03.04.1924
Neðri deild: 41. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1623 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

118. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. (Hákon Kristófersson):

Eins og greinargerð frv. ber með sjer, er frv. þetta flutt eftir ósk hæstv. atvrh. (MG) og samið af honum. Tildrögin eru þó frá landbúnaðarnefnd, sem hafði þetta mál til meðferðar. Að mál þetta var nokkuð lengi hjá nefndinni kom af því, að hún þurfti að afla sjer ýmsra upplýsinga. Eftir að hafa fengið þær, fjelst nefndin á, að rjett væri, að ráðuneytið gæfi út lög í þessu efni um það, að aðeins eitt baðlyf væri löggilt og leyfilegt til notkunar öryggi baðlyfjanna sje þar með trygt. Það er víst, að mikið af baðlyfjunum eru til í landinu, en sem ekki virðist gerlegt að nota nema það sje fullkomlega trygt, að þau sjeu vel nothæf til fjárböðunar, því undir baðlyfjunum er það vitanlega mest komið, hvort hægt er að útrýma fjárkláðanum, svo framarlega sem böðunin er að öðru leyti sómasamlega framkvæmd.

Mikið af baðlyfjunum hefir frosið, og það eru einmitt þessi skemdu baðlyf, sem hafa kipt fótunum undan þeim mögulegleika, að með þrifaböðunum væri stefnt að algerlegri útrýmingu fjárkláðans, og þar af leiðandi losa ríkissjóð við kostnað af allsherjar útrýmingarböðun.

Jeg vænti þess, að hv. deild láti þetta frv. ganga fram sem fyrst og að hæstv. forseti taki það aftur fyrir á næsta fundi. Að öðru leyti þarf frv. ekki skýringar við, enda get jeg vísað til greinargerðar þess.