24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

1. mál, fjárlög 1925

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg á brtt. á þskj. 196, undir tölulið I, um að styrkurinn til manntalsins 1703 falli niður. Hefi jeg með þessu hneykslað ýmsa mæta mentamenn, og vil jeg því gera nokkra grein fyrir till. Hún er ekki fram komin vegna þess, að jeg vilji þennan styrk feigan, en ætlun mín var sú, að skjóta inn öðrum styrk, án þess að hækka útgjöldin frá því sem áætlað er, sem sje styrk til útgáfu handritaskrár Landsbókasafnsins. Skal jeg raunar fúslega játa, að það væri hart, ef þessi styrkur lenti milli tannanna á mjer, fyrst hann komst klakklaust framhjá Carybdis stjórnarinnar og Scylla háttv. fjárveitinganefndar. Því vil jeg vænta þess, að enginn samþykki þessa till., sem ekki ætlar sjer að fylgja líka síðari tillögu minni.

Þá hefi jeg enn flutt brtt. ásamt 7 öðrum þm., á þskj. 196,11, um að hækka fjárveitinguna til strandvarna úr 80 þús. kr. upp í 120 þús. kr. Að flm. eru svo margir og af öllum landshornum, ber þess skýran vott, hvað óskin um aukna strandgæslu er almenn.

Að ekki var meira fje veitt í þessu skyni á þeim árum, sem fjárhagur ríkisins var góður, kom til af því, að þá var tiltölulega lítill ágangur af botnvörpuskipum. Þá komust fiskigöngur hindrunarlaust inn í firði og víða var komið í líkt horf og áður en botnvörpungarnir komu til sögunnar. Þá fjölgaði smábátunum mjög og skipasmíðastöðvarnar höfðu jafnvel ekki við að sinna pöntunum. Og því er nú baráttan um þennan styrk svo hörð, að þörfin á honum hefir orðið því ríkari sem getan til að fullnægja henni hefir minkað. Umræður manna um strandvarnamálið hafa heldur ekki beinst í rjetta átt. Þær hafa flestar snúist um stórt skip, sem gæti fullnægt þörfum alls landsins. Þetta hefir tafið fyrir því, að landhelgisgæslan væri að sinni framkvæmd með þeim hætti, sem við höfum ráð á. Nú munu flestir vera þeirrar skoðunar, að henni sje best borgið með fleiri smáum skipum. Togararnir eru eins og kunnugt er næmir á að finna, hvar stóra strandvarnaskipið heldur sig í þann og þann svipinn. Af þessum ástæðum er þörfin mest að auka styrkinn til smáu skipanna. Og fáum vjer svo frá Dönum 1–2 stór skip þar á ofan, getur gæslan talist á sæmilega góðum vegi. En að útvega stórt skip, eitt eða tvö, sjálfir til landhelgisgæslunnar er okkur ofvaxið að svo komnu.

Til strandvarna hafa í fjárlögum verið ætlaðar 50 þús. kr. En hæstv. stjórn hefir greitt meira vegna hinnar knýjandi þarfar, og hefir aldrei verið að fundið. En gallinn var sá, að þessar 100 þús. kr., sem stjórnin greiddi á síðasta ári, gengu allar til síldargæslunnar við Norðurland auk þess sem nokkur fjárhæð var veitt til gæslu í Garðsjó og við Snæfellsnes. Urðu Vestfirðir því fyrir hinu mesta misrjetti, því hvergi er strandvarnaþörfin meiri en þar. Þegar Vestfirðir eru algerlega vanræktir, en Norðlendingar aftur á móti styrktir til að vernda síldarútveginn, þá er von, að tortryggni vakni um það, að öllum sje ekki ljúft að auka eftirlitið með því, að togarar veiði ekki í landhelgi. Styrkurinn hefir gengið allur til að vernda síldveiðar þeirra manna, sem margir hverjir hafa ágóða af veiðum í landhelgi. Þetta misrjetti þarf fyrir hvern mun að leiðrjetta, hvort sem styrkurinn verður hækkaður eða ekki.

Gremjan og tortryggnin yfir vanrækslu strandgæslunnar er ekki ástæðulaus, sem sjá má af því, að víða, einkum við Faxaflóa, er smábátaútvegurinn, sem fyrir fám árum var í uppgangi, nú alveg að hverfa. Á Vesturlandi er honum og mikil hætta búin, og er hjer ekki um það eitt að ræða að vernda bátaútveginn, heldur og að reyna að vernda og reisa við þá menning, sem þessi holli atvinnuvegur hefir skapað.

Jeg skal taka eitt dæmi til að sýna, hvílík þörf er á strandvörnum. Mjer er það kunnugt um ástandið í Arnarfirði, að togararnir gera á stundum þar svo mikinn aðsúg að smábátunum, að þeir þurfa jafnvel að flytja sig til, svo lífi sjómannanna sje ekki hætta búin. Sópa togararnir þar mið, sem þjettlögð eru veiðarfærum, og toga báðumegin fjarðarins alt upp í netalög. Jeg get til dæmis nefnt það um ágang togaranna, að nótt eina að haustlagi fyrir nokkrum árum mistu 50 bátar í Arnarfirði veiðarfæri sín. Nú hefir hver bátur venjulega 25 lóðir, og kostuðu þær þá 30 kr. hver, og verður það samtals 37500 kr. Þá var og ágætt fiski og má óhætt gera ráð fyrir, að hver bátur hafi tapað 2 skp. á 150 kr. skp., eða alls 15 þús. kr. Ofan á þetta bætist þriggja daga töf til að fara í kaupstað og afla nýrra veiðarfæra og koma þeim upp, og má ætla kostnað og vinnutap 45 þús. kr. Verður þá tapið þannig tæpar 100 þús. kr. á einum firði á einni nóttu, sakir þess, hve landhelgisgæslan er ljeleg.

Sjest best á þessu, að varatill. okkar flm. um 100 þús. kr. er sannarlega ekki of há. Því þessi fjörður, sem jeg tók til dæmis, Arnarfjörður, er ekki stór fjörður; hefir á að giska 1000 íbúa, sem lifa mest á sjávarútvegi. Og nefni jeg þennan fjörð ekki af því, að jeg er fulltrúi fyrir Vesturland, heldur þurfti eitthvert dæmi að taka, en líkar sögur berast víðar að. Háttv. 2. þm. Rang. (KlJ) hefir þegar í dag greint frá líku ástandi austanfjalls. Segja menn svo, að þó uppgripaafli sje einn daginn, sje hann ef til vill enginn þann næsta, því togararnir trufla svo veiðina. Slíkar sögur heyrast og frá Austurlandi síðari part sumars hvers. Talar þetta dæmi, sem jeg tók, því ekki aðeins fyrir Vesturland, heldur fyrir hönd alls landsins. Er sjávarútvegsbændum sannarlega vorkunn, þó þeim sje ekki rótt, er þeir horfa á 5–15 togara sópa botninn rjett við landsteinana. Fara bændur stundum út í ófært veður, því í illviðra- köstum er ágangurinn mestur, til þess að bjarga veiðarfærum sínum, og er mikið, að ekki skuli hafa orðið slys af. Hingað til hefir gremjan mest beinst gegn togurunum, en ef þingið og stjórnin heldur áfram aðgerðaleysi um þessi mál, er við því búið, að gremjan snúist gegn þeim fulltrúum þjóðarinnar, sem svo eru skeytingarlausir um hag landsins barna. Menn skilja best, hvað er í húfi og gremju útvegsbænda, þegar menn hugsa sjer, að stórgripir væru reknir í tún landbónda um hásláttinn. Ætli ekki mundi reynt að siga á þá. Hitt dæmið væri kannske rjettara, að ræningjar kæmu, slægju alt túnið, hirtu af því heyið og flyttu burt. Eitthvað mundi gert til að hindra slíkt, ef það kæmi fyrir. En gagnvart sjóránunum er vaninn nú búinn að sljófga menn svo, að menn líta ekki sömu augum á þau og gripdeildir á landi. Víst mundu fáir bændur telja það sparnað, að spara hund, sem þyrfti til að verja túnið. Býst jeg við, að útvegsbændur muni og ekki skilja þann sparnað, að um fje sje neitað til landhelgisgæslunnar. Menn verða að láta sjer skiljast, að landhelgislínan er engin gaddavírsgirðing, sem gerir vörnina óþarfa.

Jeg gat þess, að sár gremja væri um land alt yfir því, að strandvörnunum hefir ekki verið sint nægilega. Og sú gremja verður sárari með hverju ári, þegar menn heimta rjett sinn altaf að nokkru leyti — ekki líkt því öllu — og fá engu til leiðar komið eða sama og engu. Síldin gleypir alla fjárhæðina, en smábátaútgerðin er afskift. Er því ekkert furðuefni, þó menn fyllist gremju, er þeir hafa árangurslaust gert ítrekaðar tilraunir til að fá einhvern styrk úr sjóði þeim, sem þeir sjálfir hafa goldið til. Og ekkert er það kynlegt, þó þeir þreytist að lokum, ekki eingöngu á ránskap og yfirgangi togaranna, heldur og á sinnuleysi og deyfð þeirra manna, sem fara með þessi málefni fyrir þeirra hönd. Útvegsbændurnir greiða að vísu ekki öll gjöldin í landssjóð, en þeim háu tekjum, sem landssjóður hefir af stórútgerðinni, er sannarlega ekki betur varið til annars en að hindra ójöfnuð þann, sem stórútgerðin hefir í frammi við þá, sem minni máttar eru. Þessum gjöldum er ekki betur varið á annan hátt. Því slík landvörn er líka stórgagnleg fyrir togarana sjálfa. Því með því að sópa grunnmiðin og drepa ungviðið, spilla þeir veiði sinni á djúpmiðunum. Og togararnir gera sannarlega nóg tjón með veiðum sínum utan landhelgi, sem trufla fiskigöngurnar og hindra þær að komast inn á firði og víkur, þó þeir sundri ekki líka fiskinum á grunnmiðunum. Við flm. förum fram á að fá 120 þús. kr. til landhelgisgæslunnar, en til vara flytjum við aðra brtt., um 100 þús. kr. En áður hefir sjútvn. skrifað hv. fjvn. brjef, þar sem farið var fram á 145 þús. kr. Var sú upphæð skorin við nögl sjer og alls ekki miðuð við fylstu þörf, heldur aðeins við brýnustu nauðsyn. Hv. fjvn. hefir sjeð sjer fært að hækka áætlun stjórnarinnar upp í 80 þús. kr. Á hún þakkir skilið fyrir það, en lengra þarf að fara, og þegar litið er á dæmi það, sem jeg tók um hvað skeð gæti á einum firði á einni nóttu, get jeg ekki skilið í því, að neinn hiki að minsta kosti við það að fylgja varatill. okkar.

Það er mikið í húfi. Ekki er veiðiskapnum einum hætta búin, heldur og hinni kjarngóðu kynslóð útvegsbændanna. Smáútgerðin hefir altaf reynst hollasti atvinnuvegurinn. Togararnir gera menn að hálfgerðum farmönnum, slíta þá frá heimilum sínum, láta þá hafa of mikið að gera eina stundina, of lítið hina, og bæta ekki fólkið eins og smáútgerðin. Og síldin dregur menn líka frá heimilum sínum í síldarstöðvarnar, sem landsfrægar eru orðnar fyrir ómenning. Það eru útvegsbændurnir kringum land alt, sem fyrst og fremst þarf að vernda, því smáútgerðin er miklu hollari atvinnuvegur en stórútgerðin. Bátaútvegur í sambandi við landbúnað veitir næga atvinnu allan ársins hring, veitir þeim, sem hann stunda, í einu festu landbóndans og áræði og snarræði sjómannsins. Þetta er aðalatriði málsins, að mannfólkið sjálft er í veði. Það er ef til vill ekki ástæðulaust í þessu sambandi að nefna Jón Sigurðsson, sem alinn er upp í einni af þeim sveitum, sem nú er mest hætta búin af yfirgangi togara, ef eyra þingsins skyldi þá verða þynnra fyrir kröfum þess atvinnuvegar, sem löngum hefir alið það mannkyn, sem löngum hefir reynst best á landi hjer. Það er ekki þorskurinn einn, sem er í veði.