24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg er þakklátur hv. deild fyrir það, hve vel hún hefir tekið till. nefndarinnar. Umræður hafa aðallega snúist um fá einstök atriði, og því ekki margt annað, er svara þarf. Áður en jeg fer út í brtt. þær, sem fyrir liggja og standa í sambandi við ýmislegt, er svara þarf, vildi jeg víkja nokkuð að tilmælum hv. þm. V.-Sk. um að fresta atkvæðagreiðslu um nokkrar brtt. Hann sagðist hafa talað við nefndarmenn um þetta og þeir fallist á það. Háttv. varaforseti, þm. Borgf., sem er í nefndinni, hefir sent mjer miða, sem sýnir, að hann er mótfallinn þessu, og sama er að segja um 1. þm. Árnesinga. Jeg hefi því ekki leyfi til þessa, nema sjerstök áskorun komi fram eða jeg fái rætt þetta við meðnefndarmenn mína. — Þá vil jeg athuga þau mótmæli gegn einstökum atriðum, er fram hafa komið. Ef til vill hefði verið kurteislegra að svara hæstv. stjórn fyrst, en jeg mun þó taka þann kostinn, að svara þingmönnum eftir röð, Vil jeg þá fyrst víkja mjer að háttv. 2. þm. Rang. (KlJ). Hann hafði ýmislegt að setja út á gerðir nefndarinnar, sem við mátti búast, þar sem hann er fráfarandi fjármálaráðherra. Hann talaði um, að ýmsar af brtt. hennar væru þýðingarlausar. Átti hann þar við þær till., er hækka hin lögboðnu útgjöld. En það má ekki teljast þýðingarlaust að koma gjaldahlið fjárlaganna í það horf, að hún sje sannur spegill af því, sem greiða þarf, en ekki bein og vísvitandi blekking, — en þannig var hún frá stjórnarinnar hendi. Annars vil jeg geta þess, að starfsemi nefndarinnar hefir yfirleitt hlotið fremur lof en last.

Eitt af því, sem háttv. 2. þm. Rang. fann sjerstaklega að, var brtt. við 13. gr. um laun símamanna.

Jeg hafði í fyrri ræðu minni nákvæmlega gert upp þennan lið og sýnt fram á, að stjórnin hafði þar alrangt fyrir sjer. Hafði hún dregið frá laun fastra starfsmanna, sem annaðhvort voru þá fastir í stöðunni eða höfðu yfirgefið hana og var búið að veita öðrum, er námu kringum 12 þúsund kr. Þess utan dró fyrv. fjármálaráðherra frá 6500 kr., sem hann hefir aldrei getað gert neina grein fyrir hverskonar upphæð var. Þetta samtals er um 18 þús. kr., sem með dýrtíðaruppbót gerir 27 þús. kr., og það er sú upphæð, sem við launaliðinn er bætt. Annars má háttv. deild trúa því, að nefndin hefir hvergi hækkað hina lögboðnu útgjaldaliði meira en það, sem hún er sannfærð um, að minst verður að greiða.

Að öðru leyti hefir hæstv. atvrh. svarað þessum háttv. þm. um hækkun nefndarinnar á öðrum liðum símans, og skal jeg því leiða það hjá mjer. Þá þótti sama hv. þm. nefndin hafa hækkað of mikið vaxtaliðinn af skuldum ríkissjóðs, eða um 100 þús. kr. Eins og jeg tók fram í ræðu minni, eru talsvert yfir 2 milj. ósamningsbundnar skuldir í Landsbankanum, sem stjórnin hefir hvergi tekið til greina. Það er engin minsta von til þess, að af tekjum ríkissjóðs verði þetta greitt á þessu ári. Meira að segja lítil von til þess, að upp undir ¾ milj. verði greitt, eins og nefndin þó gerði ráð fyrir, því vextina reiknaði hún ekki nema af tæpri 1½ milj. Það er því síður en svo, að nefndin hafi gengið hjer of langt — miklu fremur of skamt — og ætti hv. þm. að vera nefndinni þakklátur fyrir að hafa bætt hjer úr vanrækslu hæstv. fyrv. stjórnar. Hann mintist og á, að víða hefðu verið hækkaðir útgjaldaliðir til ljóss og hita. Nefndin getur ekki að því gert. Hjer hefir verið um rangar áætlanir að ræða, og hvort sem miðstöðvarhitun er nú víða komin á eða ekki, eins og hv. þm. var að tala um, þá er það víst, að meira eyðist til þessa en stjórnin áætlaði, og má hv. þm. sjálfum vera þetta allra manna kunnugast. Þá mintist hann og á sóttvarnirnar og sagði, að nefndin hefði hækkað liðinn of mikið. Eins og menn vita, eru áraskifti að því, hve þessi útgjaldaliður er hár. En sú upphæð, er nefndin stingur upp á, er þó lægri en síðasta ár, er ekkert sjerstakt kom fyrir, og lægri en nokkru sinni hefir átt sjer stað síðan 1918.

Hann talaði og um berklavarnakostnaðinn og var sammála nefndinni um, að sá liður yrði hækkaður. Frumvarp það, sem á leiðinni er um þetta mál, var ekki kunnugt mjer nje neinum í nefndinni, að því er jeg veit, en nefndin bjóst við því á hverri stundu, og frestaði því að taka ákvörðun um þennan lið. En mun gera það til 3. umr., eftir því sem henni sýnist við eiga eftir frv., sem þá að líkindum verður komið inn í deildina.

Þá drap hann og hv. þm. Ísaf. líka á skrifstofukostnað vitamálastjóra. Það er nú máske von, að undarlegt þyki, að nefndin skuli hækka þennan lið. En það er ekki gert að órannsökuðu máli. Enda þótt um engar nýbyggingar sje að ræða, er eftirlitið mikið og kostnaðarsamt og þarf sjerfróðs manns með, þar sem má heita að stöðugar viðgerðir sjeu á einhverjum stað. Nýbyggingar hafa eiginlega minni áhrif á þennan kostnað en margir ætla. Nefndin lagði til að lækka skrifstofukostnað vegamálastjóra um 500 kr. á ári, þar sem líkt stóð á, en sá kostnaður hafði ekki farið yfir áætlun, en skrifstofukostnaður vitamálastjóra var síðasta ár 4500 kr., svo í raun og veru er hann lækkaður um 1000 kr. frá því, sem hann virkilega var. En lækkun stjórnarinnar um 1500 kr. sýnist ekki geta staðist.

Þá beindi hæstv. fjrh. (JÞ) þeirri fyrirspurn til nefndarinnar, hversu miklar greiðslur hún mundi leggja til, að ríkissjóður inni af hendi samkvæmt gömlum lögum og þál. Hæstv. atvrh. (MG) hefir svarað því fyrir nefndarinnar hönd, að hún hefði búist við, að hv. fjhn. gerði till. þar að lútandi, svo sem venja hefir verið, en ekki fjvn. Nú hefir hæstv. fjrh. f. h. hv. fjhn. afhent fjvn. slíkar tillögur, og mun hún taka þær til athugunar og bera síðan fram till. sínar í þessu efni.

Þá kem jeg að hv. 2. þm. Árn. (JörB). Hann mintist, eins og hv. 2. þm. Rang. (KlJ), á símalagningarnar. Því hefir einnig verið svarað af hæstv. atvrh., og mun jeg láta það svar nægja f. h. nefndarinnar. Þá var annað atriði í ræðu hv. sama þm. (JörB), sem jeg vildi athuga nánar, sem sje styrkurinn til læknishjeraða. Var talsverður þungi í ræðu hans í garð fjvn. út af meðferð hennar á styrk til læknisbústaðar og sjúkraskýlis í Grímsneshjeraði. Var sá þungi máske dálítið eðlilegur, vegna þess að háttv. þm. mun ekki kunnugur því, sem fram kom á síðasta þingi um það, hversu meta bæri hagnað þessa hjeraðs af kaupum Geysishússins. En þá var það meining þingmanna hjeraðsins, sem báðu um 3000 kr. styrk handa Grímsneshreppi til byggingar sjúkraskýlis, að hjeraðsbúar væru ánægðir með þann styrk, enda væri hann hæfilega hár, samanborið þið það, sem önnur hjeruð fengju. Nú má vel vera, að þingið í fyrra hafi metið hagnað hjeraðsins af kaupum Geysishússins fullhátt, enda vildu sumir a. m. k. áætla hann nær 20 þús. kr. En nú skal jeg meta hagnaðinn á mælikvarða hv. þm. (JörB). Hann viðurkendi við hv. þm. Barð., að byggingarefni hefði fimmfaldast síðan húsið var upphaflega bygt, en þá kostaði það 2 þús. kr. (JörB: Það hefi jeg aldrei gert, og munu bæði skrifararnir og hv. þm. Barð. geta borið um það). Jeg skrifaði þessi ummæli háttv. þm. hjá mjer, og enda mun láta nærri, að þau sjeu ekki fjarri sanni. Eftir því hefir húsið átt að vera nær 10 þús. kr. virði. Þá taldi háttv. þm. rjettmætt að slá 20% af fyrir fyrningu o. s. frv., og skal jeg ganga inn á það. Þá verður útkoman sú, að húsið hefði átt að kosta 8000 kr., en var selt fyrir 3000 kr. Sje þetta alt saman rjett, þá hefir hjeraðið hagnast um 5000 kr. á kaupum hússins, og verður sú upphæð að skoðast sem styrkur úr ríkissjóði, því jafnframt hefir hann þá vitanlega skaðast um sömu upphæð á sölunni. Nú fer hv. þm. fram á 9 þús. kr. styrk til læknishjeraðsins, en nefndin vill veita 3 þús. kr. í viðbót við þau 5 þús., sem hjeraðið hefir áður fengið á þann hátt, sem jeg hefi nú lýst. Fer þá munurinn að verða býsna lítill í samanburði við það, sem hv. þm. (JörB) vill vera láta, eða aðeins eitt þúsund krónur. Við þennan útreikning hefi jeg bygt á þeim grundvelli, sem hv. þm. hefir sjálfur lagt, og mun því mega treysta því, að hjer sje rjett með farið. Það er að vísu þýðingarlaust að þrátta um þetta atriði hjer, en geta vil jeg þó þess, að landlæknir gerði engar ákveðnar till. til nefndarinnar í þessu efni. Hann taldi að vísu sanngjarnt, að hjeraðið fengi einhvern styrk, og nefndin hefir líka lagt til, að svo verði. Má vera, að hann sje að einhverju leyti of lágur, en eins og jeg hefi tekið fram, hefir nefndin ekki haft tækifæri til þess að láta rannsaka til hlítar það mat hjeraðsbúa, sem hv. þm. (JörB) byggir svo mjög á. En ef hann hefir rjett til að álíta nefndina hlutdræga í þessu máli, þá hefir hún engu síðri rjett til að álíta hið sama um tillögur hjeraðsbúa sjálfra, þar sem þeir eru annar aðili málsins. En nú hefir hv. þm. sjálfur metið umrædd kaup, og vil jeg f. h. nefndarinnar leggja trúnað á það mat hans, og læt því útrætt um þetta atriði að sinni.

Næstur verður fyrir mjer hæstv. forsrh. (JM). Hann gerði 9. brtt. nefndarinnar, viðvíkjandi sendiherranum, að umtalsefni. Taldi hann hæpið, að komist yrði af með 17 þús. kr. í skrifstofukostnað og laun þess manns, sem með embættið færi, en taldi sennilegra, eftir því sem reynslan hefði sýnt, að sá kostnaður færi upp undir 20 þús. kr. Þetta má vel rjett vera, og enda hefir nefndin ekki lagt neina sjerstaka áherslu á það, að liður þessi færi ekki lítilsháttar fram úr áætlun hennar. Telur hún sparnað á þessum lið ærinn samt. En þar sem hæstv., forsrh. hefir talið, að 20 þús. kr. myndu nægja, verður nefndin að leggja áherslu á það, að fram úr þeirri upphæð verði ekki farið, og mun því skoða till. sína sem áætlunarupphæð, ef henni verður ekki breytt við 3. umr.

Þá mintist hæstv. forsrh. (JM) á læknisvitjanastyrk, sem hann kvað mega lækka eitthvað. Fyrst er þess að geta, að fjvn. áleit, að hæstv. stjórn hefði betra tækifæri til þess að skifta styrk þessum heldur en nefndin, og leggur því til, að stjórnin verði látin um það verk. En þar sem styrkurinn er í frv. lægri en hann áður hefir verið og þar sem nefndin ætlast til þess, að styrkur samkvæmt brtt. háttv. 1. þm. N.-M. (HStef) o. fl. á þskj. 196 sje innifalinn í þessari upphæð, þá bjóst nefndin við því, að hún mætti ekki lægri vera. Viðvíkjandi því, að ekki sje nægilega tilgreint í aths. um þennan læknisvitjanastyrk, að styrkur samkvæmt áðurnefndri brtt. 1. þm. N.-M. sje innifalinn í honum, þá má breyta því til 3. umr., ef brtt. verður þá ekki samþykt sjerstaklega.

Þá stakk hæstv. forsrh. upp á því, að styrkur til sjúkraskýla og læknisbústaða væri ákveðinn í einu lagi árlega, en stjórnin síðan látin taka ákvörðun um það, hverjum hann væri veittur.

Vel má vera, að þetta væri í sjálfu sjer rjettara, en þó að svo yrði ákveðið, þá býst jeg við því, að hæstv. stjórn myndi byggja úthlutun sína á sömu gögnum og fjvn. gerir, sem sje tillögum landlæknis. Kæmi þetta þá í sama stað niður.

Næstur verður fyrir mjer hv. þm. V.-Sk. (JK). Hann talaði sjerstaklega um styrk til sjúkraskýla, og skal jeg þess vegna víkja að því lítið eitt nánar. Hann sagði, að ómögulegt væri fyrir þingið að ákveða, hvaða skýli skyldu sitja fyrir, heldur ætti stjórnin að gera það. Jeg er nýbúinn að svara þessu, og þarf því ekki að orðlengja frekar um það.

Það er rjett, sem hv. þm. (JK) sagði, að undirbúningur sjúkraskýlisins í Vík er að sumu leyti betri en annara sjúkraskýla. Hann er betri að því leyti, að nægilegt fje mun vera fyrir hendi til þess að byggja skýlið, en teikningar af skýlinu lágu ekki fyrir nefndinni fyr en nú alveg nýlega. En annars skal jeg fyrir hönd nefndarinnar taka það fram, að það virðist nokkuð undarlegt, að þegar menn sækja um þessa styrki, þá er eins og þeir haldi, að þeir þurfi ekki annað en kom i með uppdrætti af væntanlegum skýlum og læknisbústöðum. Fyrst og fremst ber húsameistara engin skylda til að láta uppdrætti þessa í tje ókeypis. Og í öðru lagi er haft á orði, að ekki sje í öllu sem „praktiskast“ fyrirkomulag á teikningum hans. Þetta Víkurskýli og læknishús á t. d. að kosta, samkv. áætlun húsameistara, um 40 þús. kr., og er ráðgert, að það hafi aðeins 5 rúm.

Önnur skýli, t. d. Borgarnesskýlið, sem nefndinni virtist, þegar á alt var litið, best undirbúið allra þeirra, sem styrks var leitað fyrir, er áætlað að kosti jafnmikið, en hafi 11 rúm. Hafði húsameistari ekki gert þær teikningar. Það er sem sje ekki nægilegt að sníða fyrirkomulag þessara bygginga eftir útlendum fyrirmyndum eingöngu, heldur verður að taka tillit til hjerlendra staðhátta og skapferlis þjóðarinnar. Annars get jeg ekki sjeð, að altaf sje sjálfsagt að veita þessa styrki, hvenær sem um er beðið. Enn er einn annmarki á byggingu sjúkraskýlis í Vík. Þar er aldraður læknir, sem af öllum er talinn óhæfur til að standa fyrir sjúkraskýli. Og þó að hv. þm. (JK) hafi sagt, að hann væri fús til að segja af sjer undireins og sjúkraskýlið kæmi upp, þá hefir engin slík yfirlýsing frá honum legið fyrir nefndinni. Jeg þekki ekki þennan embættismann, en hitt veit jeg, að menn hafa til að sitja sem fastast einmitt eftir að slík skýli eru reist, og ef svo færi hjer þá yrði skýlið að litlu liði fyrsta kastið. Þetta atriði er einmitt mjög athugavert.

Þá mintist sami hv. þm. (JK) á uppbótarstyrk til Síðuhjeraðs, vegna þess, að læknisbústaðurinn og sjúkraskýlið þar hafi farið fram úr áætlun. Jeg vil minna hann á, að í fyrra lá fyrir þinginu kostnaðaráætlun yfir þessa byggingu, og var 10 þús. kr. styrkur þá talinn nægja, enda var sú upphæð veitt. En það sýnir, hversu mjög ber að treysta hinum góða undirbúningi, sem allir þeir, sem um slíkan styrk sækja, hrósa sjer svo mjög af, að nú hefir þessi bygging orðið dýrari en í fyrra var áætlað. En nú hefir aldrei verið venja að veita þannig lagaða uppbótarstyrki, og er því ekki að undra, þó að fjvn. mæli ekki með því nú. Það verður að teljast afgert mál, þegar læknishjerað óskar eftir að fá slíkan styrk samkvæmt framlagðri áætlun — og fær hann. Það dugir ekki, að þau geti síðan komið til þingsins eftir á og heimtað uppbætur, ef áætlunin hefir reynst röng. Það vita líka allir, að ríkissjóði ber engin lagaskylda til þess að borga þriðjung kostnaðar við slíkar byggingar. Fyrir því er aðeins stutt venja, sem tekin hefir verið upp á allra síðustu árum. Og í sambandi við það, að hv. 1. þm. Árn. (MT) vildi telja ríkissjóð skulda læknishjeruðunum 1/3 slíks kostnaðar, þegar þau hefðu lokið byggingu sjúkraskýlanna, þá verð jeg að álíta, að ekki sje unt að tala um skuld þar, sem engin skuld hefir verið stofnuð.

Það hvílir því engin lagaskylda á ríkissjóði hvað snertir styrk til slíkra sjúkraskýla, þó að fjvn. vilji fara svo langt sem hún gerir í þessu efni.

Viðvíkjandi styrknum til bátaferða skal jeg geta þess, að fjvn. kemur hann ekki beinlínis við og hefir því engar till. um hann gert. Er það hv. samgöngumálanefnd, sem um það mál fjallar.

Þá kem jeg að hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Jeg þarf litlu að svara því, sem hann sagði um læknisvitjanastyrk til Hróarstunguhjeraðs. Fjvn. hefir altaf viðurkent, að sjálfsagt sje að veita styrk þennan, ef læknir kemur í hjeraðið, og er enn sömu skoðunar. Þessu næst mintist háttv. þm. á styrk til sjúkrasjóðs Fellshrepps, sem hann vill láta fella niður, og tók til samanburðar þá till. fjvn. að lækka ferðastyrk augnlæknis. Mjer hefði nú þótt líklegra og betur sambærilegt, að hann hefði borið styrk þennan saman við styrkinn til slysatryggingarsjóðs „Dagsbrúnar“, sem nefndin hefir heldur ekki viljað fella niður. Þessir tveir styrkir komu samtímis inn í fjárlögin og hafa staðið þar saman síðan. Hvað viðvíkur ferðakostnaðarstyrk augnlæknis að öðru leyti, þá skal jeg geta þess, að nefndinni þykir lækningaferðum hans ekki hafa verið hagkvæmlega fyrir komið hingað til. Í stað þess að læknirinn hefir farið eina ferð árlega kringum alt landið, þá telur nefndin heppilegra, að hann skifti landinu niður og heimsæki aðeins nokkum hluta þess árlega, en dvelji þá heldur lengur á hverjum stað. Mun tiltölulega lítið gagn að komu læknisins, nema hann dvelji a. m. k. hálfan mánuð á hverjum stað. Annars er hætt við, að flestir sjúklingar þurfi hvort eð er að leita til Reykjavíkur.

Þegar háttv. þm. (SvÓ) tók hina sjerstöku ferð augnlæknis til Austfjarða í fyrra sem dæmi þess, hversu ferðir hans væru nauðsynlegar, þá er því fyrst til að svara, að hvergi hefir verið upplýst, hversu mjög sú ferð var bráðnauðsynleg. Sá ferðakostnaður, 1200 kr., var greiddur í heimildarleysi, þó að jeg vilji ekki beinlínis vefengja, að ástæða hafi verið til ferðarinnar. En slík tilfelli geta engu síður komið fyrir, þó að augnlæknir hagi ferðum sínum eins og hann hefir gert hingað til. Það fyrirbyggir ekki, að augnsjúkdómar geti komið upp í einhverju hjeraði landsins, sem þurfi skjótrar aðgerðar við. Þessir tveir styrkir eru því á engan hátt sambærilegir, og leggur nefndin fyrir sitt leyti á móti því, að feldur verði burtu styrkurinn til sjúkrasjóðs Fellshrepps, enda er upphæðin lítil, einar 200 krónur.

Þó getur nefndin ekki aðhylst till. hv. 2. þm. Reykv. (JBald) um að veita nýjan slíkan styrk til slysatryggingarsjóðs verklýðsfjelaganna í Reykjavík. Það er ekki af því, að nefndin viðurkenni ekki nauðsyn þessa sjóðs, en þegar það er athugað, að hann er þegar orðinn talsvert stór, og þegar nefndin bar þennan sjóð saman við ýmsa aðra sjóði og fjárhag ríkissjóðs, þá sá hún ekki fært að veita styrk þennan að þessu sinni, enda kæmi hann að tiltölulega litlum notum. Þar með hefi jeg svarað hv. 2. þm. Reykv.

Þá gerði hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) fyrirspurn um það, hvort nefndin hefði nákvæmlega gert upp, að styrkurinn til e. s. Esju færi ekki fram úr 100 þús. kr., sem nefndin hefir lagt til, að hann yrði áætlaður.

Því get jeg svarað neitandi.

Það er ekki gott að segja með neinni vissu, hve mikið muni eyðast í þessu skyni, en eftir því, sem næst verður komist, er upphæðin of lágt áætluð. Má jafnvel búast við því, að þessi styrkur nemi, þegar til kemur, um 150 þús. krónum, því að á 6 mán., sem skipið hefir gengið, varð hann um 76 þús. kr. Þó býst jeg við, að hann fari ekki fram úr þeirri upphæð, 150 þús., því að enn sem komið er er reynslan með skipið ekki löng, og er helst hægt að gera ráð fyrir, að einhver mistök kunni að vera á útgerð þess fyrst í stað, sem löguð verði er frá líður.

Það er því síður en svo, að nefndinni hafi dottið í hug að draga úr eða hætta að einhverju leyti strandferðum skipsins, þó að hún nú hafi lagt til, að þessi upphæð yrði áætluð til þeirra, en vel má vera, að til þess geti þó komið síðar af sparnaðarástæðum.

Þá kem jeg að hv. 1. þm. N.-M. (HStef). Jeg hefi svarað honum að mestu, en þó vildi jeg leyfa mjer að geta þess, að það er eigi nema sjálfsagt að skilgreina betur styrkveitinguna til læknisvitjana.

Þá er næstur hv. þm. Barð. (HK). Er þar sem víðar annarsstaðar um styrk til læknisbústaðar að ræða. Jeg gat þess í fyrri ræðu minni, að eftir áliti landlæknis hefði styrkur til þessa sjúkrahúss átt að koma næst á eftir Borgarneshjeraði, ef undirbúningurinn hefði verið góður. Og það má um þann undirbúning segja, að hann hafi eigi verið alls fullnægjandi, þar sem teikningu af bústaðnum vantaði, og auk þess var yfirlýsing landlæknis í þá átt, að enginn undirbúningur væri í hjeraðinu með fjársöfnun. Hitt var nefndinni kunnugt, að erfiðleikar eru þarna miklir með læknissókn, og það því mikil ástæða út af fyrir sig. En samt sem áður getur eigi komið til mála að ganga inn á þessa styrkveitingu, því að fyrsta skilyrðið til þess er, að nægilegt fje sje til frá hjeraðinu, því að þó að byrjað yrði að byggja fyrir styrkinn, þá er hætt við, að fyrirtækið strandi sakir fjárskorts, og eru til þess dæmi, sem vert er að varast.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) taldi það mjög óvinsælt að mæla á móti styrkveitingu þar, sem sjúklingar eiga í hlut. Það er af tveim ástæðum, sem nefndin hefir ekki getað gengið inn á brtt. háttv. þm. Önnur ástæðan er sú, hversu örðugur fjárhagur ríkisins er nú, og hin ástæðan er sú, að verði þessi styrkur veittur, þá er hætt við, að fleiri menn komi á eftir. Reynslan sýnir, að þetta er rjett, því þegar þingið gekk fyrst inn á þessa braut, þá kom heil skriða á eftir. Nú hefir þetta legið niðri um tíma, og því vildi nefndin eigi ganga inn á sömu braut aftur. Og jeg skal geta þess um annan þessara sjúklinga, sem fjekk styrk á síðasta þingi, að það er alveg rjett, eins og málið var þá afgreitt, að það leit út sem sparnaður að veita honum 1000 kr. styrk til þess að dvelja uppi í sveit, hjá því sem kosta hann í sjúkrahúsi, en þess ber að gæta, að það vantaði og vantar enn eitt atriði í þetta mál, sem sje það, að sjúklingurinn þarf að hafa læknisvottorð um það, að hann þurfi ekki sjúkrahúsvist, en um leið og hann fær þetta vottorð, er ríkissjóður engan veginn skyldur að kosta hann. Þetta tvent getur því ekki farið saman, læknisvottorð um þörf á sjúkrahúsvist og skylda ríkissjóðs til að kosta sjúklinginn utan sjúkrahúss. Vil jeg svo ekki vegna háttv. þm. fjölyrða meira um þetta.

Þá er það önnur till. frá þessum sama hv. þm. (JakM), sem sje 10 þús. kr. uppbót til talsímakvenna. Jeg get því miður ekki komið með ábyggilegan samanburð, launakjörum þessara starfsmanna ríkisins og annara, til þess með vissu að geta dæmt um þörfina til uppbótar, en þó hygg jeg, að ekki sje nein ástæða til þess. Nefndin leggur því á móti þessari till., meðal annars af því, að þá verður þingið að taka fleiri slíkar beiðnir til greina, en nefndin álítur ekki rjett að hreyfa mikið við launum starfsmanna ríkisins þangað til launalögin verða endurskoðuð í heild. Að minsta kosti þurfa slíkar till. sem þessi að vera reistar á sterkum rökum, ef þær eiga, að vera teknar til greina.

Þá kem jeg að hv. þm. Mýra. (PÞ). Jeg heyrði að vísu lítið til hans, en jeg veit, að till. hans fer fram á að hækka tillagið til akfærra sýsluvega um 10 þús. kr. Mig minnir, að hæstv. fjrh. hafi svarað þessu í dag á þá leið, að nefndin mundi styðja till., en svo er ekki. Hún telur ekki rjett að hækka tillagið meðan fjárhagur ríkissjóðs er svo erfiður, að hann getur ekki kostað vegi sjálfs sín. Nefndin hefir því lagt á móti brtt.

Þá kem jeg að hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Hann á hjer 2 brtt. Er önnur þeirra um að fella niður styrk til útgáfu manntalsins frá 1703, og skal jeg ekki fara út í það, en aðeins geta þess, að nefndin hefir óbundin atkvæði um liðinn. Hin brtt. er um landhelgisgæslu, að fyrir 80 þús. kr. komi 120 þús. kr. Jeg skal játa það, að nefndin hefir ekki fært rök fyrir því, að hennar upphæð sje sú rjetta, en hinsvegar gat hún ekki fallist á till. sjútvn. um 140 þús. kr. Taldi hún, að meðan þessi gæsla er jafnskipulagslaus og hún er, verði aldrei sagt með vissu, hvaða upphæð þurfi. Og þó að hún játi nauðsynina á þessu, þá veit hún líka, að fyrirhyggjulaust er hægt að fara með þetta, og því sje rjett að hafa reynsluna og hygnina með og smáauka með ákveðna breytingu fyrir augum, enda er hjer talsvert hækkað frá till. stjórnarinnar. Annars getur þetta altaf verið álitamál, og verða þá atkvæði að skera úr. Út í það, hvort betra er að hafa stórt skip eða smærri báta, skal jeg ekki fara; þar mun engin fullkomin reynsla vera um, en líklegt, að hvorttveggja geti verið heppilegt.

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) taldi 2 brtt. nefndarinnar ekki rjettmætar. Var önnur þeirra lækkun á launum aðstoðarlæknisins á Ísafirði og bar hann laun hans saman við laun annara lækna. Jeg skal benda hv. þm. á það, að launin eru enn í fullu samræmi við það, sem þau voru áður við laun annara lækna. Ef við tökum fastalækni með 2500 kr. launum, þá hefir hann með dýrtíðaruppbót 3700 kr., og eru það helmingi hærri laun en aðstoðarlæknisins nú, sem við setjum 1800 kr. En þegar laun hans voru sett með lögum, voru þau 800 kr., en fastalækna þá læggt 1500 kr. Hlutfallið er því svipað enn. Nefndin taldi ennfremur rjett að lækka þetta þegar af þeirri ástæðu, að engin lagaskylda ber til þess að launa lækninn svo hátt, ekki nema 800 kr.

Hvað skrifstofu vitamálastjóra snertir, þá hefi jeg svarað því áður. Og hvað skrifstofukostnað landlæknis snertir, þá hefi jeg einnig svarað því, þó eigi fyrir hönd nefndarinnar, heldur mína eigin. Mjer var falið að leita upplýsinga um það atriði og fjekk þær, en jeg læt mjer nægja að leggja það mál undir atkvæði hv. deildar án frekari greinargerðar.

Jeg hefi þá svarað öllu því, sem fram hefir komið, og sje því ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Hvað snertir það, að hv. 1. þm. Árn. (MT) talaði um, að sjúkraskýlismálið væri bæði bindindis- og brennivínsmál, þá skal jeg geta þess, að það er ekki mitt að greina það í sundur, og vel mega Árnesingar rífast um það bæði fullir og ófullir. Vænti jeg svo, að jeg þurfi ekki að taka til máls aftur að þessu sinni, enda geri jeg ráð fyrir, að langar ræður hafi ekki nein áhrif á atkvæðagreiðsluna.