24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

1. mál, fjárlög 1925

Sigurjón Jónsson:

Jeg hefi verið svo óheppinn að lenda í andstöðu við háttv. fjvn. út af 2–3 brtt., sem hún ber fram, þó jeg yfirleitt fylgi brtt. hennar.

Önnur brtt. nefndarinnar, sem jeg get ekki fallist á, er á þskj. 163, um aðstoðarlækninn á Ísafirði, að laun hans sjeu lækkuð úr 2300 kr. ofan í 1800 kr. Þessi læknir kom til Ísafjarðar fyrir 16 árum síðan, árið 1908, og hafði þá 800 kr. laun. Þessi laun hafa svo verið smáhækkuð, aðallega 1919, þegar hækkuð voru laun lækna yfirleitt, og þegar dýrtíðaruppbót embættismanna var ákveðin, fjekk hann hana, dýrtíðaruppbótina, í hlutfalli við aðra. Það, sem jeg vildi segja um þetta mál, er eingöngu það, að upphæðin í frv. stjórnarinnar er síst hærri, miðuð við laun lækna, en 800 kr. byrjunarlaunin voru 1908. Þá munu læknar hafa fengið 1500 kr. laun, og laun aðstoðarlæknisins því liðugur helmingur. Laun hjeraðslækna nú eru 2500 kr., 3000 kr. og 3500 kr. og fara hækkandi um 15 ára skeið um 1000 kr. í alt, svo að hæstu launin verða 3500 kr., 4000 kr. og 4500 kr. Auk þess fá læknar nú dýrtíðaruppbót, sem er misjöfn eftir árum og verður að líkindum hærri næsta ár en nú. Ef vjer nú berum þessar 2300 kr., sem stjórnin áætlar aðstoðarlækninum, saman við meðallæknislaun nú, þá er þessi upphæð lægri í hlutfalli við læknalaunin en launin voru fyrst, þegar embættið var stofnað, jafnvel þó ekki sje tekið tillit til þess, að laun aðstoðarlæknisins ættu að fara hækkandi eftir þjónustuárum. Jeg vildi benda á þetta, af því að mjer virðist óeðlilegt að fara að minka við einn lækni, jafnvel þó laun hans standi í fjárlögunum, en hrófla ekkert við launum annara lækna. Jeg skal gjarnan játa, að læknar hafa hæst laun allra embættismanna, en jeg sje ekki ástæðu til þess að taka þennan mann einan út úr hópnum.

Önnur brtt. hv. fjvn., sem jeg get ekki verið með, er sú, að hækka skrifstofufje vitamálastjóra úr 3 þús. kr. upp í 3500 kr. Sje jeg lítið samræmi í því við aðrar tillögur að hækka við þennan mann, sem búast má við, að hafi fremur lítið að gera í skrifstofunni 1925, þar sem taka á fyrir allar verklegar framkvæmdir og enga vita að byggja. Vildi jeg því skjóta því til hv. þdm., hvort þeim fyndist ekki meira samræmi í því að láta þessar upphæðir báðar, sem jeg hefi nefnt, halda sjer eins og þær eru í frv. stjórnarinnar.

Svo vildi jeg benda á einn lið, það er skrifstofukostnaður landlæknis; en það er víst óþarfi, því þótt háttv. frsm. (ÞórJ) hafi ekki tilkynt, að sú brtt. sje tekin aftur, eru víst margir í háttv. fjvn. fallnir frá henni. En jeg vil aðeins taka undir það, sem háttv. frsm. upplýsti, að þessi skrifstofumaður landlæknis fær mjög lág laun, og landlæknir því minna fyrir húsaleigu. En vitanlega ber landlækni full húsaleiga, þó hann hafi skrifstofuna í sínu eigin húsi, en ekki úti í bæ, eins og t. d. vitamálastjórinn.

Út af brtt. okkar á þskj. 196, vildi jeg í þessu sambandi geta þess, að sjútvn. hefir sent háttv. fjvn. brjef, þar sem hún gerir tillögur um, hvernig styrkurinn til strandgæslunnar skuli veittur, ef hæstv. stjórn vildi taka tillit til þess, er hún úthlutar styrknum til hinna ýmsu landshluta.