er á þann hátt, að öllum líki; og viðvíkjandi brtt. einstakra háttv. þm. ætla jeg ekki að segja neitt að sinni, en jeg mun með atkvæði mínu sýna, hvernig jeg lít á þær. En að lokum máls míns vil jeg taka það fram, að þó að háttv. deild samþykki þessa brtt. mína, sem fer alllangt í hækkunaráttina á útgjöldum ríkissjóðs, munar þó meira um þær sparnaðartillögur, sem jeg á við síðari hluta fjárlaganna, og verði þær samþyktar, munu þær draga að mun meir úr útgjöldunum en þessi brtt. mín hækkar þau.