24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

1. mál, fjárlög 1925

Magnús Torfason:

Jeg á enga brtt. hjer, en vildi gera nokkrar athugasemdir við brtt. IV á þskj. 196, um sjúkraskýli Grímsneshjeraðs. Það á sannarlega ekki af þessu máli að ganga að verða hnotabit hjer í deildinni. Það var í fyrra gert að stórpólitísku máli, sem varð þess valdandi, að 3000 kr. styrkbeiðni náði ekki fram að ganga. Það var bæði gert að bindindis- og brennivínsmáli í senn, en í slíkum málum hitnar mönnum gjarnast í skapi. Eins og málið liggur við nú, virðist það liggja í augum uppi, að styrkinn ber að veita. Það er sannað með reikningum, að sjúkraskýlið hafi kostað rúmar 30000 kr., og var það auðvitað bygt í því trausti, að einn þriðji hluti fengist endurgoldinn úr ríkissjóði, sem föst venja er til, þegar líkt stendur á. Venjulega koma slíkar kröfur fram áður en skýlin eru bygð, svo að hjer hafa landssjóði verið sparaðir vextir. Hjer er því um feikilegt misrjetti að ræða, ef styrkurinn verður ekki hækkaður, og er þetta líklega fyrsta brotið á reglunni um fjárveitingar til sjúkraskýla síðan hún komst á. Sjerstaklega eru það tvær ástæður, sem fram hafa komið gegn hækkun styrksins. Hin fyrri er sú, að skýlið hafi grætt svo á ríkinu, er hið fræga Geysishús var keypt, að það eigi ekki heimtingu á frekari styrk þaðan. Húsið var talið 20000 kr. virði í fyrra á þinginu. 1907 kostaði skýlið 2000 kr. í því var allur byggingarkostnaður fólginn, og þá grunnurinn líka, sem ekki verður þó fluttur úr stað. Ríkissjóður selur húsið á 3000 kr. Hann hefir því, hvernig sem á er litið, grætt minst 50% á sölunni. Hús þetta var upphaflega bygt sem sumarhjallur og mjög óvandað, t. d. óheflað og ómálað að utan. Enda var það mjög ódýrt, samanborið við aðrar slíkar byggingar í sambandi við konungskomuna, t. d. Valhallarhúsið, er kostaði um 20000 kr. Húsið var því fúið og fyrnt og í það ýtrasta 1500 kr. virði. Annars hvílir öll sönnunarskyldan á þeim, sem halda því fram, að hjer hafi verið um stórgróða að ræða fyrir hjeraðið. Í því efni held jeg mjer fast við reikninga þá og skýrslur frá byggingameistara sjúkraskýlisins, sem eru nákvæmlega sundurliðaðar. Einn af okkar bestu og ráðvöndustu mönnum hefir líka sagt mjer, að svo hafi átt að ganga frá skýrslunni, að ekki yrði að henni fundið. En þótt ríkissjóður kunni að hafa fengið of lítið fyrir húsið, sem jeg efast þó um, þá tel jeg óvíst, að ríkissjóður hefði losnað við húsið með öðru móti en þessu.

Hin ástæðan er sú, að aðeins hafi verið sótt um 3000 kr. styrk í fyrra í þessu skyni. Jeg býst við, að ástæðan hafi verið sú, að skýlið var þá ekki fullgert og að þm. sá, er flutti beiðnina, hafi ekki verið nægilega kunnugur málinu, og því orðið misfellur á þessu. Eða hví ætti fátækt hjerað að hverfa frá þeirri skýlausu kröfu, sem það á til að fá þriðjung kostnaðarins endurgoldinn? Jeg sje alls ekki að þessi fjárbeiðni í fyrra komi málinu neitt við. Líklega hefir flutningsmaður haldið, að ekki þýddi að fara fram á meira í bili. Mjer finst, að hjeraðið, sem búið er að koma upp þessu myndarlega húsi, ætti ekki að gjalda þess, þótt það hafi verið gert að pólitísku æsingamáli, því að það er sannarlega ekki hjeraðsbúa sök.

Hv. síðasti ræðumaður mæltist til, að teknar væru aftur brtt. um styrk til sjúkraskýla. Jeg sje enga ástæðu til þess; má altaf færa misfellur í lag við 3. umr. Jeg vil svo leggja áherslu á, að jeg tel Grímsnessjúkraskýlið hafa algerða sjerstöðu í þessu máli, þar sem skýlið er þegar bygt og farið er fram á fjárveitinguna sem greiðslu ríkissjóðs á skuld. Það er alt öðru máli að gegna um áætluðu og óbygðu sjúkraskýlin, þótt sjálfsagt og eðlilegt sje, að stjórnin taki fult tillit til þeirra, eftir því sem ástæður verða til.